Stjórn BÍL hittir mennta- og menningarmálaráðherra á árlegum samráðsfundi í ráðehrrabústaðnum 2. apríl nk. Hér fylgir minnisblað stjórnar, sem sent hefur verið ráðuneytinu og lagt verður til grundvallar umræðunni:

Bandalag íslenskra listamanna hvetur stjórnvöld til að koma af alefli til liðs við listamenn og hönnuði í markvissri uppbyggingu starfsumhverfis skapandi atvinnugreina í samræmi við yfirlýstan vilja og samþykkta stefnu Alþingis, enda sameiginlegt hagsmunamál að efla fjölbreytni í atvinnulífi um land allt. Með samstilltu átaki verði athygli beint að þýðingu greinanna fyrir þjóðarhag um leið og mikilvægi frumsköpunar í listum er undirstrikað, enda er frumsköpunin grunnurinn sem skapandi greinar byggja á. Forsenda þess samstarfs er fólgin í eftirfylgni skýrslunnar Skapandi greinar; sýn til framtíðar, en tillögur skýrslunnar miða allar að innleiðingu skilvirkari stjórnsýslu um málefni greinanna, með hagsmuni beggja að leiðarljósi; -greinanna sem þurfa skilvirkt stuðningskerfi og stjórnvalda sem þurfa greiðan aðgang að faglegri ráðgjöf í málefnum greinanna.

Höfundaréttarmál og internetið
Höfundar verða fyrir gríðarlegu tekjutapi samfara sívaxandi aðgengi og dreifingu höfundarréttarvarnis efnis á netinu á sama tíma og ýmis fyrirtæki, sem selja aðgang að efnisveitum hvers konar, hagnast sífellt meira. Nauðsynlegt er að auka umræðu um höfundarréttarmál tengd internetinu, efla rannsóknir og móta stefnu með það að markmiði að bæta höfundum upp viðvarandi tekjumissi. Nauðsynlegt er að mennta- og menningarmálaráðuneytið beiti sér með markvissum hætti í þessum efnum, t.d. er nauðsynlegt að breyta reglum um gjald á afritunarbúnað til samræmis við tækni- og neysluþróun auk þess sem mikilvægt er að skilgreina ábyrgð þeirra sem selja aðgang að efni sem á að vera varið af lögum um höfundarrétt.

Verkefnasjóðir og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu
Síðastliðið vor skilaði starfshópur um verkefnasjóði og kynningarmiðstöðvar á listasviðinu ráðherra skýrslu með greiningu á starfsumhverfi sjóðanna og miðstöðvanna ásamt tillögum að samræmingu í tengslum við umsýslu þeirra. Í framhaldinu var Rannís falið aukið hlutverk hvað umsýsluna varðar, en fátt hefur heyrst af öðrum tillögum hópsins. BÍL lítur svo á að stjórnvalda bíði það verkefni að tryggja að í hverri listgrein sé til staðar sjóður með skilgreint hlutverk og stoð í lögum, auk þess sem starfsumhverfi miðstöðva listgreina og hönnunar verði samræmt. Slíkt er forsenda þess að jafnræði ríki milli einstakra listgreina varðandi aðgang að opinberum stuðningi. Því telur BÍL mikilvægt að yfirfara einstakar tillögur úr skýrslu starfshópsins með það að markmiði að ljúka innleiðingu skilvirkara stuðningskerfis við listgreinar og hönnun. Sú vinna tæki einnig mið af skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar.

Sviðslistasjóður/Sviðslistalög
allað er eftir því að frumvarp til sviðslistalaga verði lagt fram á ný á Alþingi, þar sem lögfest yrði stofnun sviðslistasjóðs, sem og sviðslistamiðstöðvar, hlutverk Leiklistarráðs endurskilgreint og fyrirkomulag framlaga til sviðslista verði komið í svipað horf og nú tíðkast í Kvikmyndasjóði. Slík breyting myndi án efa efla íslenska frumsköpun í sviðslistum og hvetja til fjölbreyttrar nýsköpunar í greininni t.d. með því að fleiri leikskáld, danshöfundar, hönnuðir, mynd- og tónhöfundar fengju tækifæri til að starfa. Einnig er mikilvægt að endurskoða hlutverk Þjóðleikhússins og efla fjárhagsgrundvöll þess, svo þessum máttarstólpa sviðslista verði kleift að rækja lögbundið hlutverk sitt með reisn.

Myndlistarsjóður/Feneyja-tvíæringurinn
Myndlistarsjóður var stofnaður með lögum nr. 64/2012 og hóf starfsemi með 45 milljóna króna framlagi á fjárlögum 2013. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 var sjóðurinn strikaður út, en eftir mikla baráttu samþykkti fjárlaganefnd að veita kr. 25 m. sjóðinn (45% niðurskurður). Eftir stofnun sjóðsins gera stjórnvöld þá kröfu að þátttaka Íslands í Feneyja-tvíæringnum sé fjármögnuð úr sjóðnum, en þáttakan kostar um 50 milljónir (árleg fjárþörf kr. 25 m). Ef stuðningur við Feneyja-tvíæringinn á að fara gegnum Myndlistarsjóð er nauðsynlegt að auka árlegt framlag í sjóðinn svo hann geti gert hvort tveggja í senn; að veita myndlistarmönnum verkefnatengda styrki eins og lögin gera ráð fyrir og fjármagna þátttökuna í Feneyja-tvíæringnum.

Kvikmyndasjóður/Endurskoðað samkomulag
Enn einu sinni er slegið á frest eflingu Kvikmyndasjóðs, en niðurskurður til sjóðsins milli áranna 2013 og 2014 var tæpar 400 milljónir (og raunar enn meiri ef miðað er við samkomulag það sem gert var um eflingu Kvikmyndasjóðs í des. 2011). Til að milda áfallið sem niðurskurðurinn veldur er nauðsynlegt að endurskoða tafarlaust samkomulag ríkisins við kvikmyndagerðarmenn til næstu fimm ára, koma þannig á stöðugleika í greininni og tryggja áframhaldandi öfluga framleiðslu íslenskra kvikmynda, sjónvarpsefnis og heimildamynda. Liður í þessu starfi er að gera formlega greiningu á störfum í kvikmyndagerð og skilgreina hæfniskröfur þeirra sem þeim sinna, en það verður einungis gert með atbeina mennta- og menningarmálaráðuneytis í nánu samstarfi við fagfólk í greininni.

Bókasafnssjóður höfunda
Bókasafnssjóður höfunda starfar skv. lögum nr. 91/2007 sem mæla m.a. fyrir um greiðslur fyrir afnot bóka á bókasöfnum og gera þau ráð fyrir að Alþingi ákveði fjárveitingu til sjóðsins í fjárlögum ár hvert. Hvergi er þó mælt fyrir um hvað liggur til grundvallar framlaginu og virðist það háð geðþótta yfirvalda hverju sinni. Þannig fær höfundur t.d. 32 kr fyrir útlán bókar eitt árið en 17 kr. það næsta. Mikilvægt er að tryggja meira jafnvægi í greiðslum þessum milli ára svo tilgangi sjóðsins og laganna sé fullnægt.

Hönnunarsjóður/Hönnunarstefna
Sama var uppi á teningnum í fjárlagaferlinu varðandi Hönnunarsjóð og Myndlistarsjóð, hann var ekki að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir 2014, en fór inn í lögin með breytingartillögu fjárlaganefndar með 25 m.kr. framlag, sem var niðurskurður frá fyrra ári um 20 m. eða 45%. Sjóðurinn gegnir lykillutverki sem verkefnasjóður fyrir ariktektúr og aðrar hönnunargreinar og er ætlað hlutverk varðandi eftrifylgni nýsamþykktrar hönnunarstefnu með því að veita þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki auk ferðastyrkja. Hönnunarstefnan var unnin í nánu samstarfi stjórnvalda og fagaðila en með henni hverfur umsjón Hönnunarsjóðs úr mennta- og menningarmálaráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mikilvægt er að verkefnatengdir sjóðir á sviði lista og hönnunar þróist með svipuðum hætti og því eðlilegt að fylgjast náið með því hvernig Hönnunarsjóði reiðir af í nýju ráðuneyti. Slíkt verður í höndum stýrihóps ráðuneytanna tveggja sem fær það hlutverk að vakta innleiðingu stefnunnar. Óljóst er hvort ábyrgð á Menningarstefnu í mannvirkjagerð fylgir með í þessari nýju verkaskiptingu, en mikilvægt er að henni verði tryggður nauðsynlegur sess í tengslum við opinberar framkvæmdir.

Tónlistarsjóður
Um Tónlistarsjóð gilda lög nr. 7/2004 og reglugerð nr. 125/2005. Ljóst er að tilgangur laganna hefur aldrei verið uppfylltur og er ástæðan nánast eingöngu sú að aldrei hefur verið veitt nauðsynlegum fjármunum í sjóðinn til að geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu. Þó má segja að framlagið 2013 hafi nálgast það að uppfylla þarfir sjóðsins, því er niðurstaða fjárlaga 2014 mikil vonbrigði. Til að eðlileg framþróun verði í tónsköpun næstu ára er frumskilyrði að efla Tónlistarsjóð, enda stendur lagaskylda til þess.

Málefni óperuflutnings
Málefni óperuflutnings á Íslandi þarfnast tafarlausrar endurskoðunar. Á það við jafnt við um málefni Íslensku óperunnar sem og hverskyns grasrótarstarfsemi í listgreininni. Úrlausnarefnin eru tvenns konar og mikilvægt að skoða þau í samhengi. Annars vegar er það staða og framtíð Íslensku óperunnar og hins vegar styrkjaumhverfi þeirra sem vilja gefa sig að óperuflutningi í víðum skilningi, allt frá barokki til frumsköpunar. Þar sem ópera er í eðli sínu þverfagleg listgrein kallar hún á málefnanlegt samtal stjórnvalda og listamanna, sem mikilvægt er að hafið verði með formlegum hætti við fyrstu hentugleika.

Útgáfusjóður íslenskrar tónlistar
Mikill samdráttur hefur orðið í tekjum höfunda og flytjenda af sölu hljómplatna síðasta áratuginn. Meginástæðan er umfangsmikil ólögleg not á netinu án greiðslu til rétthafa. Með nýjum lögmætum dreifingarþjónustum sem nú bjóða upp á streymi í stað niðurhals hefur hlutfall íslenskrar tónlistar breyst úr því að vera um 84% af heildarsölu geisladiska yfir í að vera um 15% af heildarstreymi sem er hið nýja dreifingarform. Fjölbreytileikinn í íslenskri tónlist, íslensk menning og íslensk tunga fer hér halloka í hinu nýja landslagi í harðri samkeppni við erlenda tónlist. Þessar umbreytingar krefjast þess að komið verði til móts við íslenskt tónlistarlíf í formi tímabundinna fjárframlaga eða með stofnun sérstaks útgáfusjóðs sem styddi við bakið á íslenskri tónlistarútgáfu. Í húfi er að íslenska verði áfram mál íslenskrar tónlistar.

Launasjóðir listamanna
Samhliða eflingu verkefnatengdra sjóða listgreinanna er mikilvægt að stjórnvöld geri áætlun um fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna á næstu árum auk þess sem brýnt er að endurskoða upphæð mánaðalaunanna. Til glöggvunar þá er mánaðagreiðsla úr launasjóðunum nú kr. 311.000.- en Ríkisskattstjóri flokkar sjálfstætt starfandi listamenn með tilliti til reiknaðs endurgjalds þannig að þeim beri að telja fram að lágmarki kr. 597.000.- á mánuði (flokkur A-4). Einnig hefur BÍL lagt áherslu á að fólk eigi val um það hvort greiðslur úr launasjóðunum eru verktakagreiðslur eða launagreiðslur. Þá er orðið tímabært að gera úttekt á forsendum sjóðanna, t.d. stærð þeirra miðað við fjölda starfandi listamanna.

Hlutur lista í íslensku markaðsstarfi
Mikilvægt er að fylgja eftir tillögum í skýrslunni Skapandi greinar; Sýn til framtíðar, hvað varðar hlut lista og skapandi atvinnugreina í markaðsstarfi erlendis. Það starf ber að vinna gegnum miðstöðvar listgreina/hönnunar og Íslandsstofu. Í áætlanagerð Íslandsstofu þarf að vera skýrt hversu miklum fjármunum skuli varið til lista og menningar og að fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hafi áhrif á forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök verkefni. Mikilvægt er að fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum beiti sér í þeim efnum.

Heiðurssæti á Eurosonic
Íslensk hryntónlist nýtur í dag á heimsvísu viðlíka virðingar og áhuga almennings og bresk bít-tónlist gerði undir lok sjöunda áratugarins og fram eftir þeim níunda; Billboard hefur lýst íslenska hryntónlist þá heitustu í heimi árið 2014 og Íslandi hefur verið boðinn virðingarsess á hinni risastóru Eurosonic tónlistarhátíð í Hollandi í janúar 2015. Það er sanngjörn krafa að stuðningur hins opinbera við þátttöku í Eurosonic verði sambærilegur við stuðning sem látinn var í té þegar Ísland var heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Með öflugum stuðningi við markaðssókn íslenskrar tónlistar á erlenda markaði opnast tækifæri til að gera íslenskan tónlistariðnað að sjálfbærri búgrein á alþjóðavísu.

Löggjöf um lifandi tónleikastaði
Meðal baráttumála tónlistarmanna er að stofnað verði til samráðs við stjórnvöld um ný atvinnutækifæri fyrir hryntónlistarmenn, þar sem valdir tóneikastaðir fá stuðning til að halda úti lifandi tónlistarflutningi af hæstu gæðum. Hugmyndafræðin á upphaf sitt í danskri löggjöf frá 1996, sem hefur skilað góðum árangri þar og m.a. stuðlað að skattalegri skilvirkni í rekstri tónleikastaða. Hugmyndin var kynnt fyrir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, lögð fram ítarleg gögn með útfærslu sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og sýnir menningarlegan og fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag.

Gjaldskrá vegna sýninga myndlistarmanna í opinberum söfnum ofl.
Sérstakt baráttumál myndlistarmanna og myndhöfunda er krafan um að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt við uppsetningu sýninga á söfnum og í sýningarsölum sem njóta opinbers stuðnings. Stjórn SÍM vinnur um þessar mundir að útfærslu slíks kerfis og er miðað við að gjaldskrá og samningseyðublað vegna sýningarhalds verði tilbúin síðar á árinu og verður það í framhaldinu kynnt fyrir hagsmunaaðilum. Samningur af þessum toga mun efla sýningarhald í opinberum söfnum og sýningarsölum um leið og hann leggur grunn að bættum kjörum myndlistarmanna. Það er hins vegar ljóst að slíkur samningur verður ekki gerður nema með stuðningi og aðkomu stjórnvalda. BÍL hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía og tryggja myndlistarmönnum og myndhöfundum þessa sjálfsögðu kjara- og réttarbót.
Einnig er mikilvægt að stjórnvöld semji við myndlistarmenn um höfundarréttarþóknun vegna útlána safna á verkum úr safneign. Hraða þarf gerð slíks samnings við Myndstef á grundvelli 25.gr. höfundalaga, en Myndstef hefur þegar sent ráðuneytinu drög að slíkri gjaldskrá.

Uppbygging danslistarinnar
Mikilvægt er að ráðherra hlutist til um grunnmenntun í listdansi á Íslandi og ákveði kostnaðarskiptingu grunnnáms milli ríkis og sveitarfélaga með reglugerð. Grunndeildir þeirra skóla sem kenna samkvæmt námsskrá hafa undanfarið einungis fengið málamyndagreiðslur frá ríkinu og sjá ekki fram á að geta haldið rekstri deildanna áfram án þess að aukið fjármagn komi til. Einnig verður að tryggja stöðugleika opinbers framlags viðurkenndra listdansskóla, ekki verður við það unað að málefnanlegar væntingar skólanna um árlegt framlag séu svo langt frá því að ganga eftir sem raun ber vitni (allt að 30% niðurskurður milli ára ef t.d. viðurkenndum skólum fjölgar).
Þá leggur BÍL til að stjórnvöld skoði möguleika þess að tvinna saman starfsemi Dansverkstæðisins og Íslenska dansflokksins og komi þeirri starfsemi fyrir í Danshúsi, eins og kallað er eftir í dansstefnu FÍLD 10/20. Slíkt fyrirkomulag myndi auka sýnileika danslistarinnar og auka aðgengi að listdansi á Íslandi.

Kvikmynda- og myndmiðlalæsi
Í samræmi við endurnýjaðar námsskrár ber stjórnvöldum að tryggja kennslu í kvikmynda- og myndmiðlalæsi í grunn og framhaldsskólum. Myndmál er orðið jafn mikilvægt og ritmál í nútímasamfélagi og því mikilvægt að börn og ungmenni fái tæki til að meta það og greina. Gríðarleg þörf er fyrir námsefni, bæði til að mennta kennara og nemendur til að við náum að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar. Heimili kvikmyndanna í Bíó Paradís er kjörinn samstarfsaðili um slík markmið.
Þá verður æ brýnna að hefja nám í kvikmyndagerð á háskólastigi við Listaháskóla Íslands í samræmi við tillögur stýrihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 2012.

Tónlistarskólarnir
Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur yfirvöld til að skoða vel ábendingar skólastjóra tónlistarskólanna í Reykjavík, sem telja að aðferð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við skiptingu framlaganna sé ábótavant, framlagið þurfi að taka mið af raunkostnaði skólanna svo þeir geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá.

Skáld í skólum/Tónlist fyrir alla
Um árabil hafa verkefni úr menningarbakpoka listamanna staðið skólafólki (nemendum og kennurum) til boða. Tónlistarmenn hafa boðið tugþúsundum grunnskólabarna upp á tónleika undir hatti verkefnisins Tónlist fyrir alla og rithöfundar hafa heimsótt grunn- og framhaldsskóla með verkefnin Skáld í skólum og nú nýverið leikskólana með Skáld í leikskólum. Það markast af fjárhag einstakra skóla hvort börnin fá notið þessara verkefna, en rétt er að geta þess að skólar greiða sama gjald óháð fjarlægð frá Reykjavík. Verkefnin hafa fyrir löngu skapað sér sess í skólastarfinu, en skilyrði fyrir að þau haldi áfram að blómstra er markviss fjárhagsstuðningur hins opinbera, án hans er hætt við að þau leggist af. Slík niðurstaða gengur þvert á áform stjórnvalda um eflingu menningarstarf fyrir og með börnum og ungmennum.

Framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands
Við stofnun Listaháskóla Íslands var gengið út frá því að listræn samlegð ólíkra listgreina sem sinnt væri undir einu og sama þaki myndi móta námið og marka sérstöðu skólans. Eftir rösk 15 ár eru starfsstöðvarnar þó enn þrjár og af þeim tvær sem ekki standast fagleg viðmið eða kröfur um aðgengi fatlaðra. BÍL leggur þunga áherslu á að stjórnvöld komi til liðs við skólann og tryggi honum tafarlaust hentugra húsnæði til að bæta úr brýnustu þörfinni en jafnframt að tekin verði ákvörðun um framtíðarstaðsetningu nýbyggingar svo hægt verði að gera raunhæfar áætlanir um byggingu framtíðarhúsnæðis.
Meistaranám í sviðslistum meðan ekki verða gerðar úrbætur á húsakosti LHÍ er meistaranám í sviðslistum í biðstöðu, en eftir að grunnám í sviðslistum var stytt um eitt ár er virkileg þörf fyrir að bjóða upp á nám í sviðslistum til meistaraprófs.
Kvikmyndanám á háskólastigi – í samræmi við tillögur skýrslu stýrihóps um kvikmyndamenntun á Íslandi frá 2012 hefur mennta- og menningarmálaráðherra lýst vilja til að stofnað verði til kvikmyndanáms á BA stigi við Listaháskóla Íslands. Þau áform gengu hins vegar ekki eftir í fjárlagatillögum fyrir 2014. Listaháskólinn er reiðubúinn til að hefja námið svo nú veltur allt á því að fjármunirnir skili sér 2015.

Fjárhagsleg afkoma BÍL
Ríkið hefur stutt starfsemi BÍL með rekstrarframlagi, sem hefur skipt sköpum varðandi vinnu að hagsmunamálum listamanna. Um þann stuðning hafa verið gerðir samningar til þriggja ára í senn og rann síðasti samningur út 31. desember sl. Drög að nýjum samningi liggja fyrir í ráðuneytinu og er tillaga ráðuneytisins að samningsupphæð óbreytt frá því sem verið hefur eða kr. 2,4 milljónir árlega, þrátt fyrir að á þessum vettvangi (samráðsfundi með ráðherra 2013) hafi verið höfð uppi góð orð um að leitað yrði leiða til að hækka framlagið á nýju samningstímabili. Ef framlagið frá 2008 (2,3 mill.) væri framreiknað til 2016 (lok samningstíma) þá ætti það að vera tæpar 4 millj króna m.v. neysluvísitölu en rúmar 4 millj m.v. launavísitölu, skv aðferðum Seðlabankans. Það er mikilvægt fyrir störf BÍL að framlag hins opinberra haldi verðgildi sínu frá ári til árs, því er þess óskað að framlagið í nýjum samningi verði sambærilegt að verðgildi og var fyrir hrun. Minnt er á að BÍL samanstendur af 14 fagfélögum listafólks, sem hafa innan sinna vébanda um 4 þúsund listamenn og BÍL er einn af lykilráðgjöfum stjórnvalda á sviði lista og menningar.

Akademía og heiðurslaun
Sjónarmið BÍL um akademíu listamanna eru þau sömu og áður. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji þá grunnhugmynd að reynsla og færni eldri listamanna, þeirra sem á hverjum tíma njóta heiðurslauna Alþingis, verði nýtt með skipulögðum hætti og að þeim verði falin ábyrgð á að velja nýja meðlimi akademíunnar. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að loksins skuli hafa verið sett lög um heiðurslaun listamanna (lög nr. 66/2012), en mikilvægt er að breyta þeim lagaramma sem fyrst, þannig að fagleg sjónarmið ráði því hverjir njóta heiðurslauna en ekki pólitísk.

Safnamál
Áríðandi er að gera átak í safnastarfi tengt listum og skapandi greinum. Gera þarf úttekt á stöðu þeirra safna sem um ræðir, tryggja tengsl þeirra við geirann, höfuðsöfn og háskólaumhverfið.
Kvikmyndasafn. Nú eru framköllunarverkstæði í Evrópu að hætta störfum, þá er hætt við að frumgerðir margra íslenskra kvikmynda glatist. Mikilvægt er að bregðast hratt við til að bjarga þeim og koma á stafrænt form til varðveislu. Þær 10 milljónir sem tilgreindar eru í samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld til stafrænnar yfirfærslu duga skammt. BÍL leggur til að Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafni Íslands verði falið að gera áætlun um með hvaða hætti sé hægt að bjarga þessum verðmætum og tryggja varðveislu kvikmyndarfsins til frambúðar. Einnig að skoðaðar verði hugmyndir um breytingar á starfssemi Kvikmyndasafns sem hafi í för með sér sterkari tengsl við Kvikmyndamiðstöð Íslands. Loks er brýnt að hugað verði strax að varðveislumálum þeirra mynda sem teknar eru á stafrænt form, því enginn veit hversu lengi þær geymslur endast sem nú er notast við.
Leikminjasafn. Opinber framlög til Leikminjasafns hafa dregist saman og eru nú mun lægri en til sambærilegra safna. Stjórnendur safnsins höfðu gert sér vonir um að koma því fyrir í húsnæði Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, en þau áform hafa ekki gengið eftir vegna rakaskemmda í húsinu, sem ekki hefur reynst unnt að fjármagna viðgerð á. Þó safnið hafi getað staðið straum af kostnaði við rafrænan gagnagrunn um leksýningar á Íslandi og haldið úti lágmarks sýningahaldi þá er ljóst að atbeina stjórnvalda þarf til að tryggja viðunandi varðveislu og miðlun safnkostsins, mögulega með formlegum samningum við höfuðsöfn eða varðveislustofnanir hins opinbera.
Safn RÚV. Mikilvægt er að tryggja skráningu þess menningararfs sem safn RÚV hefur að geyma. Safnið þarf að vera aðgengilegt og að stunda öfluga miðlun þessa mikilvæga arfs. Slík miðlun getur farið fram í samstarfi við Landsbókasafn og önnur söfn tengd listum og skapandi greinum, en vilja og fjármuni virðist hafa skort innan stofnunarinnar. Það er vilji listafólks í landinu að þessi mikilvægi hluti menningararfsins verði gerður aðgengilegur og honum sýndur sá sómi sem eðlilegt er.
Byggingalistarsafn. Mikill fjársjóður teikninga og annarra skjala / líkana o.fl. er á hrakhólum þar sem ekki hefur fundist samastaður fyrir nema hluta af þeim arfi sem safnað hefur verið gegnum tíðina. Það ástand er að hluta tilkomið vegna ákvörðunar Listasafns Reykjavíkur að leggja niður byggingalistadeild safnsins en safnið og mennta- og menningarmálaráðuneytið studdu Arkitektafélag Íslands í því að skrá safnkostinn og koma honum í viðunandi geymslur. Merkileg gögn, t.d. stór einkasöfn bíða þess nú að vera skráð og vernduð við viðunandi aðstæður. Slíkt verkefni verður ekki unnið án atbeina stjórnvalda.

Ríkisútvarpið
Tryggja þarf Ríkisútvarpinu nægilegt rekstrarfé svo það geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu, í því sambandi er eðlileg krafa að nefskatturinn sem almenningur greiðir skili sér að fullu til stofnunarinnar. BÍL hefur ævinlega litið á Ríkisútvarpið sem einn af máttarstólpum menningar í landinu. Hlutverk þess er skilgreint í lögum og mikilvægt að stefna stofnunarinnar endurspegli lögin. Þá þarf sjálfstæði Ríkisútvarpsins að vera tryggt og því gert kleift að rækja almannaþjónustuhlutverk sitt með reisn. Það er mat BÍL að nokkuð skorti á hvað varðar innlenda framleiðslu dagskrárefnis í útvarpi og sjónvarpi, forgangsatriði er að auka hlut þess í dagskránni hvort sem það er gert með aukinni eiginframleiðslu eða með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. BÍL hefur átt samtal við stjórnendur Ríkisútvarpsins með reglubundnum hætti og mun halda því áfram með nýjum stjórnendum, en óskar jafnframt eftir atbeina og stuðningi stjórnvalda.