Félag Leikskálda og handritshöfunda var stofnað 1974 og er sjálfstætt félag sem gætir hagsmuna félagsmanna sinna gagnvart leikhúsum og kvikmyndaframleiðendum. Félagar í FLH eru 79 talsins og hefur fjölgað nokkuð á undanförnum misserum.

Stjórn félagsins skipa:

Hávar Sigurjónsson formaður, Hrafnhildur Hagalín ritari, Bjarni Jónsson gjaldkeri, Sigtryggur Magnason meðstjórnandi og Sigurjón B. Sigurðsson meðstjórnandi.

 

Félagsstarf

Stjórnin fundar reglulega allt árið, og tekur fyrir mál líðandi stundar. Efnt var til félagsfundar í byrjun júní þar sem Þorgerður Sigurðardóttir gagnrýnandi RÚV fjallaði um helstu áherslur í nýjum leikritum vetrarins. Fámennt var en góðmennt á fundinum og margt spjallað. Þrátt fyrir fámenni er ljóst að alveg er grundvöllur fyrir fundum af þessu tagi.

 

Norrænt samstarf

Formaður sat stjórnarfund NDU sem Svíarnir héldu á Gotlandi og umræðuefnið var að vanda samningamál. Allir standa frammi fyrir því sama; verja samningana sem fyrir eru og reyna að ná samningsstöðu um dreifingu höfundaréttarvarins efnis á netinu og annars konar margmiðlun.

Norræna heimasíðan er í biðstöðu þar sem styrkur Kulturkontakt Nord er uppurin og félögin varla aflögufær um að halda síðunni úti með launuðum starfsmanni. Ljóst að ræða verður framhaldið fljótlega eftir áramótin. Undirritaður hefur haft umsjón með síðunni frá því í október í fyrra þegar fyrri umsjónarmenn stukku frá borði. Var það hugsað sem bráðabirgðaráðstöfun til sex mánaða en úr því hefur teygst nokkuð.

 

Talía

FLH er aðili að Talíu Loftbrú sviðslistafólks sem sett var á laggirnar 2007. Eftir hrunið 2008 breyttust forsendur, Icelandair dró sig útúr samstarfinu, stuðningi Glitnis banka var sjálfhætt en Reykjavíkurborg stóð við sitt.

Á síðasta ári var sú ákvörðun tekin af stjórn Talíu að verja þeim peningum sem til voru í sjóði til ferðastyrkja og úthluta samkvæmt umsóknum. Er útlit fyrir að sjóðurinn verði uppurinn í lok þessa árs að óbreyttu.

 

FSE – Samtök evrópskra handritshöfunda

Á NDU fundinn á Gotlandi mætti David Callahan starfsmaður FSE og kynnti samtökin. Hann hefur aðsetur í Brussel enda mun mikilvægi þess að lobbíast í ESB var slíkt að önnur staðsetning kom varla til greina. FSE stendur fyrst og fremst vörð um höfundarréttarmál kvikmyndahandritahöfunda og samkvæmt David Callahan eru hagsmunir svo ólíkir vítt og breytt um Evrópu að erfitt getur reynst að finna sameiginlegan flöt. Á meðan er kröftunum beint að því að hafa áhrif á stefnumótun ESB í málefnum kvikmyndagerðarinnar og handritshöfunda sérstaklega. Á fundinum hafnaði NDU því að standa fyrir alheimsþingi kvikmyndahandritshöfunda árið 2011 sams konar þing og haldið var í Aþenu í fyrra. Talið alltof kostnaðarsamt.

 

Samingamál

Sæmilega kyrrt á þeim vettvangi á árinu. Talsverður tími hefur þó farið einstök mál vegna túlkunar samningsins og einnig sáu stjórnir FLH og RSÍ ástæðu til að senda út sameiginlegt bréf þar sem áréttaður var réttur allra sem semja leikverk til höfundarlauna, burtséð frá öðrum störfum þeirra við sömu sýningu.

 

Heimasíðan

Nýja heimasíðan fór í loftið í byrjun árs og hefur mælst vel fyrir. Send voru út lykilorð til allra félaga þannig að þeir gætu sett inn upplýsingar um sjálfa sig og sín verk. Lausleg könnun sýnir að ca. þriðjungur hefur notfært sér þetta en þá verður að líta til þess hversu margir félaganna eru virkir. Af virkum félögum er þetta vel rúmlega helmingur. Stjórnin hefur reynt að skipta með sér verkum um að ritstýra heimasíðunni nokkrar vikur í senn en það hefur því miður legið niðri í haust, eða gæti verið betra. Tillaga mín er að auglýsa eftir einhverjum áhugasömum félaga sem vildi sjá um þetta. Frítt að sjálfsögðu.

 

Frankfurt 2011

Í byrjun árs áttum við Bjarni fund með Halldóri Guðmundssyni um hlut leikskálda í kynningu á íslenskum bókmenntum í Frankfurt á næsta ári. Niðurstaðan varð sú að höfundar voru beðnir um að koma upplýsingum um þýðingar á verkum sínum til bókmenntastofu. Talað var um að velja tíu samtímaleikrit til kynningar fyrir þýskum útgefendum og mun Prólogus sjóðurinn hafa lagt til hliðar ca 1 milljón til að kosta þýðingar á þýsku. Eðli málsins samkvæmt hefur stjórn FLH ekki viljað skipta sér af vali þessara verka og er okkur því ókunnugt um hvar málið er statt á þessu stigi.

 

Þýðingabanki

Formaður sat fund í síðustu viku með dramatúrgum Þjóðleikhúss og Borgarleikhúss og Stefáni Jónssyni leikstjóra um möguleikann á því að koma upp aðgengilegum banka erlendra þýðinga á íslenskum leikritum. Fram kom að ný heimasíða Theatre in Iceland er í burðarliðnum, sem á síðar að verða heimasíða Íslenskrar sviðslistamiðstöðvar og er það ágætur staður til að vista lista yfir þýðingar með tengli yfir á þýðingabankann. Slíkur listi með tengli yrði einnig að sjálfsögðu á okkar heimasíðu.