Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM
Stjórnarfundir SÍM á starfsárinu 2012-2013 voru nítján talsins, þar með talið fjórir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir tveir félagsfundir líkt og lög gera ráð fyrir.

Helstu málefni SÍM á árinu 2012.

Starfsumhverfi
Stjórn SÍM telur að helsta baráttumál þessa starfsárs snúi að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.

Á síðastliðnum árum hefur SÍM, í samstarfi við BÍL, unnið að því að bæta skattalegt umhverfi listamanna. Í byrjun þessa árs var reiknað endurgjald leiðrétt úr 414 þúsund á mánuði í 320 þúsund að tilstuðlan BÍL. Næstu skref í samstarfinu eru að fara á fund forstöðumanna fjármálaráðuneytis, vinnumálastofnunar og fæðingarorlofssjóðs og fá leiðréttingu á tengingu þessara stofnana á greiðslum við reiknað endurgjald í stað raunverulegra tekna.

Einnig var óskað eftir að frítekjumark vegna virðisaukaskatts yrði hækkað í 3-6 milljónir og var markið hækkað á árinu 2011 úr hálfri í eina milljón, en betur má ef duga skal. Formaður SÍM hefur nýverið sent skýrslu til fjármálaráðuneytis vegna virðisaukaskatts, sem ákveðinn hluti listamanna ber samkvæmt núgildandi lögum að skila inn. Eintak af þeirri skýrslu má nálgast á skrifstofu SÍM.

Launa og skoðanakönnun
Á þessu starfsári lagði stjórn SÍM grunn að því að gerð yrði launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni sem og til grundvallar samningum við Mennta- og menningarráðherra um greiðslur til handa myndlistarmönnum vegna sýningarhalds í opinberum söfnum og sýningarstöðum.

Laun vegna sýningarhalds.
Stjórn SÍM setti efst á starfsáætlun sína að félagið beiti sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í opinberum söfnum og sýningarsölum hérlendis. Stjórnin horfir þar til sænska samningsins ,,MU- Medverkans- och utställningsersättning,, sem samtök listamanna í Svíþjóð (KRO) og þarlend stjórnvöld gerðu með sér.

Stjórn SÍM hefur óskað eftir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið og SÍM geri með sér viðlíka samning vegna vinnuframlags myndlistarmanna við sýningarhald. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá eingreiðslu vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka sem og annars starfs sem óskað er eftir af viðkomandi stofnun.

Siða- og verklagsreglur ásamt starfslýsingum
Stjórnin samdi siða- og verklagsreglur fyrir félagsmenn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið vegna setu þeirra í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum samtakanna. Jafnframt voru samdar verklagsreglur fyrir stjórn SÍM.

Starfsmenn skrifstofu ásamt formanni stjórnar sömdu einnig starfslýsingar fyrir formann, framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og verkefnisstjóra gestavinnustofa, sem kynnt voru stjórn SÍM á stjórnarfundi.

Fumvarp til myndlistarlaga
Árið 2009 voru fyrstu drög að Myndlistarlögum lögð fram af Menntamálaráðuneyti á alþingi og var SÍM og Listskreytingarsjóður beðin um umsagnir og gerður bæði samtökin athugasemdir við frumvarpið. Vinnu við frumvarpið var svo lokið 2012 og ar frumvarp til myndlistarlaga samþykkt á vormánuðum 2012.

Með þessu nýja frumvarpin er meðal annars gert ráð fyrir stofnun myndlistarsjóðs, en slíkur sjóður hefur ekki verið starfsræktur áður. Stjórn SÍM stilnefndi fjóra fulltrúa í Myndlistarráðið, tvo aðalmenn og tvo varamenn, í byrjun þessa árs. Ráðið hefur ekki enn komið saman en skipunarbréf frá Mennta- og menningarráðherra munu vera send út innan tíðar. Þetta eru góð tíðindi fyrir myndlistarmenn en með þessu nýja ráði hafa þeir loks fengið verkefnasjóð á við aðrar listgreinar í landinu.

Samningar um birtingu myndverka í eigu listasafna á netinu.
Eftir áralanga baráttu um að fá listasöfn landsins, ásamt safnaráði, að samnningarborðinu um birtingu myndefnis á netinu virðist nú vera að rofa til í þeim efnum. Það er enda einlægur vilji bæði listamanna og safna að safneign þeirra verði sýnileg á heimsaíðum safnanna.

Myndstef – myndhöfunarsjóður Íslands hefur umsjón með málefnum félagsmanna SÍM og semur fyrir þeirra hönd. Vonast stjórn SÍM til þess að samningar náist milli Myndstefs, Mennta- og menningarráðuneytis og safnaráðs á þessu ári.

Lottópotturinn
Í byrjun ársins 2011 funduðu Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildi Sigurðardóttir formaður SÍM með innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni til að ræða það að listamenn fái í framtíðinni hlut af Lottó pottinum líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Ögmundur tók málefni listamanna mjög vel og setti á laggirnar starfshóp til að gera tillögu að breyttum úthlutunarreglum úr sjóðnum. Formaður var skipaður Katrín Fjeldsted. Nú er ljóst að nefndin hefur aldrei verið kölluð saman, en núverandi samningur um Lottó rennur út eftir fáein ár. Það er von SÍM að stjórn BÍL muni halda þessu málefni á lofti svo að samningurinn verði ekki endurnýjaður án aðkomu okkar að þessum sjóði.

Dagur myndlistar 5. nóvember 2011.
Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember og höfðu Gunnhildur Þórðardóttir og Gunndís Ýr Finnbogadóttir veg og vanda að deginum. Skólum og myndlistasrmönnum var boðið að skrá sig til þáttöku í gegnum heimasíðu Dags myndlistar á www.dagurmyndlistar.is. Gerður var samningur við Contemporary.is um gerð fimm myndbanda til að setja á síðuna fyrir utan þau sem þar voru fyrir.

Að þessu sinni fóru kynningar fram í 18 grunn- og framhaldsskólum, 8 skólum á höfuðborgarsvæðinu og 10 skólum á landsbyggðinni og voru það tólf listamenn sem sáu um kynningarnar á starfi sínu og heppnuðust þær mjög vel.

Um 100 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi, en það er rúm 10% fjölgun frá því í fyrra og voru vinnustofur opnar um land allt. Nú hefur verið sótt um styrki til Dags myndlistar 2013 til Reykjavíkurborgar og Mennta- og menningarráðuneytis og vonast SÍM þannig til að gera daginn enn veglegri á næsta ári.

Vinnustofur
SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Þannig eru rúmlega 50 félagsmenn með vinnuaðtöðu á Seljavegi, á Korpúlfsstöðum eru um 60 starfandi listamenn og hönnuðir ásamt því að þar eru staðsett verkstæði Leirlistarfélags og Textílfélags. Á Lyngási í Garðabæ eru um tuttugu listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum. Á Nýlendugötu eru um 25 félagsmenn með vinnustofur ásamt veitingahúsinu Forréttarbarnum og hönnunarverluninni Netagerðinni á fyrstu hæð.

Á þessu starfsári voru svo teknar í notkun nýjar vinnustofur í Súðavogi í gömlu timbursölu Húsasmiðjunnar, en þar eru nú 20 félagsmenn SÍM með vinnuaðstöðu. SÍM sér því um 175 félagsmönnum fyrir vinnustofum á viðráðanlegu verði.

Gestavinnustofur SÍM og styrkur KKNord – Kulturkontakt Nord
Framkvæmdastjóri SÍM sótti um styrk til KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa SÍM á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Fekk umsóknin jákvæðan stuðning KKNord að þessu sinni. Felst hann í því að SÍM býður fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar í senn sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks.

Á árinu sem er að líða hafa um 250 listamenn komið til landsins til dvalar í gestavinnustofum okkar á Seljavegi, Korpúlfsstöðum og hér í Hafnarstrætinu. Það eru listamenn frá um 30 löndum víðs vegar úr heiminum. Í hverjum mánuði setja þau upp sýningu hér í SÍM húsinu í lok dvalarinnar og eru allir listamenn á landinu hvattir til að mæta á þær opnanir.

Gestavinnustofur SÍM í Berlín
SÍM hefur á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín. Þar gefst félagsmönnum SÍM tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú fjórir starfskraftar í rúmum þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Þórólfur Árnason sem sér um bókhaldið. Hrafnhildur Sigurðardóttir sér um formennsku og Friðrik Weishappel sér um viðhald vinnustofuhúsa. Á árinu hófu tveir félagsmenn störf á skrifstofunni og bjóðum við þær velkomnar til starfa. Það eru þær Hildur Ýr Jónsdóttir sér um gestavinnustofur SÍM og tekur við af Gunnhildi Þórðardóttur sem fer í barnseignaleyfi, en Arna Óttarsdóttir tekur við af Gunndísi Ýr Finnbogadóttur sem tók við starfi framkvæmdastjóra Nýlistasafnsins. Kristjana Rós Gudjohnsen sem einnig lét af störfum á árinu tók við verkefnastjórnun hjá Íslandsstofu. Við þökkum þeim fyrir samstarfið og óskum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Alþjóðlegt samstarf:

Fundur hjá IAA – International Artist Association
Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar og er SÍM aðili að alþjóðasamtökunum myndlistarmanna IAA – International Artist Association sem stofnuð voru í skjóli Unesco árið 1954.

Evrópudeild IAA fundar reglulega og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fund samtakanna í Istanbul í Tyrklandi í enda október.

Á fundinum var rætt um nýju IAA skírteinin, en nýtt skírteini samtakanna hefur nú verið tekið í notkun um alla Evrópu og var skírteini SÍM þar fyrirmynd enda til fyrirmyndar. Félög í IAA hafa undanfarið staðið fyrir átaki, hvert í sínu landi, til að kynna skírteinin svo að fleiri listasöfn í heiminum taki þau gild.

Fram kom í máli formanns listamanna í Istanbul, Bedri Baykam að hann og aðrir listamenn hafa orðið fyrir árásum öfgamanna vegna starfa sinna á síðustu árum og sérstaklega s.l.ár, en hann sjálfur varð fyrir alverlegri hnífstungu árið 2011. Óskað var eftir stuðningi IAA með ályktunum fyrir listamenn í Tyrklandi og voru þær samþykktar á fundinum.

Fulltrúi Svía Pontus Raud kynnti sænska MU- samninginn og voru fundarmenn sammála um að svipaðan samning þyrfti að innleiða í öllum löndum Evrópu.

Reykjavík 7. febrúar 2012
f.h. stórnar SÍM
Hrafnhildur Sigðurðardóttir formaður
Samband íslenskra myndlistarmanna
Hafnarstræti 16
IS-101 Reykjavík
Sími 5511346
hrafnhildur@sim.is
www.sim.is