Fundur var haldinn með norrænum listamannaráðum þann 23. október 2008.

Fundinn sátu eftirtaldir:

Frá Færeyjum (LISA): Oddfridur Rasmussen og Jens Dalsgaard.

Frá Svíþjóð (KLYS): Anna Söderbäck og Ulrica Källen.

Frá Finnlandi (Forum Artis): Harri Wessman.

Frá Samalandi (Samisk kunstnerraad): Brita Kåven.

Frá Danmörku (Dansk kunstnerråd: Franz Ernst og Elisabet Diedrichs.

Frá Íslandi (BÍL): Ágúst Guðmundsson

Eftir að dagskrá hafði verið samþykkt, var rætt um fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum í Norrænu ráðherranefndinni. Þar hefur verið ákveðið að leggja til stórar summur í eitthvað sem kallast globalisering, og því þarf að skera niður í öðrum málaflokkum. Síðustu fregnir eru þó þær að niðurskurðurinn verði ekki eins ægilegur og lagt var upp með.

Nokkuð var rætt um framgang mála í Kulturkontakt Nord. ÁG gat uppfrætt fólk um eitt og annað í móbílitetsnefndinni, en á fundinum var lagt fram viðtalið afdrifaríka við John Frandsen.

Nordisk Kulturforum kom til tals og minnst var á Gotlandsfundinn og lögð fram fundargerð þaðan.

Síðan var farið yfir alþjóðlegt samstarf, sem m.a. felst í International Network for Cultural Diversity og Coalition for Cultural Diversity. Svíar miðluðu af reynslu sinni af þessu samstarfi sem þær stöllur töldu mikilvægt.

Einnig var rætt um ECA og fyrirhugaðan aðalfund á Írlandi. Danir kynntu tillögu sína að félagagjaldi og kölluðu eftir stuðningi annarra Norðurlanda við hana.

Aðeins var minnst á þáttökuna í Skandinavisk Foreningí Róm, sem hefur gengið með ágætum. Þetta er þó eitt af því fáa sem listamannaráðin standa sameiginlega að, og því var stutt í umræður um það hvort Hið norræna listamannaráð skyldi stofnað með lögformlegum hætti. ÁG var því fylgjandi, ekki síst í ljósi þess að norrænt samstarf hefur ævinlega verið Íslendingum heilladrjúgt.

Í lok fundar kom Mogens Jensen, danskur sósíaldemókrati, sem hefur norræn menningarmál mjög á sinni könnu. Hann miðlaði af reynslu sinni í óformlegu spjalli.