Ágætu lesendur.

Um þessar mundir eru liðnir þrír mánuðir síðan ég var kjörinn forseti BÍL og ekki úr vegi að ég láti í mér heyra á þessum vettvangi. Mig grunar reyndar að heimasíða BÍL sé ekki sjálfsagður viðkomustaður þeirra sem fylgjast vilja með menningarumræðunni í landinu, jafnvel þó hér sé að finna mikið af góðum upplýsingum og innleggi í þarfa umræðu.

Til þess að þessi síða þjóni tilgangi sínum, sem vettvangur umræðu og tengiliður ólíkra listgreina innbirðis og við umheiminn, þarf hún að vera öðru vísi upp byggð, aðgengilegri og gegnsærri. Það var einmitt eitt af því sem ég talaði um þegar ég ávarpaði aðalfund BÍL á dögunum, að gera þar nauðsynlegar breytingar. Sú vinna er ekki jafn langt komin og ég hefði viljað, en er engu að síður í áhugaverðum farvegi sem vert er að gefa lengri tíma til að þróast.

Það er ljóst að BÍL hefur tekið drjúgum breytingum í tíð forvera míns Tinnu Gunnlaugsdóttur enda dylst engum að hún skilaði bæði miklu og góðu starfi sem forseti bandalagsins. Traust manna á BÍL hefur líklega aldrei verið meira og áhugi á stefmumálum þess ótvíræður. Vil ég sérstaklega vekja athygli lesenda á hinni svokölluðu „Framtíðarsýn og stefnumótun í íslensku listalífi“ sem gefin var út á síðasta hausti. Framtíðarsýnina, sem er afrakstur stefnunmótunarvinnu um 40 einstaklinga úr röðum BÍL, getur þú nálgast með því að velja „Á DÖFINNI“ hér fyrir ofan. Hvet ég alla til að lesa textann vandlega, sér til upplyftingar og hvatningar. Væri ekki úr vegi að lesendur sendu hann áfram til allra þeirra sem málið varðar í smáu eða stóru og leggi þannig sitt af mörkum til málefnalegrar umræðu.

Það felst ærin ábyrgð því að fylgja eftir góðum verkum Tinnu Gunnlaugsdóttur svo ekki þurfi að tapa þræði eða glutra niður tækifærum þó skipt sé um mann í brúnni. Mitt hlutverk, í góðu samráði við stjórn, er meðal annars það að halda til haga því sem vel hefur tekist og sjá til þess að sú mikla vinna sem þegar hefur verið unnin skili sér áfram á eðlilegan hátt. Það breytir þó ekki því að ég hef frá upphafi áskilið mér allan rétt til þess að breyta áherslum og móta starfið í samræmi við það sem ég trúi að skili bestum árangri í nútíð og framtíð.

Ég hef notað þessa fyrstu mánuði til að kynna mér þann grundvöll sem Bandalagið byggir á, setja mig í samband við ólíka hagsmunaðila, hitta stjórnir aðildarfélaga og helstu ráðamenn ríkis og borgar. Allt í þeim tilgangi að hafa sem besta mynd af stöðu mála og eiga þar með auðveldara með að meta hvar skóinn kreppir og sjá hvar tækifærin leynast til næstu sóknar. Það er vissulega ánægjulegt að finna þann áhuga sem hvarvetna ríkir um starfsemi BÍL og óhætt að segja að væntingar, jafnt listamanna sem ráðamanna og listáhugafólks eru miklar til þeirra tækifæra sem Bandalagið getur skapað í framtíðinni. Tækifæra til áhugaverðar umræðu, aukinnar samstöðu og skilnings og marktækrar þátttöku í mótun samfélagsins. Þar eru listamenn sannarlega vannýtt auðlind sem æ fleiri eru farnir að líta til í fullri alvöru. Það er satt að segja ákaflega freistandi að halda því fram að tími orðagjálfurs ráðamanna og viðskiptajöfra sé loksins liðinn og komið að því að menn vilji láta verkin tala. Samstarfsvilji þeirra sem völdin hafa, hvort sem er pólitísk eða peningaleg, hefur a.m.k. sjaldan verið meiri og því mikilvægt að listamenn sjálfir sýni þann áhuga og skilning sem þarf til að næstu skref verði öllum til hagsbóta. Það eru ótal leiðir ókannaðar í því ferli og verður forvitnilegt að láta á það reyna á næstu misserum hvort ýmsir þættir í framtíðarsýn BÍL eigi ekki, þrátt fyrir allt, greiða leið frá hugmynd til framkvæmdar.

 

Þorvaldur Þorsteinsson