Bandalag íslenskra listamanna gengst fyrir málþingi um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir árlega nokkrum hópi listamanna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþóðavettvangi“ [orðalag laga um heiðurslaun nr. 25/2012]. Málþingið fer fram í IÐNÓ, miðvikudaginn 27. maí nk. kl. 14:00 – 16:00

Kveikjan að fundinum er fengin frá meistaraprófsritgerð sem Guðni Tómasson listsagnfræðingur varði nýlega við Háskólann á Bifröst. Guðni verður frummælandi á fundinum og kallar hann erindi sitt

Heiður þeim sem heiður ber

Heiðurslaun listamanna, Alþingi Íslendinga og virðingin sem við sýnum afburðarólki í listum á Íslandi

Að loknu erindinu verða pallborðsumræður um málefnið. Gestir í pallborði, auk Guðna, verða:

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis

Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður starfshóps BÍL um heiðurslaun 2010-2011

Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrv. alþingismaður.

Umræðum stýrir Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL.

BÍL hefur oftsinnis fjallað um fyrirkomulag heiðurslauna Alþingis til listamanna og reynt að benda á aðrar leiðir við framkvæmdina en tíðkast hafa. Til marks um þá vinnu er ályktun aðalfundar BÍL frá 2011, sem aðgengileg er á heimasíðu BÍL. Á málþinginu gefst tækifæri til að ræða mismunandi sjónarmið um heiðurslaun, inntak þeirra og fyrirkomulag.

Málþingið er ætlað félögum í aðildarfélögum BÍL, stjórnmálamönnum og öðru áhugafólki um málefnið.