Árlegur samráðsfundur BÍL með borgarstjóra var haldinn í dag. Stjórn BÍL lagði fram minnisblað til grundvallar umræðunni:

Bandalag íslenskra listamanna eru hagsmunasamtök 14 fagfélaga listafólks og hönnuða. Samstarfssamningar BÍL og stjórnvalda snúast um faglega ráðgjöf á vettvangi lista og menningar og eru til þess fallin að auka fagmennsku stjórnvaldsákvarðana á menningarsviðinu. Það er mat BÍL að stjórnendur Reykjavíkur hafi sinnt þessu samstarfi vel á síðustu árum. Fyrir það ber að þakka. Það voru því nokkur vonbrigði að Borgarráð skyldi ekki samþykkja hækkun fjárframlagsins, sem samningur þessara aðila kveður á um. BÍL óskaði eftir því að 900 þúsund króna árlegt framlag yrði hækkað um helming, en Borgaráð samþykkti einungis hækkun sem nemur verðlagshækkunum, eða í 1.060 þúsund kr.

Samstarf við MOFR um styrkjaúthlutun. Það er mat BÍL að sérstaklega vel hafi tekist að þróa þetta samstarf og nú hyllir undir að menningar- og ferðamálaráð taki ákvörðun um breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar styrkja til list- og menningartengdra verkefna með því að svokallaður „skyndistyrkjapottur“ verði sameinaður „stóra pottinum“ og að úthlutað verði tvisvar á ári. BÍL hefur talið að slíkt fyrirkomulag væri til mikilla hagsbóta fyrir listafólk, auk þess sem það ýtir undir ferskleika þeirra verkefna sem koma til skoðunar hverju sinni.

Borgarhátíðasjóður; tengsl lista, menningar og ferðaþjónustu. BÍL fagnar því að borgaryfirvöld skuli hafa haldið áfram að útvíkka og styrkja nýjan Borgarhátíðarsjóð og telur mikilvægt að faghópur BÍL verði áfram hafður með í ráðum varðandi viðhald og frekari þróun sjóðsins. Það er mat stjórnar BÍL að skynsamlegt sé að skoða ávinning ólíkra atvinnugreina af einstökum hátíðum, því þyrfti að stofna til virkara samtals milli ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina um hlut einstakra hátíða í borginni. Slíkt samtal er nú hafið undir hatti Íslandsstofu og mikilvægt að það eigi sér einnig stað innan menningar- og ferðamálaráðs og þeirra stofnana borgarinnar sem starfa á vettvangi lista, menningar og ferðaþjónustu.

Harpa – stefnumótun og framtíðarsýn. BÍL fagnar því að stjórnvöld skuli hafa komið sér saman um eigendastefnu fyrir Hörpu, sem verður grundvöllur áframhaldandi þróunar þeirrar mikilvægu starfsemi sem Harpa fóstrar. Nú fer í hönd mikilvægt stefnumótunarferli og telur BÍL brýnt að listráð Hörpu hafi mótandi áhrif á það ferli. Þá telur stjórn BÍL mikilvægt að eigendur Hörpu nýti sér hin mikilsvirtu Mis van der Rohe verðlaun, sem Hörpu hlotnuðust nýverið, til skapandi markaðssetningar. Slík verðlaun eru til þess fallin að laða fleiri erlenda aðila að húsinu, sem mun styrkja rekstrargrundvöll þess til lengri tíma.

Bókmenntaborg UNESCO. BÍL fagnar yfirlýsingum borgaryfirvalda um tækifærin sem liggja í sýnieika bókmennta í höfuðborg þjóðarinnar og lýsir sig reiðubúið að starfa áfram með borgaryfirvöldum að eflingu bókmenntaborgarinnar. Mikilvægt er að áform um miðstöð orðsins nái fram að ganga og skynsamlegt í því sambandi að skoða mögulega samlegð með nýstofnaðri Miðstöð íslenskra bókmennta.

Listmenntun – átak til úrbóta. Lítið sem ekkert hefur áunnist á síðasta ári varðandi áherslumál BÍL tengt listmenntun barna í borginni, það á jafnt við um samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans og sjálfstætt starfandi listaskóla í borginni. Ástæðurnar eru margþættar og ekki allar á valdi borgaryfirvalda, en það er mat stjórnar BÍL að tvö lykilsvið borgarinnar þurfi að sameinast við lausn þessara mála, þ.e. mennta- og frístundasvið og menningar- og ferðamálasvið. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til þátttöku í vinnu um málefni tengd listmenntun. Það er því tilefni til að endurtaka hér það sem BÍL lýsti yfir á samráðsfundi 2012:

Listnám barna og ungmenna hefur tvíþættan tilgang; annars vegar er það tómstundatengt en hins vegar kröfuharður undirbúningur alvarlegra náms og starfsferils í listum. Menntayfirvöldum ber að hlúa að hvoru tveggja. Tryggja þarf aukinn aðgang barna og ungmenna að öflugri listmenntun, óháð efnahag foreldra. Til að auka hlut menningar og lista í námi og starfi barna þarf að móta heildstæða stefnu til framtíðar og rétta misvægið milli möguleika barna á listtengdu skapandi starfi og íþróttastarfi. Skoða þarf stöðu listaskólanna; tónlistarskóla, dansskóla og myndlistarskóla, með það að markmiði að auka aðgengi að menntuninni ásamt því að viðhalda gæðum námsins. BÍL leggur ríka áherslu á að borgin styðji myndarlega við bakið á þeim listnámsskólum sem uppfylla strangar gæðakröfur og kenna samkvæmt almennri námsskrá grunn- og/eða framhaldsskóla.

Fundur BÍL með skóla- og frístundasviði. 9. janúar sl. fundarði stjórn BÍL með skóla- og frístundaráði og starfsmönnum sviðsins um málefni listmenntunar. Áherslur BÍL liggja fyrir í sérstöku minnisblaði. Á þeim fundi var lofað áframhaldandi starfi, sem BÍL hefur því miður ekki fundið að hafi farið af stað. BÍL hefur hins vegar haldið fundi með forsvarsmönnum verkefnanna Tónlist fyrir alla og Skáld í skólum, með það að markmiði að stilla saman strengi fyrir viðræður listamanna við stjórnvöld um styrkingu og mögulega útvíkkun þessara mikilvægu verkefna. Eins og fram hefur komið þá eiga þau verkefni rætur í norska verkefninu „Den Kulturelle Skolesækken“, sem ætti að vera borginni fyrirmynd í uppbyggingu samstars listamanna og skóla.

Tónlistarskólarnir. Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur borgaryfirvöld til að tryggja að tónlistarskólar í Reykjavík geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja skólunum greiðslur í samræmi við raunkostnað við kennsluna, það næst ekki með fyrirkomulagi því sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur til grundvallar framlögum til skólanna.

Sjálfstætt starfandi listamenn. Við þá endurskoðun menningarstefnu borgarinnar sem nú stendur yfir er mikilvægt að hafa vakandi auga á þeirri menningarstarfsemi sem borin er uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum og fer fram utan menningarstofnana ríkis og borgar. Skoða þarf sérstaklega þá aðstöðu sem slíkri starfsemi er búin í höfuðborginni. Mikilvægt er að forsendur leigusamninga sem borgaryfirvöld gera um húsnæði undir menningarstarfsemi séu skoðaðir reglulega svo og rekstrargrundvöllur grasrótarstarfs í listum með það að markmiði að húsnæðið nýtist sem best þeirri starfsemi sem því er ætlað að þjóna.

Uppbygging danslistarinnar. Unnið hefur verið markvisst að því að efla danslistina svo hún hljóti sambærilegan sess og aðrar listgreinar. Íslenskt danssamfélag er kraftmikið og hugmyndaríkt, innan þess starfar ört vaxandi hópur danslistamanna sem þráir svigrúm til nýsköpunar og vaxtar. Þessu kalli þurfa opinberir aðilar að sinna með því að leggja danslistinni til aukinn stuðning og betri aðstöðu. Framtíðarsýn danssamfélagsins er að samtvinna starfsemi Dansflokksins og Dansverkstæðis í Danshúsi eins og rætt er um í „Dansstefnu FÍLD 10/20” það væri mikils um vert ef borgin ætti þátt í þeirri vinnu.

Tjarnarbíó. Stjórn BÍL hefur fylgst með starfi sjálfstæðu sviðslistahópanna í Tjarnarbíói og baráttunni við að gera húsið þannig úr garði að það hent starfseminni. BÍL mælist til þess að borgaryfirvöld leggist á sveif með rekstrarfélagi hússins og sjálfstæðu sviðslistahópunum með það að markmiði að finna viðunandi lausn á þeim vanda sem við blasir. Hafa ber í huga að starfsemi sjálfstæðu hópanna er lífsnauðsynleg fyrir þróun sviðslista almennt, þar fara tilraunirnar fram, þar er reynt á þanþol listgreinanna og þar er fólgin forsenda fyrir framþróun íslenskra sviðslista.

Efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Talsverð vinna hefur verið lögð í að kortleggja efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Ljóst er að þau áhrif eru mun meiri en almennt hefur verið viðurkennt. Núverandi borgaryfirvöld hafa sýnt í verkum sínum að þau hafa skilning á þessum afleiddu áhrifum í starfi listamanna og treystir BÍL á öflugt liðsinni í þeirri vinnu sem framundan er við bætta skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar almennt. Þar ber t.d. að hafa í huga og viðurkenna samspil ferðaþjónustu og menningarstarfsemi í höfuðborginni.