Nýverið mælti innanríkisráðerra fyrir frumvarpi til laga um happdrætti. BÍL hefur lengi barist fyrir því að list- og menningartengd verkefni eigi þess kost að njóta einhvers hluta ágóðans af íslenska lottóinu. Af því tilefni sendi BÍL Alþingi umsögn um málið:
Efni: Umsögn um þingmál 477 á þingskjali 615 um happdrætti
Bandalag íslenskra listamanna hefur beitt sér fyrir því að happdrættislöggjöf á Íslandi verði breytt þannig að ágóða af íslenska lottóinu verði m.a. varið til verkefna á sviði lista og menningar, svo sem títt er í nágrannalöndum okkar. BÍL hefur borið þetta erindi fram við þrjá ráðherra á þessu kjörtímabili, Steingrím J. Sigfússon þáv. fjármálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, þáv. dómsmálaráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Ráðherrarnir tóku allir vel í málaleitan BÍL, sem lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem fengi málið til skoðunar. Á vordögum 2011 skipaði innanríkisráðherra svo starfshóp, sem fékk það hlutverk að skoða umhverfi lottómála á Íslandi og skiptingu ágóða af starfsemi þeirri sem rekin er af Íslenskri Getspá. Eftir því sem BÍL kemst næst þá fór vinna starfshópsins aldrei af stað fyrir alvöru. En af því að vitað var um undirbúning frumvarps um happdrættismál innan ráðuneytisins þá vonaðist BÍL til þess að mál tengd lottóinu væru þar undir. Þegar frumvarpi um happdrætti var dreift á Alþingi í lok nóvemer sl. olli það BÍL vonbrigðum að sjá að þar skuli ekki með nokkrum hætti fjallað um lottó eða skiptingu ágóða af starfsemi Íslenskrar Getspár.
Frumvarp innanríkisráðherra nr. 477 á þingskjali 615 gerir ráð fyrir breytingum á öllum lögum sem varða happdrætti, söfnunarkassa, getraunir, talnagetraunir o.fl. Það er því lag fyrir Alþingi að gera breytingar á lögunum um talnagetraunir nr. 26/1986 með það að markmiði að ágóðinn af sölu íslenska lottósins verði að hluta nýttur til að styðja verkefni á vettvangi lista og menningar. BÍL gerir ekki athugasemdir við það að íþróttahreyfingin í landinu skipti með sér ágóða getrauna skv. lögum nr. 59/1972 en telur sanngirnismál að listir og menning njóti þess hluta ágóðans af lottóinu (skv. lögum nr. 26/1986) sem nú kemur í hlut ÍSÍ og UMFÍ. Stjórn BÍL er tilbúin að koma á fund nefndarinnar til að fylgja þessari málaleitan eftir.
Úr skýrslu forseta BÍL fyrir starfsárið 2011:
Í febrúar 2011 sendi BÍL innanríkisráðherra erindi þar sem þess var farið á leit að framkvæmd íslenska lottósins verði endurskoðuð. Mælt var með því að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi. Lagði BÍL til að ráðherra skipaði starfshóp í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðherra, sem falið yrði að skoða með hvaða hætti breytingar af þessu tagi verði best framkvæmdar, m.a. með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim fjármunum sem aflað er gegnum lottó, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Í maí 2011 var tilkynnt að innanríkisráðherra hefði skipaði slíkan starfshóp og var Katrín Fjeldsted fyrrverandi alþingismaður skipuð formaður hópsins. Það hefur tekið nokkurn tíma að koma hópnum saman en það stefnir í að hann fari að hittast reglulega eftir mánaðarmót janúar/febrúar. BÍL mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með starfi hópsins og sjá til þess að hann hafi nauðsynlegar upplýsingar um fyrirmyndir þess fyrirkomulag, sem BÍL stefnir á að innleitt verði hér á landi, þar sem listir og menning fá hlutdeild í lottó-ágóða.
Sjá einnig þskj. 1063 frá 140. löggjafarþingi, þar sem innanríkisráðherra staðfestir tilvist starfshópsins.