Í dag var haldinn ársfundur ECA – European Council of Artists. Fundurinn var haldinn í Zagreb, Króatíu og sátu hann fulltrúar Króatíu, Ungverjalands, Rúmeníu, Slóveníu, Kýpur, Möltu, Spánar, Bretlands, Írlands, Þýskalands, Litháen, Lettlands, Eistlands, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og Íslands.

Gert hafði verið ráð fyrir að samþykkja aðild Skosku listamannasamtakanna Scottish Artists Union, að ECA. Það gekk ekki eftir en mun að öllum líkindum verða á næsta ári.

Skýrsla formanns litaðist nokkuð af erfiðum samskiptum við EACEA – Executive Agency Education, Audiovisual and Culture sem er sú stofnun ESB sem veitir styrki til menningartengdra verkefna og menningarsamstarfs Evrópuþjóða. Starfsemi ECA hefur ekki hlotið náð fyrir augum EACEA síðustu tvö árin og eru samtökin því einungis fjármögnuð með greiðslum aðildarfélaga. Innheimta aðildargjalda þetta ár hefur gengið stirðlega, átta af tuttugu og sex aðildarlöndum hafa enn ekki greitt árgjöld sín. Ákveðið var að gera gangskör að því að kynna samtökin í Evrópulöndunum og gera tilraun til að greiða úr vandræðunum í samskiptum við EACEA.

Frá stofnun ECA hefur skrifstofa samtakanna verið í Danmörku, undir verndarvæng dönsku listamannasamtakanna Dansk Kunstnerråd. Um næstu áramót verður breyting þar á, þegar skrifstofan flytur til Madrid fyrir tilstilli fyrrum formanns ECA Jorge Bosso. Tekist hefur að afla stuðnings við skrifstofuna til næstu tveggja ára og hefur Veronica Parizzi Doynel verið ráðin til að stjórna henni.

Fjárhagur ECA er þröngur og hefur ekki reynst unnt að láta endurskoða reikninga ársins 2009. Ákveðið var að leita eftir sérstökum stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar til að klára endurskoðun reikninga 2009 og 2010, til að skrifstofan geti flutt með hreint borð frá Kaupmannahöfn.

Tillaga að fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt með fyrirvara um að það takist að afla þeirra tekna sem hún gerir ráð fyrir. Áætlunin hljóðar upp á 70.000 Evrur (tæpar 11 milljónir ísl. króna). Menntamálaráðuneyti Spánar hefur þegar samþykkt að láta skrifstofunni í té 12.000 Evrur og spænsku höfundarréttarsamtökin munu láta í té húsnæði sem metið er á 12.000 Evrur.

Áfram verður unnið að því að rétta af fjárhag samtakanna, þannig verður lagt mikið upp úr því að koma upplýsingum um starfsemina og mikilvægi hennar á framfæri við Evrópuþingmenn og við stjórnvöld og fjölmiðla í löndunum almennt. Öll samtökin eru hvött til að taka fram í kynningarefni sínu að þau séu meðlimir í ECA, t.d. á bréfsefnum og heimasíðum.

Stuttar skýrslur voru fluttar frá hverju landi og gáfu þær nokkuð góða yfirsýn yfir hversu ólíkar aðstæður listamanna í Evrópulöndunum eru en báru þær þó allar keim af yfirstandandi fjárhagskreppu. Öll löndin eru að glíma við mikinn niðurskurð í opinberum fjárframlögum til lista og menningar. Á það jafnt við um framlög til rótgróinna stofnana og til sjóða sem fjármagna starfsemi sjálfstæðra listamanna. Pólitísk staða landanna er líka mjög misjöfn og skilningur stjórnvalda sums staðar afar takmarkaður. Á Spáni fóru sviðslistamenn í verkfall fyrr á árinu, lokuðu leikhúsum og felldu niður sirkussýningar. 34 leikhús í Madrid lokuðu og vakti aðgerðin mikla athygli.

Stjórnarkjör fór fram og gengu þrír úr stjórn. Í þeirra stað komu fulltrúar frá Ungverjalandi (Colin Foster), Litháen (Jonas Staselis) og Danmörku (Pia Raug). Þriggja manna uppstillingarnefnd var kjörin til að stilla upp kandidötum fyrir stjórnarkjör 2011, en reglur sambandsins gera ráð fyrir nokkuð örum breytingum á stjórn. Á næsta aðalfundi mun Michae Burke láta af formennsku.

 

Starfsáætlun 2011 var samþykkt. Hún gerir m.a. ráð fyrir

• áframhaldandi baráttu fyrir frelsi listamanna til að tjá sig,

• að efldir verði möguleikar listamanna á að ferðast með list sína,

• að höfundarréttur listamanna verði tryggður,

• innleiðingu UNESCO sáttmálans og varðstöðu um menningarlega fjölbreytni,

• eflingu listmenntunar

• þátttöku í væntanlegri menningaráætlun ESB 2014 – 2020

• stuðningi við listsköpun í fámennari samfélögum

• öflugri kynningu á starfi ECA, meðal stjórnmálamanna, Evrópuþingmanna og fjölmiðla

 

Næsti ársfundur verður haldinn á Spáni, að öllum líkindum í litlum bæ utan við Madrid. Gert er ráð fyrir að halda ráðstefnu í tengslum við fundinn og lög áhersla á að fá Evrópuþingmenn til að taka þátt í henni. Þá verður lög áhersla á að ungt fólk fái aðgang að ráðstefnunni án þátttökugjalds eða fyrir mjög lágt gjald.

Loks voru aðildarfélög hvött til að taka þátt í baráttu hollenskra listamanna gegn áformum hollenskra stjórnvalda um að hætta stuðningi við þrjár hollenskar hljómsveitir og voru samtökin hvött til að undirrita áskorun á netinu til hollenskra stjórnvalda um málið. Þá var einnig hvatt til þess að kínverskum stjórnvöldum verði send hvatning frá samtökunum um að þau gerist aðilar að UNESCO sáttmálanum.

 

Fundarstjóri var Anna Söderbäck, formaður KLYS