Stjórn FÍLD skipa:
Guðmundur Helgason, formaður
Tinna Grétarsdóttir, gjaldkeri
Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari
Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi
Hrafnhildur Einarsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Helena Jónsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum félögum og stofnunum:
Bandalag íslenskra listamanna, Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn, Anna Norðdahl
Launasjóður sviðslistamanna, Karen María Jónsdóttir
Úthlutunarnefnd Leiklistarráð, Sveinbjörg Þórhallsdóttir (í gegnum LSÍ)
Leiklistarsamband Íslands, Ásgeir Helgi Magnússon
Leikminjasafn Íslands, Guðmundur Helgason
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík, Tinna Grétarsdóttir
Grímunni – íslensku leiklistarverðlaununum, 2 fulltrúar leynilegir…

Félagsmenn voru í lok ársins 2012 samtals 95

Aðalfundur FÍLD var haldinn 5.febrúar 2012 og þar kvöddu tveir stjórnarmenn þær Ásta Björnsdóttir og Ásgerður Gunnarsdóttir og Irma Gunnarsdóttir varamaður. Núverandi stjórn þakkar kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins. Ný í stjórn voru kosin; Tinna Grétarsdóttir gjaldkeri, Hrafnhildur Einarsdóttir meðstjórnandi og Katrín Gunnarsdóttir varamaður. Á fundinum sem var 65 ára afmælisfundur félagsins heiðraði stjórn Ingibjörgu Björnsdóttur fyrir hennar framlag til félagsins okkar og danslistarinnar í landinu. En hún hefur verið óþrjótandi í sinni vinnu fyrir dansinn á Íslandi. Í kjölfarið sigldu heiðursviðurkenning menningarverðlauna DV í mars og þann 17.júní fékk Ingibjörg svo fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu danslistarinnar.

Stjórn hefur haldið 13 stjórnarfundi á þessu starfsári, að jafnaði einu sinni í mánuði en þar fyrir utan hefur stjórn hist á vinnufundum auk þess að eiga nokkur samskipti á Facebook-grúppu stjórnar þar sem þau mál sem þarf að ræða milli funda eru afgreidd.
Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, ýmsa aðra fundi í nafni félagsins eins og t.d. mánaðarlega fundi Bandalags íslenskra listamanna og reglulega fundi fulltrúaráðs Leiklistarsambands Íslands. Aðrir fundir eru sjaldnar. Þau eru mýmörg verkefnin sem berast inn á borð stjórnarinnar hverju sinni og hérna verður aðeins tæpt á því helsta sem stjórn hefur unnið að á þessu ári. Dansstefnan reynist stjórn vel og mjög víða er minnst á hana í umræðum við ýmsa aðila og vitnað til hennar. Hún verður áfram ákveðið grundvallarplagg fyrir stjórn að vinna eftir við stefnumótun til framtíðar.

FÍLD stóð fyrir SOLO, keppni í klassískum listdansi 7.febrúar í Gamla Bíó. Þar tóku þátt 11 listdansnemar frá tveimur skólum, Ballettskóla Guðbjargar Björgvins og Listdansskóla Íslands. Þessi keppni er undankeppni fyrir norræna/baltneska ballettkeppni Stora Daldansen, sem haldin er í Svíþjóð ár hvert og þangað koma bestu listdansnemar norðurlanda og baltnesku landanna. Á SOLO voru þrír valdir til þess að vera fulltrúar Íslands í keppninni úti en það voru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Þórey Birgisdóttir og Karl Friðrik Hjaltason öll nemendur við Listdansskóla Íslands. Þau stóðu sig með prýði í Svíþjóð þó ekkert þeirra hafi hlotið verðlaunasæti að þessu sinni. Samkvæmt reglum Stora Daldansen ber að halda undankeppni í hverju landi fyrir sig og hefur FÍLD tekið það hlutverk að sér sem fagfélag dansins með tengingu við alla listdansskóla á landinu.

Formaður sótti samráðsfundi BÍL og menntamálaráðherra annars vegar og BÍL og borgarinnar hinsvegar. Þar ræddi hann mikilvægi þess að ríki og borg styddu myndarlega við bakið á danslistinni, drauminn um danshús og benti á nauðsyn þess að styðja vel við listmenntun í landinu og þá skóla sem eru sannarlega að ala upp framtíðar listamenn þjóðarinnar. Þó að dansinn og aðrar listir séu í mörgum ef ekki flestum tilfellum tómstundagaman hjá yngri krökkum þá er á þessum árum lagður grunnur að framtíðarlistamönnum þjóðarinnar og því mikilvægt að vel sé staðið að og stutt við dans-/listmenntun barna.

Í byrjun janúar 2013 hélt BÍL svo samráðsfund með tómstunda og fræðsluráði Reykjavíkurborgar hvar formaður FILD spurði fulltrúa borgarinnar um hug þeirra til að styðja við listdansskóla á svipaðan hátt og stutt er við bakið á tónlistarskólum og Myndlistarskóla Reykjavíkur. Svörin voru kannski fyrirsjáanleg í kjölfar kreppu en við bindum þó vonir við að það takist að fá sveitarfélögin og ríkið til samninga um stuðning við grunnnám í listdansi.

Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur um heim allan 29.apríl og af því tilefni setti FÍLD upp „pop-up” danssafn í Tjarnarbíó líkt og árið þar áður. Á veggjum mátti sjá kynningarplaköt frá dansskólum, Íslenska dansflokknum, Reykjavík dance festival, Dansverkstæðinu og fleiri. Fengnir voru að láni gamlir búningar sem minna okkur á listdanssöguna hér á landi. Á sviðinu í Tjarnarbíó sýndu nokkrir skólar atriði auk þess sem gamlar upptökur af dansverkum voru sýndar á tjaldi. Nokkrir úr sjálfstæða geiranum kynntu verk sem þau voru að vinna að auk þess sem forsvarsmenn Reykjavik Dance Festival kynntu væntnalega hátíð. Um kvöldið var svo sýnd heimildamyndin „Ladies and gentlemen” sem sýnir uppsetningu og æfingar á verki eftir Pinu Bausch. Dagurinn þótti mjög vel heppnaður og kann stjórn FÍLD, Helenu Jónsdóttur bestu þakkir fyrir hennar stóra þátt í skipulagningu dagsins. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu til efni og vinnu til þess að hugmyndin yrði að veruleika.

Þann 12. maí var haldin árshátíð dansara í Dansverkstæðinu en það er sjálfsprottin hátíð sem byrjaði árið 2010 og hefur vakið mikla lukku síðan. Heimatilbúnar veitingar og skemmtiatriði eru aðalsmerki hátíðarinnar og verður gaman að sjá hvað undirbúningsnefndin finnur uppá fyrir næstu árshátíð. Hátíðin er auglýst á póstlista FÍLD og eru allir velkomnir á árshátíð dansara.

FÍLD hefur á árinu unnið áfram í samvinnu við Katrínu Gunnarsdóttur að skýrslunni um listdanskennslu á Íslandi. Við bættum við upplýsingum frá síðasta ári og höfum svo fengið mismunandi aðila til að lesa yfir skýrsluna og benda á það sem hugsanlega er eitthvað óljóst. Nú stendur yfir vinna við að fara yfir þessar ábendingar og í kjölfarið munum við svo klára uppsetningu og prentun á skýrslunni. Það er von stjórnar að í framhaldinu verði hægt að nýta skýrsluna til þess að fá aukinn stuðning frá sveitarfélögunum við grunnnám í listdansi. Formaður vísaði m.a. til skýrslunnar á fundi með tómstunda og fræðsluráði Reykjavíkurborgar á dögunum.

Skýrslan var upphaflega unnin í samstarfi FÍLD, LHÍ og Katrínar með styrk frá nýsköpunarsjóði. Karen María Jónsdóttir var leiðbeinandi verkefnisins.

Fulltrúar FÍLD hafa áfram unnið með samráðsnefnd fagfélaganna innan Leiklistarsambands Íslands að tillögum/umsögn varðandi frumvarp Menntamálaráðherra til nýrra Sviðslistalaga. Samráðsnefndin skilaði fyrir rúmu ári síðan mjög ítarlegum tillögum til úrbóta á frumvarpinu og er óhætt að segja að þær tillögur hafi ekki fallið í frjóan jarðveg í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í kjölfar þeirrar vinnu var þó boðað til fundar embættismanna í ráðuneytinu og samráðsnefndarinnar þar sem farið var í gegnum tillögur okkar. Á nýju þingi í haust var svo lagt fram að nýju, frumvarp til Sviðslistalaga með einhverjum breytingum. Það sem er jákvætt við þetta frumvarp fyrir dansinn er að nú stendur til að festa í lög starfsemi Íslenska dansflokksins sem til þessa hefur verið rekinn samkvæmt reglugerð. Þannig styrkist lagagrundvöllur flokksins til muna og hann öðlast fastari sess hjá hinu opinbera. Þá var það mikill sigur að horfið var frá tillögum um svokallað sólarlagsákvæði sem kvað á um niðurfellingu á endurmenntunarstyrkjum dansara flokksins. FÍLD talaði fyrir því á vettvangi BIL og innan samráðsnefndarinnar og fékk fullan stuðning þeirra og LSÍ að þetta ákvæði skyldi áfram halda gildi sínu enda hluti af kjarasamningi dansara og ekki hægt að afnema það sísvona með lögum. Félög listamanna gáfu þannig fullan pólitískan stuðning við málið sem að SFR kláraði svo í framhaldinu. Frumvarp til sviðslistalaga er að koma úr umsagnarferli innan nefndasviðs Alþingis og bíður annarar umræðu. Sumar umsagnirnar sem hafa komið inn til Alþingis ganga mjög gegn tillögum samráðsnefndarinnar en svo á eftir að koma í ljós hversu mikið tillit verður tekið til umsagnaraðila og eins hreinlega hvort frumvarpið nær í gegn fyrir þinglok.

Allt almennt starf á vegum FILD eins og t.d. hjá stjórn er unnið í sjálfboðavinnu og því mikilvægt að félagsmenn geri sitt til að hjálpa til þegar á þarf að halda. Vefstjórinn okkar Guðrún Óskarsdóttir hefur áfram haldið utan um vefsíðu félagsins og reynum við að hafa reglulegt flæði af fréttum af fólkinu okkar og danslistinni. Besta leiðin til þess að síðan sé mjög virk er að við félagsmenn séum dugleg að senda inn fréttatilkynningar af því sem við erum að gera hverju sinni. Því hvetjum við félagsmenn til að vera ófeimnir við að senda fréttir og fréttatilkynningar á Guðrúnu svo síðan okkar verði sem öflugust.

Reykjavík Dance Festival var með mjög óhefðbundu sniði þetta árið og má kannski segja að hátíðin hafi verið meira sniðin að þátttakendum sjálfum en hinum almenna áhorfanda sem vissi ekki alveg við hverju var að búast þegar hann mætti á staðinn. Það er gaman að sjá hvernig hátíðin tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og er aldrei alveg eins. Margir skemmtilegir viðburðir litu dagsins ljós í ár eins og LunchBeat sem er kominn til að vera og setur skemmtilegan svip á dansflóruna. Þá bárust þau ánægjulegu tíðindi nýlega að Reykjavíkurborg gerði 3ja ára samstarfssamning við Reykjavik Dance Festival sem og Dansverkstæðið sem styrkir rekstargrundvöllinn til muna. Nú bíðum við bara spennt og sjáum hvað næstu forsvarsmenn hátíðarinnar bjóða uppá í haust.

Fyrir utan RDF hefur verið mikil gróska í starfsemi sjálfstæðra danshópa. Danshöfundar og hópar setja reglulega upp sýningar og fögnum við því að þessar sýningar verði til þrátt fyrir takmarkað fjármagn. Aðstaðan í Dansverkstæðinu skiptir hérna mjög miklu máli fyrir sjálfstæða geirann og má segja að starfsemin blómstri þessa dagana, fleiri eru farnir að sækja þjálfunartíma á morgnana og húsnæðið nýtist bæði sjálfstætt starfandi danslistamönnum og skólum.
Við sem fagfélag og samfélag dansara styðjum best við bakið á sjálfstæðum danshöfundum með því að mæta á sýningarnar þeirra og vera dugleg að taka fólk með okkur.
Þá hafa íslenskir dansarar/danshöfundar verið á faraldsfæti og dansað víðsvegar um Evrópu, Tokyo, Ísrael, Brasilíu og víðar. Tækifærin eru ekki mörg hér á landi og því einstaklega ánægjulegt að sjá íslenska danslistamenn geta sér góðs orðs erlendis. Í því samhengi má minnast á Bryndísi Rögnu Brynjólfsdóttur dansara með Scapino-flokknum í Rotterdam Hollandi, sem var valin ein af 100 bestu dönsurum í heiminum af tímaritinu Dance Europe dansárið 2011-12.
Í byrjun mars var tilkynnt um skipan Láru Stefánsdóttur sem nýs listdansstjóra Íslenska dansflokksins frá og með 1.ágúst 2012. Lára tók við af Katrínu Hall sem sagði skilið við flokkinn eftir 16 ára farsælt starf. Það er augljóst að þar sem Íslenski dansflokkurinn er ákveðin burðarstoð í íslensku danslífi þá hefur listdansstjóri mikil áhrif á þróun danslistarinnar í landinu. Við fylgjumst því spennt með hvaða stefnu Lára mun taka með flokkinn og vonandi vinna honum frekari framgangs. Þá endurnýjaði Íslenski dansflokkurinn leigusamning sinn við Borgarleikhúsið á árinu og verður þar áfram enn um sinn með sýnar föstu sýningar. Þess utan fer Dansflokkurinn reglulega í sýningarferðir innanlands og víða erlendis þar sem jafnan er gerður góður rómur að sýningum flokksins.

Á árinu fagnaði Ballettskóli Guðbjargar Björgvins 30 ára afmæli, Danslistarskóli JSB varð 45 ára á árinu og Ballettskóli Sigríðar Ármann átti 60 ára afmæli sem gerir hann að elsta einkarekna ballettskóla á landinu. Listdansskóli Íslands áður Listdansskóli Þjóðleikhússins fagnaði 60 ára afmæli á árinu. Guðmundur Helgason var ráðinn skólastjóri þess skóla frá 1.ágúst en hann hefur kennt við skólann með hléum frá 1993 og því öllum hnútum kunnugur innan veggja skólans. Einnig urðu eigendaskipti á Listdansskóla Hafnarfjarðar í árslok þegar Eva Rós Guðmundsdóttir keypti skólann.

Í haust setti RÚV í framleiðslu aðra seríu af Dans Dans Dans en litlu munaði að þættirnir yrðu blásnir af. Það var því enn ánægjulegra þegar tilnefningar til Eddunnar voru birtar á dögunum og í ljós kom að þátturinn er tilnefndur sem besti skemmtiþáttur í sjónvarpi. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og aukið áhuga á dansi. Það er vonandi að sjónvarpið finni fyrir þessum áhuga og setji á dagskrá fleiri þætti og myndir um dans. Það vitum við að af nógu er að taka af bíómyndum, dansstuttmyndum, heimildamyndum og svo framvegis.

Dansinn var í fókus við opnun Barnamenningarhátíðar í febrúar þegar 1200 börn úr grunnskólum borgarinnar dönsuðu sérstakan opnunardans í anddyri Hörpu. Dansinn var einnig í miklum fókus við upphaf listahátíðar í Reykjavík þegar þær Katrín Gunnarsdóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir dönsuðu í anddyrinu. Íslenski dansflokkurinn setti á Listahátíð upp sýningu í Hörpu í samvinnu við GusGus og sömu helgina stóð Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir sýningu byggðri á barnabókinni Maximús Músikús bjargar ballettinum en þar dönsuðu ca 120 nemendur Listdansskóla Íslands við tónlist sinfóníunnar í Eldborgarsalnum. Það má því segja að dansinn hafi yfirtekið Hörpu þessa daga.

Í september fóru alls níu manns frá Íslandi á ballettráðstefnuna „Ballet why and how?” Ráðstefnan reyndist mikill innblástur fyrir þá sem fóru enda mjög flott fólk á meðal fyrirlesara sem talaði af mikilli andagift. FÍLD stóð svo fyrir kynningarfundi í samfloti við Hið íslenska dansfræðifélag sem reyndar varð eitthvað minna úr en til stóð vegna forfalla. Þeir sem mættu áttu þó gott spjall við formann FILD sem sagði frá sinni upplifun af ráðstefnunni og hvað honum þótti merkast af því sem fyrir augu og eyru bar. Ráðstefnuhaldarar eru þegar farnir að planleggja næstu ráðstefnu sem mun hafa yfirskriftina „Ballet: Here and Now” en hún verður haldin í Arnhem Hollandi árið 2015.

Þessa dagana situr Ingibjörg Björnsdóttir við skriftir og vinnur að því að klára bókina um sögu listdans á Íslandi en sú bók á mjög langa sögu allt frá því að stjórn FILD fór þess á leit við Árna Ibsen að taka að sér skriftirnar. Það er von stjórnar að Ingibjörg nái að klára ritun bókarinnar sem fyrst og næsta verkefni okkar verður svo að fá grænt ljós á handritið hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs og fjármagna útgáfu bókarinnar. Þar gæti reynt á hjálp félagsmanna eins og svo oft áður.

Það er því mikill þróttur í íslensku danslífi og mörg jákvæð teikn á lofti fyrir framtíðina – verkefnin eru mörg og saman getum við áfram unnið danslistinni brautargengi og haldið áfram að taka þessi skref til framfara.

Stjórn Félags íslenskra listdansara,
Guðmundur Helgason, formaður