Stjórn BÍL hefur sent allsherjar og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn um þingmál nr 65
Bandalag íslenskra listamanna hefur fengið til umsagnar 65. þingmál á 146. löggjafarþingi, þingsályktunartillögu um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar með því að gerðar verði tvær lágmyndir af honum og haldin ráðstefna um störf hans.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að áætlaður kostnaður við gerð og uppsetningu tveggja lágmynda af Jóni sé um 2 milljónir króna. Ekki er ljóst hvað liggur til grundvallar þessu kostnaðarmati en þó kemur fram að lágmyndunum virðist hugsaður staður innandyra og þá sem skildir í vegg, en ekki frístandandi brjóstmyndir. Einnig er ljóst að flutningsmenn sjá fyrir sér „mynd“ á skildinum en ekki einungis texta. Það þarf því augljóslega að gera ráð fyrir efniskostnaði, vinnulaunum og höfundalaunum myndlistarmanns við gerð lágmyndanna. Það er mat stjórnar BÍL að kostnaður við gerð og uppsetningu tveggja einfaldra lágmynda í formi skjalda í vegg innandyra, geti rúmast innan þeirra marka sem tillagan gerir ráð fyrir þó upphæðin hljóti að teljast í knappasta lagi.
Þá telur stjórn BÍL að koma hefði mátt fram í tillögunni hvort hún er unnin í samráði við Háskóla Íslands og Landsbókasafn, en slíkt samráð hlýtur að teljast forsenda fyrir því að sjálfstæðar mennta- og menningarstofnanir taki að sér að framkvæma hugmyndir af því tagi sem hér um ræðir.
Loks mætti allsherjar- og menntamálanefnd huga að því hvort sagan hafi að geyma upplýsingar um merkiskonu, sem mögulega mætti minnast með svipuðum hætti, til að vega upp á móti þeim kynjahalla sem viðgengst í opinberum ákvörðunum um að gerðar séu lágmyndir, brjóstmyndir og styttur af körlum sögunnar.