Í gær var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gert opinbert og er óhætt að segja að þar komi margt afar illa við listamenn sem reiða sig á stuðning verkefnatengdra sjóða í starfi sínu. Bæði Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra hafa sent frá sér ályktanir vegna áforma um niðurskurð og segja að nái þau fram að ganga muni það kalla hrun yfir íslenska kvikmyndagerð. Yfirlýsingar félaganna fara hér á eftir:

Félag kvikmyndagerðamanna harmar fréttir um niðurskurð ríkisstjórnarinnar til Kvikmyndasjóðs sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Sú uppbygging og fjárfesting sem hefur átt sér stað í kvikmyndageiranum frá árinu 2012 og varð að veruleika 2013 verður nú að engu og afleiðingar grafalvarlegar fyrir þennan viðkvæma iðnað.

Þessi niðurskurður mun því miður fyrst og fremst kippa fótunum undan innlendri kvikmyndagerð sem stóð mjög völtum fótum eftir þá atlögu sem var gerð þegar sjóðirnir voru skornir niður um 35% 2009. Nú er fjármagnið skorið niður um 42% sem er hrein atlaga að greininni. Áætla má að rúmlega 200 ársstörf tapist í kvikmyndagerð og ljóst er að bæði þekking og faglegt vinnuafl mun hverfa úr landi.

Fjármögnun íslenskra kvikmynda byggir fyrst og fremst á góðu grunnfjármagni frá Kvikmyndasjóði og það hefur hefur verið sýnt fram á það að hver króna margfaldast við það (sjá Hagræn áhrif kvikmyndagerðar eftir Dr. Ágúst Einarsson, Bifröst 2011).

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður líkti fyrirhugðum niðurskurðaraðgerðum ríksistjórnarinnar við að „slátra mjólkurkúnni“ við tökum heilshugar undir þau orð. Við hvetjum Alþingi til að leiðrétta þennan örlagaríka kúrs og forða íslenskri kvikmyndamenningu frá hruni en við slíkar aðstæður og síendurtekinn niðurskurð getur engin atvinnugrein vaxið og dafnað.

42% niðurskurður til kvikmyndagerðar
Samtök kvikmyndaleikstjóra fordæma harkalega þann mikla niðurskurð á framlögum til kvikmyndagerðar, sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Ef fram fer sem horfir er þetta stærsti einstaki niðurskurður sem greinin hefur orðið fyrir.

Þetta yrði mikið áfall en á sama tíma illskiljanlegt. Í framhaldi af stóra niðurskurðinum árið 2010 virtist þverpólitísk samstaða um að auka þyrfti verulega fjárfestingu í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. vegna jákvæðra hagrænna áhrifa hennar. Íslensk kvikmyndagerð er atvinnugrein í örum vexti sem skapar mikil efnahagsleg og menningarleg verðmæti fyrir þjóðina.

Með tillögum sínum hefur ríkisstjórnin tekið pólitíska ákvörðun um að afþakka hreinar tekjur upp á hundruði milljóna. Rúmlega 200 ársverk myndu tapast vegna þessarar ákvörðunar, þekkingarflótti yrði úr greininni og auknar byrðar yrðu lagðar á ríki í formi atvinnuleysisbóta. En ekki síst verður þjóðin af menningarverðmætum, fjölda verka á okkar tungumáli og sem sprottin eru úr okkar veruleika. Við verðum af sögum sem taka þátt í að skapa sjálfsmynd okkar og eru veigamikill hluti í hinu andlega heilbrigðiskerfi.

Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig ímyndar- og gjaldeyrisskapandi. Það er nauðsynlegt að frumstuðningur komi að heiman, til að fjármagn náist að utan og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti, að hver króna sem ríkið fjárfestir í kvikmyndagerði komi margföld til baka. Hér verður ekki uppskorið nema það sé sáð.

Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti, enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu með kvikmyndum sínum.

Það hefur tekið nokkur ár að græða þau sár sem urðu við niðurskurðinn 2010. Þau eru ekki fullgróin, en í greinina var kominn aukinn kraftur og bjartsýni. Eftir langa eyðimerkurgöngu var uppgangur framundan. Mannauður og fjármagn virtist nægjanlegt til þess að taka næstu skref, en aftur eru vopnin slegin úr höndunum á kvikmyndagerðarfólki og byrjunarreitur blasir við.

Það segir sig sjálft að uppbygging og áætlanagerð er öll úr skorðum. Við skorum á stjórnvöld að leiðrétta þessi áform áður en óbætanlegur skaði er skeður.