Minnisblað fyrir árlegan samráðsfund stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra 26.04.16

Punktarnir eru að mestu unnir upp úr fundargerðum síðustu samráðsfunda og sóknaráætlun BÍL fyrir skapandi greinar. Þeir eru settir fram í formi spurninga, en jafnframt vísað til ítarefnis til frekari skýringa. Í ljósi þess hversu umfangsmikil málefni tengd listmenntun og barnamenningu hafa verið á fyrri samráðsfundum, hefur stjórn BÍL ákveðið að óska eftir sérstökum fundi um þau mál.

Í ljósi breyttra laga um opinber fjármál[1], telur BÍL tilefni til að ráðuneytið leiti eftir ráðgjöf BÍL varðandi þá þróun sem vænta má í list- og menningartengdri starfsemi, en spyr jafnframt hvers sé að vænta varðandi 3ja – 5 ára áætlun í ríkisfjármálum m.t.t. fjárframlaga til lista og menningar?

Hvað hefur áunnist varðandi skráningu tölulegra upplýsinga í list- og menningargeiranum?[2] Hverjar voru niðurstöður málþingsins Menningarlandið 2015 og til hvaða aðgerða var gripið að málþinginu loknu til að bæta skráningu og umsýslu talnagagna?

Nú liggur fyrir fyrsta alþjóðlega kortlagningin á skapandi greinum í heiminum[3]. Hagræn áhrif greinanna er meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni, en BÍL hefur lengi óskað eftir áætlun um samanburð skapandi greina hér á landi og í nágrannalöndum okkar. BÍL þætti mikils virði að fá samtal við ráðuneytið um innihald skýrslunnar og spyr hvort hugsanlegt sé að ráðuneytið efni til málþings í samtarfi við BÍL um innihald hennar og niðurstöður?

Síðan 2012 hefur BÍL kallað eftir því að ráðherra mæli svo fyrir að á hverjum tíma sé í gildi áætlun um eflingu launasjóða listamanna, t.d. til þriggja ára í senn. Ekki hefur verið brugðist við þessu ákalli og því ástæða til að árétta það hér. Hvað þarf til að slík áætlun verði gerð?

Í málefnum höfundaréttar hefur náðst mikilvægur áfangi með samþykkt þriggja lagafrumvarpa á því málasviði á yfirstandandi þingi. Enn skortir þó á úrbætur sem BÍL hefur kallað eftir og eru tilgreindar í opinberri menningarstefnu (kafli VI, tl. 5)[4]. BÍL telur að stjórnvöldum beri að verja þennan eignarrétt höfunda, ella verði gengið úr skugga um hvort ríkið kunni að hafa bakað sér skaðabótaábyrgð. Í því sambandi spyr BÍL um áform ráðherra varðandi frumvarp til laga um eintakagerð til einkanota, sem hefur verið tilbúið til framlagningar í langan tíma?

Í sjötta kafla hinnar opinberu menningarstefnu er fjallað um stafræna menningu og mikilvægi þess að menningararfurinn verði gerður aðgengilegur í stafrænu formi. Óskað er upplýsinga um hvar þessi áform eru stödd og hvað líði samningum við höfundarétthafa um slíkan aðgang á öllum sviðum menningararfs?

Á nýafstöðnu málþingi BÍL o.fl. um höfundarétt komu fram upplýsingar sem varða jákvæðar athafnaskyldur ríkisins um innheimtu gjalds af höfundavörðu efni, sem leigt er út á bókasöfnum. BÍL fýsir að vita hvort ráðuneytið hyggist beita sér fyrir því að höfundagreiðslur af tónlist og kvikmyndum, sem leigðar eru út á bókasöfnum, skili sér með sama hætti og höfundagreiðslur til rithöfunda vegna útlána bóka?

BÍL hefur sett fram hugmyndir um opnara samráð um markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar ferðamanna, þar sem lista- og menningargeirinn hafi skilgreint hlutverk (sjá punkt 2 í sóknaráætlun BÍL). Hér er um þverfaglegt verkefni a.m.k. þriggja ráðuneyta að ræða[5] og eftirsóknarvert að heyra um aðkomu og áhrif mennta- og menningarmálaráðuneytis á þá stefnu sem starfað er eftir eða er í mótun.

Ferðamálastefna til 2020 gerir ráð fyrir að fimm ráðherrar fari með skilgreint hlutverk[6] við innleiðingu hennar, mennta- og menningarmálaráðherra er ekki einn þeirra. BÍL telur að list- og menningargeirinn hafi mikilvægu hlutverki að gegna varðandi mótun og framkvæmd ferðamálastefnu innanlands og óskar liðsinnis mennta- og menningarmálaráðuneytis um skýrari aðkomu menningarstofnana og listamanna að Stjórnstöð ferðamála og framkvæmd stefnunnar.

Menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga hafa verið innlimaðir í uppbyggingarsamninga sem Byggðastofnun annast undir hatti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. BÍL gagnrýndi þessi áform á sínum tíma og nú þegar breytingarnar hafa gengið í garð virðast verstu spár BÍL vera að ganga eftir, t.d. er búið að breyta starfssviði menningarfulltrúa landshlutanna og þeim jafnvel verið sagt upp. BÍL spyr hvort ráðuneytið sé tilbúið að beita sér í þágu eflingar list- og menningartengdrar starfsemi á landsbyggðinni með því að endurheimta yfirráð yfir menningarsamningunum?

Miðstöðvar lista og hönnunar gegna lykilhlutverki í umsýslu lista og skapandi greina. BÍL hefur lagt áherslu á mikilvægi þeirra með því að óska eftir auknum stuðningi við þær á fjárlögum, án mikils árangurs. BÍL telur nauðsynlegt að ráðuneytið beiti sér fyrir bættum hag þessara miðstöðva, í samræmi við samþykkta menningarstefnu frá 2013, og spyr hvar slík áform séu á vegi stödd?

Gegnum tíðina hefur BÍL gagnrýnt handahófskenndan stuðning fjárlaganefndar eða ríkisstjórnar við list- og menningartengd verkefni og hvatt til þess að allur stuðningur hins opinbera við einstök verkefni fari gegnum formlegt úthlutunarferli með faglegum úthlutunarnefndum. Í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur átt það til að úthluta fjármunum framhjá því kerfi sem er við líði, vill BÍL árétta nauðsyn þess að hækka fjárframlög til verkefnatengdra sjóða á menningarsviðinu, svo jafnræðis og fagmennsku sé gætt varðandi framlög til verkefna.

BÍL hefur kallað eftir tillögum um samræmda stjórnsýslu lista og skapandi greina. Í því skyni hefur BÍL lagt til að leitað verði til stjórnsýslufræðinga og annarra sérfræðinga innan háskóla-samfélagsins og mótuð stefna um stjórnsýslu greinanna. Telur ráðherra koma til greina að setja á laggirnar starfshóp eða annars konar samstarf í þessu skyni?

Aðildarfélög BÍL fara með samningsrétt fyrir félagsmenn sína en á seinni árum hefur borið á tilhneigingu samningsaðila okkar, sem í flestum tilfellum eru stofnanir reknar fyrir opinbert fé, til að útvista verkefnum og fela þau aðilum sem telja sig ekki bundna af gildandi samningum, ellegar að stofnanirnar færa launagreiðslur yfir í verktakagreiðslur án þess að greiða eðlilegt álag vegna launatengdra gjalda. Stjórn BÍL óskar viðbragða af hálfu ráðherra við þeirri sjálfsögðu kröfu listamanna að fyrir verkefni, sem stofnað er til af menningar- og listastofnunum sem reknar eru að stærstum hluta fyrir opinbert fé, sé greitt samkvæmt þeim lágmarkssamningum sem í gildi eru um viðkomandi störf.

[1] Lög um opinber fjármál http://www.althingi.is/altext/145/s/0675.html

[2] Sóknaráætlun BÍL https://bil.is/soknaraaetlun-skapandi-greina-samthykkt-a-adalfundi-bil

[3] Cultural times http://www.ey.com/Publication/vwLUAssets/ey-cultural-times-2015/$FILE/ey-cultural-times-2015.pdf

[4] Menningarstefna https://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7499

[5] Þau sem skipa stjórnarmenn í stjórn Íslandstofu (Utn, anr og mmrn)

[6] Ferðamálastefna 2015 – 2020 http://stjornstodin.is/stjornstod-ferdamala