Leikskáldið og ritstjórinn Mikael Torfason, ritar leiðara í Fréttablaðið í morgun, þar sem áformaður niðurskurður til kvikmyndagerðar er umfjöllunarefnið:
Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson er ein besta bíómynd sem undirritaður hefur séð. Þessi mynd er á heimsmælikvarða og stefnir nú, sem eitthvert efnilegasta trippi sem sést hefur síðan Sleipnir Óðins var og hét, sigurför út í heim. Um síðustu helgi var Benedikt verðlaunaður á Spáni og erlendir gagnrýnendur og kvikmyndaspekúlantar halda ekki vatni yfir snilldinni.
Í þessari viku var fjárlagafrumvarp lagt fyrir alþingi og í því segir að fjármagn til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði skorið niður um rúm fjörutíu prósent. Við erum flest sammála um að mikilvægt sé að sýna aðhald í rekstri ríkisins. Hins vegar er ekki skynsamlegt að draga um of úr fjárframlögum til íslenskra kvikmynda.
Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður líkti tíðindunum við að að nú væri verið að slátra mjólkurkúnni. Taka má undir það sjónarmið því rannsóknir sýna að fjárfesting ríkisins í íslenskum kvikmyndum er arðbær. Til er rannsókn sem nær til áranna 2006-2009 og sýnir að þeir 2,7 milljarðar sem íslenska ríkið lagði til kvikmyndagerðar á tímabilinu löðuðu að sér 4 milljarða af innlendu fjármagni og 5,2 milljarða af erlendu fjármagni.
Kvikmyndagerðarfólk talar um að frumforsenda fyrir því að hægt sé að fjármagna kvikmyndir sé fjármagn frá Kvikmyndamiðstöð. Þannig, og aðeins þannig, fáist fjármagn á móti úr erlendum kvikmyndasjóðum.
Tölurnar ættu að sýna svart á hvítu að styrkir til íslenskrar kvikmyndagerðar skila sér til baka í þjóðarbúið með vöxtum, vaxtavöxtum og afleiddum störfum.
Enda sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við Kastljós fyrir rétt um þremur vikum að það stæði ekki til að skera framlög til Kvikmyndamiðstöðvar niður um fjörutíu prósent.
Hann var spurður að þessu hreint út og sagði slíkan niðurskurð alls ekki á dagskrá. Enda útskýrði Sigmundur fyrir Sigmari Guðmundssyni, spyrli Kastljóss, að í þeim efnahagsþrengingum sem landið hefur gengið í gegnum síðustu ár hefðu menningin og listirnar sannað mikilvægi sitt:
„Við höfum líka séð að þessar greinar skapa áþreifanlega raunveruleg efnahagsleg verðmæti. Ekki bara þau gæði sem erfitt er að mæla í fjármagni. Þessar greinar skapa líka verulegan ávinning fyrir samfélagið efnahagslega,“ sagði Sigmundur Davíð og óhætt er að taka undir þessi orð hans.
Í heildina ver íslenska ríkið um tíu milljörðum í menningu og listir en geirinn veltir um tvö hundruð milljörðum á ári.
Fjárlagafrumvarpið er nú til umræðu á alþingi og vonandi að þingmenn sjái að sér og slái ekki Sleipni af svo notað sé myndmál sem áhorfendur Hross í oss geta tengt við. Það eru auðvitað engin rök gegn niðurskurði til Kvikmyndamiðstöðvar að Benedikt Erlingsson sé góður leikstjóri og skeiði á milli kvikmyndahátíða.
Umræðan þarf ekki að snúast um smekk, hún þarf heldur ekki að snúast um þá trúverðugu kenningu að Íslendingar þurfi á því að halda að geta speglað líf sitt og aðstæður í íslenskum kvikmyndum. Umræðan þarf ekki einu sinni að snúast um að íslenskar kvikmyndir leggi sitt af mörkum hvað varðar fjölgun ferðamanna – að þær séu liður í landkynningu.
Þetta er hrein og klár stærðfræði, debet og kredit, og snýst um krónur og aura. Fyrir liggur að það borgar sig fyrir ríkið að fjárfesta í íslenskum kvikmyndum. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá ekki að gera það?