Ragnar Bragason skrifaði eftirfarandi grein í Morgunblaðið 7. sept. sl.:
Við horfum björtum augum til framtíðar. Eftir langa eyðimerkurgöngu er loksins uppgangur innan kvikmyndagreinarinnar. Á þessu ári tvöfölduðust framlög til Kvikmyndasjóðs í gegnum fjárfestingaráætlun og til að svara auknum umsvifum var stefnt að því að fjárfesting ykist enn frekar til ársins 2015.
Þessi aukning var ekki úr lausu lofti gripin.
Þverpólitísk samstaða varð í framhaldi af opinberum rannsóknum, skýrslugerðum og bókaskrifum sem leiddu í ljós mikil hagræn áhrif kvikmyndagerðar. Fulltrúar allra flokka á Alþingi fóru í pontu og lýstu yfir skoðun sinni að auka þyrfti framlög til fjársveltrar atvinnugreinar sem væri í örum vexti.
Afleiðingar þessa eru m.a að hátt í fjórðungs veltuaukning frá fyrra ári varð í greininni á fyrstu fjórum mánuðum ársins og á árinu hafa orðið til um 240 ný ársverk. Þetta skilar sér í rúmlega 1.200 milljónum í beinar tekjur til ríkissjóðs.
Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig gjaldeyrisskapandi. Rúmur milljarður í kvikmyndasjóð dregur að sér annað eins í erlendu fjármagni enda rekur greinin sig að stórum hluta á því sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn draga inn í landið eftir að frumstuðningur kemur að heiman.
Þessi aukna fjárfesting hjálpar einnig til við að svara þeirri aðkallandi þörf að hlutur kvenna verði aukinn, átak verði gert í framleiðslu á efni fyrir börn og unglinga og búið verði í haginn fyrir nýliðun. En einnig er mikilvægt að komið hefur verið í veg fyrir frekari atgerfisflótta eftir að talsvert varð um að lykilfólk innan greinarinnar flutti erlendis hin mögru ár í kjölfar stóra niðurskurðarins 2010.
Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma tilgreina kynni sín af menningu og listum sem meginástæðu fyrir heimsókn sinni.
Stærstur hluti þeirra íslensku mynda sem framleiddar eru fara á virtustu kvikmyndahátíðir heims þar sem margar hverjar hljóta verðlaun og viðurkenningar og íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu. Baltasar Kormákur átti nýverið mynd í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum (í annað sinn!) og Guðmundur Arnar Guðmundsson fékk verðlaun fyrir stuttmynd sína Hvalfjörður á Cannes nú í vor. Hann bankar á dyrnar með að gera sína fyrstu mynd í fullri lengd, sem og margir efnilegir ungir leikstjórar er vakið hafa mikla athygli eins og Ása Helga Hjörleifsdóttir, Ísold Uggadóttir og fleiri.
Aukin fjárfesting er frábær. En betur má ef duga skal. Mörg aðkallandi verkefni eru framundan og það er mín von að núverandi ríkisstjórn auki fjárfestingu og framlög til kvikmyndagerðar umfram það sem nú er. Það er allra hagur, hvort sem er í efnahags eða menningarlegu tilliti.