Til upplýsingar fyrir fjölmiðla

Bandalag íslenskra listamanna hefur m.a. það skilgreinda hlutverk skv. samstarfssamningi við stjórnvöld, að veita ráðgjöf um opinber málefni menningar og lista. Meðal árvissra verkefna stjórnar BÍL er að veita fjárlaganefnd Alþingis umsögn um fjárlagafrumvarp hvers árs og til skamms tíma hefur BÍL fengið að hitta fulltrúa nefndarinnar á fundi áður en frumvarpið er afgreitt.

Nú háttar svo til að afar lítill tími hefur gefist til umfjöllunar um frumvarpið í nefndinni og stjórn BÍL er ekki kunnugt um að efnisinnihald umsagnarinnar hafi verið rætt í nefndinni, a.m.k. var ekki að sjá breytingar á menningar- og listtengdum liðum frumvarpsins í breytingartillögum nefndarinnar við aðra umræðu, að undanskildum nokkrum tilgreindum verkefnum, sem almennt hefur verið gert ráð fyrir að sæki um stuðning til safnliða:

Safnamál
Gerð er tillaga um samtals 17,8 millj. kr. hækkun á framlagi til safnamála sem skiptist í tvennt. Annars vegar 4 millj. kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands. Hins vegar 13,8 millj. kr. tímabundið framlag til Hollvinasamtaka varðskipsins Óðins vegna viðhalds skipsins sem er hluti af Sjóminjasafni Reykjavíkur.

Menningarstofnanir
Samtals er lögð til 74 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarstofnana sem skiptist sem hér segir: – 25 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi viðgerðar og uppbyggingar mannvirkja á lóð Kvennaskólans á Blönduósi, – 30 millj. kr. tímabundið framlag til Vínlandsseturs í Dalabyggð, – 3 millj. kr. tímabundið framlag til Fischerseturs, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Söguseturs íslenska hestsins, – 3 millj. kr. tímabundið framlag til Fræðaseturs um forystufé, – 8 millj. kr. tímabundið framlag til Sigurhæðar ses.

Og af liðnum menningarsjóðir veitir nefndin tímabundnum fjármunum til nokkurra tilgreindra verkefna:

Samtals er lögð til 41 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarsjóða sem skiptist sem hér segir: – 15 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, kvikmyndahátíðar í Reykjavík, – 10 millj. kr. tímabundið framlag til Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar á Austurlandi, – 6 millj. kr. tímabundið framlag til Handverks og hönnunar, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Dansverkstæðisins, – 5 millj. kr. tímabundið framlag til Skáksögufélagsins vegna útgáfu skákævisögu Friðriks Ólafssonar og minnismerkis um hann.

Stóru liðirnir eru hins vegar óbreyttir milli umræðna, sem veldur samtökum listamanna talsverðum áhyggjum, þar sem BÍL telur sig hafa sýnt fram á í umsögn sinni að list- og menningargeirinn sé undirfjármagnaður þegar horft er til heildarinnar og þeirra stofnana sem eru burðarstoðir í starfsumhverfi listafólks.