Fréttablaðið birtir í dag athyglisverða grein Margrétar Örnólfsdóttur, sem fer hér á eftir:
Undanfarið hefur RÚV stært sig af því að í uppsiglingu sé íslenskt kvikmyndasumar, sýna eigi fjölda íslenskra bíómynda, bæði nýlegar og gamlar og góðar, sannkölluð kvikmyndaveisla. Þetta væri vissulega eitthvað til að hrópa húrra fyrir – ef maður væri andvökusjúklingur. Fyrsta myndin sem greiðendum afnotagjalda var boðið upp á var nýjasta mynd Dags Kára Péturssonar, The Good Heart. Það skal undirstrikað sérstaklega að um frumsýningu á íslenskri kvikmynd á RÚV er að ræða og maður myndi því ætla að henni væri valinn besti hugsanlegi tími í dagskránni eins og slíkum viðburði er sæmandi.

Ríkissjónvarpið kaus að sýna myndina aðfaranótt annars í hvítasunnu, nánar til tekið þegar klukkan var tíu mínútur gengin í eitt eftir miðnætti. Eftir að mér var runnin mesta reiðin yfir þessari fráleitu tímasetningu (sýningu myndarinnar lauk þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö!) fór ég að velta því fyrir mér hvaða mögulegu ástæður gætu legið að baki þeirri ákvörðun að ræna stærsta hluta þjóðarinnar þeirri ánægju að horfa á íslenska kvikmynd. The Good Heart er ekki hryllingsmynd, hún er meira að segja leyfðtil sýninga fyrir alla aldurshópa.

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að sömuleiðis stendur til að sýna þrjár stuttmyndir Rúnars Rúnarssonar kl. 23.10 á fimmtudagskvöldi, líka Skytturnar eftir Friðrik Þór Friðriksson. Mér létti örlítið að sjá að bæði Með allt á hreinu og Sveitabrúðkaup verða á skikkanlegum tíma, börn og kvöldsvæfir eiga þannig möguleika á að sjá þær ágætu myndir en misræmið í þessum tímasetningum er óskiljanlegt.

Íslenskar bíómyndir eru eins og krakki sem fær helst ekki að vera með en ef honum er leyft það þá er hann hunsaður og ekki hleypt í leikinn. Hvort tveggja er ömurleg framkoma. Ég get ekki fundið eina einustu skýringu á því að íslenskar myndir séu settar á dagskrá um miðja nótt aðra en þá að forsvarsmönnum RÚV sé hreinlega í nöp við íslenska kvikmyndagerð eða að um einhvers konar refsingu sé að ræða – að þau ætli sér að senda kvikmyndabransanum þau skilaboð að RÚV vilji sem minnst hafa saman við hann að sælda. RÚV myndi í raun sýna íslenskum kvikmyndum meiri sóma með því að sleppa því hreinlega að setja þær á dagskrá í stað þess að reisa þeim eitthvað í ætt við níðstöng á þennan hátt.
Fyrst RÚV ákvað á annað borð að kaupa sýningarréttinn á þessum kvikmyndum af hverju er tækifærið þá ekki nýtt betur? Fyrirtækið gæti í leiðinni rekið af sér slyðruorðið varðandi hlut leikins íslensks efnis í dagskránni.

Metnaðarleysi RÚV í þeim efnum væri reyndar efni í aðra grein, ef ekki greinaflokk. Sömuleiðis mætti skrifa margar greinar til að gagnrýna það að kjörtími (prime time) Ríkissjónvarpsins skuli á sama tíma og íslenskum kvikmyndum er ýtt út í horn lagður undir eitthvert þriðja flokks mót ófullburða fótboltaliða.
Reiði mín helgast ekki eingöngu af því að ég vinn sjálf við kvikmyndagerð, virðingarleysið er ekki síður og jafnvel enn þá meira gagnvart áhorfendum. Í mínum augum hafa forsvarsmenn RÚV með þessari tilhögun endanlega sýnt fram á vanhæfi sitt – ef þetta fólk veldur ekki einu sinni því tiltölulega einfalda verki að raða dagskrárliðum þannig að efnið skili sér til sem flestra sem það á erindi við þá á ekki að hleypa því í það, hvað þá meira krefjandi verkefni á borð við ákvarðanatöku sem varðar dagskrárgerð og stefnu í þeim málum. Hér er ekki verið að ræða um mismunandi smekk eða sjónarmið sem hægt er afgreiða sem álitamál, það hlýtur hver einasti maður að sjá að það er gjörsamlega glórulaust að sýna íslenskar bíómyndir eftir háttatíma, jafnvel þótt það sé frídagur daginn eftir. Nú vona ég að einhver sem ræður einhverju þarna í Efstaleitinu átti sig á mistökunum og leiðrétti þau til að sem flestir fái að njóta kvikmyndanna sem enn á eftir að sýna. Ef ekki þá er RÚV að bregðast því hlutverki sínu að stuðla að því að gera íslenskt menningarefni aðgengilegt sem flestum.