Bandalag íslenskra listamanna hefur sent umsögn um fjárlagafrumvarpið 2015 til fjálaganefndar, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar fengu umsögnina einnig senda.
Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:
* Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts í 12% er mótmælt
* Innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins
* Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 200 m. kr. til viðbótar í Kvikmyndasjóð
* Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:
– Myndlistarsjóður 45,0 m. kr
– Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna 89,8 m. kr
– Tónlistarsjóður 81,1 m. kr
– Bókasafnssjóður höfunda 42,6 m. kr
– Barnamenningarsjóður 8,0 m. kr
– Listskreytingasjóður 8,2 m. kr
* Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr
* Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og menningarsamningur við Akureyrarbæ skoðaður m.t.t. umfangs verkefna
* Verkefnið Handverk og hönnun fái endurnýjaðan samning til þriggja ára með 20 m. kr árlegu framlagi.
* Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þangað til slík áætlun liggur fyrir verði framlag til Miðstöðvar íslenskra bókmennta hækkað í 92 m. kr og veitt sérstökum fjármunum til stofnunar Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar
* Kynning á menningu og listum í sendiráðum Íslands verði hækkuð í 12 m. kr
* Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi, óbreytt framlag til myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum
* Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu
Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Það gerðist einnig nú í ár (sbr. t-póst frá starfsmanni nefndarinnar frá 8. okt. 2014).
Heildarmyndin
BÍL horfir til heildarhagsmuna listgreina og hönnunar í þessari umsögn og fagnar því að almennri aðhaldskröfu frumvarps til fjárlaga 2015 verði ekki beitt á verkefni sem falla undir menningarmál (bls. 272), en þar mun vera átt við einhvern hluta stofnana á menningarsviðinu frekar en stuðning við sjóði á borð við launasjóði listamanna og hönnuða eða verkefnatengda sjóði sem fjármagna verkefni sjálfstætt starfandi listamanna. BÍL mun því beina sjónum sérstaklega að þeim fjárlagaliðum sem ætlaðir eru sjóðum og miðstöðvum skapandi greina, ásamt þáttum sem lúta að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á kostnað menningar og lista, sbr. áform um hækkun virðisaukaskatts og skerðingu á mörkuðum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við áformaðan niðurskurð til listmenntunar á háskólastigi og óbreytt framlag myndlistarnáms á framhaldsstigi auk þess sem fjárlaganefnd er hvött til þess að tryggja framtíð tónlistarskólanna með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum.
Hækkun virðisaukaskatts
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% er með öllu óásættanleg. Hún fer ekki bara gegn öllum áformum um eflingu lestrarkunnáttu heldur lýsir hún atlögu að tungumálinu og mun hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir menningarlíf þjóðarinnar. Áhrifin munu ekki einungis birtast í verulegum samdrætti í bókaútgáfu heldur mun útgáfa tónlistar á geisladiskum og hljómplötum vart bíða þess bætur. BÍL styður heils hugar þær kröfur sem komnar eru fram frá fagfélögum rithöfunda og tónlistarmanna um að horfið verði frá þessum áformum. Nær væri að afnema virðisaukaskatt af útgáfu bóka og tónlistar með öllu í skynsamlegum skrefum og býðst BÍL til að leggja stjórnvöldum lið við gerð slíkrar áætlunar, listum og menningu til hagsbóta um ókomna tíð.
Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskert
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki í dvínandi gæðum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Sú efnahagslega óvissa sem ríkir í málefnum RÚV eykur enn á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Það er því eindregin krafa Bandalags íslenskra listamanna að Ríkisútvarpið fái hinn markaða tekjustofn útvarpsgjaldið óskipt inn í reksturinn. Auk þess leggur BÍL til að stjórnvöld taki tafarlaust til alvarlegrar skoðunar með hvaða hætti megi tryggja stöðu stofnunarinnar til framtíðar, svo sem fyrirheit eru gefin um í fjárlagafrumvarpinu, t.d. með því að létta af stofnuninni þungum lífeyrisskuldbindingum.
Listmenntun í hættu
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að tryggja fjölbreytta menntun fyrir alla aldurshópa, m.a. með auknum hlut list- og verkmenntunar, fyrirheit þar um hafa stjórnvöld gefið í gildandi námsskrám fyrir öll skólastig og menningarstefnu Alþingis frá 2013 (kafli I, tl. 4). Þrátt fyrir það hefur ævinlega þurft að berjast fyrir hlut listkennslu og er það einnig svo nú. Í frumvarpi til fjárlaga 2015 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 milljónum. Í ljósi stöðunnar í kjarabaráttu tónlistarkennara telur BÍL einboðið að stjórnvöld skoði með hvaða hætti börnum og ungmennum verði tryggð áframhaldandi menntun í tónlist jafnt í tónlistarskólum sem og menntun í tónmennt sem hluta af almennu námi í grunnskólum landsins. Sama er að segja um myndlistarnám á framhaldsstigi, þar gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir óbreyttum framlögum milli ára. Loks má geta þess að enn vantar reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, sem veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.
Háskóli listgreinanna
Listaháskóli Íslands, menntastofnun listgreinanna á háskólastigi, er eini háskólinn (utan Landbúnaðarháskóla Íslands) sem ekki fær aðhaldskröfu fjárlaga bætta með auknum nemendaígildum. Auk þess fellur niður 20 milljóna króna tímabundið framlag til úrbóta í húsnæðismálum skólans. Þegar skólinn var stofnaður, fyrir hvatningu frá Bandalagi íslenskra listamanna og með viljayfirlýsingu stjórnvalda, var strax áformað að skólanum yrði fundinn samastaður þar sem listgreinarnar gætu auðgað hver aðra í skapandi sambýli. Enn er skólinn rekinn víðs vegar um borgina og að stórum hluta í húsnæði sem hvorki stenst öryggiskröfur eða kröfur um aðgengi, að ekki sé talað um plássleysi og faglegar kröfur starfseminnar. BÍL lýsir yfir vilja til að leggjast á árar með stjórnvöldum í baráttunni fyrir bættum húsakosti LHÍ, en innan skólans er að finna ýmsar skapandi hugmyndir til lausna. Þá er mikilvægt að gera skólanum kleift að efna til meistaranáms í sviðslistum, en leiklist og dans eru einu námsbrautirnar sem ekki bjóða þann möguleika. Einnig er mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis sé upplýst um áform LHÍ um háskólanám í kvikmyndagerð, sem hefur staðið vilji til að koma á en aldrei verið fjárhagslegt svigrúm til þess í fjárframlögum til skólans. Í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda á seinni árum og jákvæðra efnahagslegra áhrifa kvikmyndagerðar á þjóðarbúið hvetur BÍL fjárlaganefnd til að skoða auknar fjárheimildir til LHÍ fyrir háskólanám í kvikmyndagerð í fjárlagafrumvarpi 2015.
Fjárfesting í skapandi greinum
Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar 2013 var gagnrýnd sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun gerir stöðu skapandi greina í frumvarpi til fjárlaga 2015 lítið betri en hún var í frumvarpinu 2014, þó lítillega hafi verið bætt úr við þriðju umræðu fjárlaga 20. og 21. desember 2014. Þ.a.l. verður í þessum kafla umsagnarinnar litið til fjárlaga 2013 og þeirrar áætlunar um eflingu skapandi greina, sem að mörgu leyti gekk eftir og sýndi sig í hækkuðu framlagi til verkefnatengdra sjóða listgreina og hönnunar á fjárlagaárinu 2013. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á eflingu skapandi greina í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar („Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar….“) og einnig í ljósi orða forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar um sókn í skapandi greinum („ Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs…“) lítur BÍL svo á að ákveðin mistök hljóti að hafa átt sér stað við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015 og leggur því í umsögn sinni til nokkrar veigamiklar breytingar svo áform ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.
Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi skapandi greina. Í þeirri vinnu hefur áhersla verið lögð á samhæft kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Það er mat BÍL að vel hafi tekist til í þessari endurskipulagningu, nema hvað fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að skapandi greinar eflist. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í einn og hálfan milljarð á þremur árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 300 milljónir 2015:
Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr 724,7 í 924,7
Myndlistarsjóður hækki úr 15 í 45,0
Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr 68,5 í 89,8
Tónlistarsjóður hækki úr 44,9 í 81,1
Bókasafnssjóður höfunda hækki úr 30,0 í 42,6
Barnamenningarsjóður hækki úr 3,9 í 8,0
Listskreytingasjóður hækki úr 1,5 í 8,2
Styrkir á sviði listgreina hækki úr 36,6 í 64,6
Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Það menningarstarf sem unnið hefur verið á grundvelli samninganna hefur skipt sköpum í blómlegu menningarstarfi landsbyggðarinnar á undanförnum árum auk þess sem þeir eru grundvöllur þess að byggð verði upp atvinnutækifæri í skapandi greinum utan höfuðborgarsvæðisins (sjá grein forseta BÍL í Austurfrétt 27.10.14 ). Skv. frumvarpi til fjárlaga 2015 eru menningarsamningarnir óbreyttir að krónutölu frá fyrra ári, bæði sá hluti þeirra sem fjármagnaður er af fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis (207,4) sem og sá hluti sem fjármagnaður er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (40,0). Þannig vantar 23 milljónir króna inn í samningana til að þeir standi í sömu krónutölu og þeir gerðu á fjárlagaárinu 2013. Samningurinn við Akureyrarbæ hefur einnig lækkað frá árinu 2013 og í ljósi erfiðleika í rekstri menningarstofnana á Akureyri er full þörf á að gefa gaum að þeim samningi líka. Þá er rétt að geta verkefnisins Handverk og hönnun, en það samningslaust um þessar mundir og þyrfti endurnýjaður samningur að fela í sér 8 milljóna króna hækkun á árlegu framlagi ef verkefnið á að geta sinnt áfram sínu mikilvæga hlutverki, sem er að auka gæði íslenska handverksins og gera sterkustu verkefnin hæfari til framleiðslu.
Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina (99,8 m kr) og Styrkir á sviði listgreina (36,6 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. BÍL hvetur nefndarmenn í fjárlaganefnd til að óska eftir sundurliðunum frá ráðuneytinu til þess að auka skilning á þeirri mikilvægu starfsemi sem þessum liðum er ætlað að fjármagna. Undir hatti safnliðarins um kynningarmiðstöðvarnar eru nú Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Íslensk tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er skemmst á veg komin og þarf verulega á hvatningu frá opinberum aðilum að halda til að komast almennilega á legg. Miðstöðvarnar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja. Forstöðumenn þeirra sitja t.d. í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og vinna þar náið með fagráði ferðaþjónustunnar í að samþætta aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu fyrir erlenda ferðamenn og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hluti af fjármögnum slíkra kynningarverkefna kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður er lægri í fjárlagafrumvarpinu 2015 en hann var á yfirstandandi fjárlagaári og vantar raunar 2 milljónir króna til að ná þeim 12 milljónum sem varði var til hans á fjárlagaárinu 2013. Þá vantar Miðstöð íslenskra bókmennta enn 20,4 milljónir króna til að ná því 92ja milljóna króna framlagi sem hún hafði á fjárlögum 2013.
Hönnunin hefur vistaskipti
Þær breytingar hafa orðið á fjárlagafrumvarpinu milli ára að Hönnunarmiðstöð, hönnunarsjóður og aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu hafa haft vistaskipti. Fram að þessu hefur það verið sameiginlegt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis að fjármagna rekstur Hönnunarmiðstöðvar og hönnunarsjóð. En þegar hönnunarstefna fyrir Ísland (http://lhi.is/news/honnunarstefna-2014-2018/) var samþykkt í janúar á þessu ári voru málefni hönnunar flutt alfarið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Það kann að hafa verið skynsamlegt með tilliti til þess hversu erfiðlega hefur gengið að skapa samhenta stjórnsýslu um málefni skapandi atvinnugreina, í öllu falli kemur Hönnunarsjóður einna best út af verkefnatengdum sjóðum í fjárlagafrumvarpi 2015. Hann kemst aftur í sitt fyrra horf (sbr. fjárlög 2013), þ.e. fær hækkun upp í 45 milljónir (er 25m kr í fjárlögum 2014) auk þess sem aðgerðaáætlun á grundvelli hönnunarstefnu fær 10 milljónir og Hönnunarmiðstöð 15 milljónir í rekstrarstyrk (bls. 324, 328 og 337). Undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er einnig að finna sjóðinn sem fjármagnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem hækkar milli ára um 300 milljónir króna. Það kann því að vakna sú spurning hvort lykillinn að hærra fjárframlagi í verkefni skapandi greina sé að færa þau úr menningarmála-ráðuneytinu og til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis?
Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga. Lægri virðisaukaskattur á bækur og tónlist, ásamt eflingu verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar. Þau fara líka saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, þess vegna telur Bandalag íslenskra listamanna sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera fullkomlega raunhæfar.
Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,
Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti