Starfsemi Rithöfundasambandsins var með hefðbundnu sniði á árinu 2012. Helstu verkefni sambandsins eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðslna sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Blindrabókasafni og Námsgagnastofnun. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa þær notið mkilla vinsælda bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.

Á skrifstofunni í Gunnarshúsi starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi og hefur umsjón með daglegum rekstri, en undir hann falla einnig rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins og rithöfundabústaðanna Norðurbæjar á Eyrarbakka og Sléttaleitis í Suðursveit. Ennfremur hefur framkvæmdastjóri umsjón með Bókasafnssjóði höfunda. Auk daglegrar starfsemi RSÍ í Gunnarshúsi eru þar fundir og samkomur á vegum sambandsins, Leikskáldafélagsins, Góanna og IBBY á Íslandi.

Í ársbyrjun 2012 sóttu formaður og framkvæmdastjóri ársfund Norrænu rithöfundasambandanna/ fagurbókmennta í Osló. Þá sat og framkvæmdastjóri fund Evrópska rithöfundaráðsins í Brüssel í júní s.l.

Á árinu voru fjölmargir rithöfundar tilnefndir til erlendra viðurkenninga og í apríl hlaut Einar Már Guðmundsson bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar. Þau þykja einhver mesti heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast og eru gjarnan nefnd norrænu Nóbelsverðlaunin eða „litli Nóbelinn.“ Veitti Sænska akademían Einari Má bókmenntaverðlaunin fyrir framlag sitt til bókmennta.

Að morgni afmælisdags Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst eignaðist Rithöfundasambandið Gunnarshús. Undirrituðu Jón Gnarr borgarstjóri og Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambandsins gjafaafsal, þar sem Reykjavíkurborg gaf Rithöfundasambandi Íslands Gunnarshús að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Var það gert í tilefni af því að Reykjavík er orðin ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Við sama tækifæri færði Gunnar Björn Gunnarsson, fulltrúi fjölskyldunnar og stjórnarformaður Gunnarsstofnunar, Rithöfundasambandinu ljósmyndir úr einkasafni af heimili Gunnars Gunnarssonar og Franziscu Antoniu Josephine Jörgensen konu hans. Pétur Gunnarsson rithöfundur las ljóð Hannesar Péturssonar ,,Í húsi við Dyngjuveg“ og Sigurður Pálsson rithöfundur sagði söguna um fræið bak við tréð eða tilurð þess að borgin keypti húsið á sínum tíma.

Margir höfundar sóttu bókamessuna í Gautaborg en hún var haldin á haustdögum. Þá var alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Matur úti í mýri haldin í Norræna húsinu í september. Hátíðin var vegleg og komu margir hérlendir og erlendir höfundar að henni. Félagar úr Rithöfundasambandinu og SÍUNG stóðu m.a. að undirbúningi hátíðarinnar.

Bókamessa var haldin Ráðhúsinu í nóvember. Að henni stóð Reykjavík Bókmenntaborg ásamt Félagi íslenskra bókaútgefenda. Bókamessan var eina helgi og komu fjölmargir höfundar að henni með upplestrum, umræðum og áritunum nýrra bóka.

Ný lög um bókmenntir, sem samþykkt voru á árinu fela m.a. í sér stofnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þar á Rithöfundasambandið tvo fulltrúa í stjórn. Ný stjórn hefur komið saman og vinna við stefnumótun er hafin.

Félögum í Rithöfundasambandinu fjölgar milli ára og eru nú 414. Konur eru rúmur þriðjungur. Þá þurfum við ekki að kvarta undan einslitum hópi því elsti félaginn verður 104 ára í mars en sá yngsti er 20 ára.

Stjórn sambandsins fundar fyrsta mánudag í mánuði nema í júlí og ágúst, boðað er til aukafunda gerist þess þörf en samskipti eru líka virk í tölvupóstum.

Á aðalfundinum í apríl s.l. gáfu þeir félagar sem sátu á lausum stólum kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Stjórnin sat því óbreytt og er nú þannig skipuð:

Kristín Steinsdóttir, formaður, Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Davíð Stefánsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson eru meðstjórnendur. Varamenn eru Gauti Kristmannsson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnheiður Tryggvadóttir.