Norræn ráðstefna í Visby á Gotlandi

Punktar frá ráðstefnu norrænna listamannaráða í Visby á Gotlandi 16. – 20. maí 2007

Sá sem helst vakti lukku á fyrsta fundinum var rithöfundurinn Per Olof Enquist. Í opnum umræðum þar sem hann sat, ásamt fleirum, uppi á sviði, lét hann í ljós þá skoðun sína að ekki væri til neitt sem héti “European cultural idendity”, þau væru að minnst kosti 27. Þessi nálgun er í beinu samhengi við stefnu UNESCO, sem leggur áherslu á að öll menningarsamfélög, stór og lítil, haldi sérkennum sínum og sérstöðu.

Sameiginlegir hagsmunir þjóða voru þó vitaskuld efstir á efnisskrá ráðstefnunnar, og var mest áhersla lögð á samvinnu ríkja við Eystrarsaltið. Argita Daudze, þýðandi frá Lettlandi, hélt því fram að “hafið sameinaði þau, en aðskildi ekki”. Enquist benti þá á þann margvíslega vanda sem blasir við allri dreifingu á menningarefni í kringum Eystrarsaltið, en bætti við að í þeim menningarfrumskógi þýddi ekki að vera stöðugt í vörn, heldur huga að sóknarfærum (“don’t defend, just attack!”) Það var athyglisvert fyrir Íslending að fylgjast með þessum umræðum, svona úr hæfilegri fjarlægð, og ljóst að menningarsamskipti eru mjög að aukast við Eystrarsaltið.

 

Visby var aldrei Hansaborg, og um það spunnust skemmtilegar hugleiðingar um Hansa-kaupmenn, sem einhver nefndi glæpagengi (“a bunch of criminals”).

Daginn eftir, þann 17. maí, fluttu aðilar allra landanna stutt spjall um gang mála heima fyrir. Jaan Elken frá Eistlandi vakti mikla athygli, þegar hann fór hörðum orðum um samskipti Eista og Rússa, en um þessar mundir var mikil úlfúð milli ríkjanna vegna þess að minnismerki um fallna rússneska hermenn var flutt til í höfuðborginni. Jaan Elken var harðorður í garð Rússa og taldi þá litla ástæðu hafa til að kvarta undan þeim ákvörðunum sem réttkjörin stjórn Eista tæki í eigin landi. Þegar kom að Alexander Zhitinsky að tala fyrir hönd Rússa, bar hann blak af löndum sínum, en var öllu hógværari en Eistinn í málflutningi sínum.

Eftir hádegið útskýrði Riitta Heinämaa nýja norræna styrkjakerfið. Ég átti von á mun meiri andstöðu við kerfið en fram kom, hélt reyndar að þetta yrði helsta hitamál ráðstefnunnar. Sterkust ádeila kom frá danskri myndlistarkonu, sem heitir Nanna Gro Henningsen og er formaður danskra myndlistarmanna, en hún var þeirrar skoðunar að illa væri farið með eitt og annað sem byggt hefði verið upp um árabil. Hún gekk svo langt að segja: “Legitimate market oriented networks will fade away”. Riitta kom með það svar að annað hvort væri að viðhalda gömlu kerfi eða koma með nýtt sem byggðist á samkeppni og ætti sér þróunarmöguleika. Þetta væri spurning um “continuity versus flexibility”.

Undir lok dags var enn rætt um menningarsamvinnu landanna við Eystrarsalt.

Föstudagurinn 18. maí hófst með afar fræðandi erindi sem Carl Tham, fyrrum menntamálará›herra Svía, flutti. Hann rakti þróun ríkisstuðnings við listir á 20. öld. M.a. vitnaði hann í Tage Erlander: “Cultural policy is an inherent part of the welfare state. The experience of art is a part of the liberalisation of the human being.” Tham hélt því ennfremur fram að listinni mætti beita gegn hinum neikvæðu hliðum markaðshyggjunnar og að slíkt hefði verið gert, einkum á Norðurlöndum.

Allir eru listamenn, sagði Tham. Sú stefna væri þvert á fyrri hugsun sem gengið hefði út á að listin væri fyrir sérhagsmunahópa. Tham var þar m.a.að mæla gegn Maó formanni, sem mun hafa sagt að listin væri einungis fyrir örsmáa elítu.

Af öðrum sem tóku til máls þennan dag vakti Norðmaðurinn Trond Okkelmo frá Sambandi norskra leikhúsa og hljómsveita hvað mesta athygli. Hann flutti gleðitíðindi frá Noregi, þar væri við völd menntamálaráðherra sem hefði raunverulegan áhuga á að leggja fjármagn í listir og listviðburði. “Politicians have to mean it when they say they want to prioritise the arts” sagði Trond. Nú væri sem sagt kominn ráðherra sem léti verkin tala. Trond vitnaði í ráðherrann sem mun hafa sagt við norska listamenn: “Help me convince my colleagues you’re important!”

Frá árinu 2005 hefur stórauknu norsku fjármagni verið varið til lista og menningarmála. Góðu fréttirnar höfðu reyndar borist okkur áður, þegar Randi Urdal, forstjóri norsku dansmiðstöðvarinnar, fræddi okkur um olíugróðann, um þær 2.000 billjónir norskra króna sem nú eru í eftirlaunasjóðnum svokallaða, the Pension Fund. Samkvæmt Trond er nú sívaxandi fjármagni veitt í listir, ennfremur er því fé vel og skynsamlega varið. Reyndar hafði hann svolitlar áhyggjur af því hve margt væri nú skilgreint sem “menning”, að stjórnmálamenn hefðu tilhneigingu til að nefna eitt og annað menningu sem í raun ætti fremur að kallast skemmtun eða “entertainment”. (Sjálfur hef ég vissulega orðið var við sömu tilhneigingar á Íslandi.)

Hvað sem því líður hefur Norðmönnum tekist að koma þessu í kring, eins þótt þeir hafi lagt niður sitt bandalag listamanna fyrir nokkrum árum. Þeir voru reyndar hvattir til að endurreisa það, og heyrði ég ekki betur en að Trond Okkelmo þætti full þörf á því.

Sem forseti BÍL hafði ég mikið gagn af að kynnast þeim sem fjalla um sömu mál annars staðar á Norðurlöndum, en það fólk hef ég ekki hitt fyrr en nú. Auðvitað var líka full nauðsyn á að Ísland ætti fulltrúa á þingi þessu, þar sem voru ekki færri en þrír fulltrúar frá Færeyjum. Ég tel að ég eigi einkum eftir að búa að kynnum mínum af Dönum í nánustu framtíð, en skipulag styrkjakerfis þeirra virðist mér vera mjög til fyrirmyndar.

 

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL