Bandalag íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð. Með því móti væri óperustarfsemi komið á traustan kjöl opinbers rekstar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Bandalagið leggur til að mennta- og menningarmálaráðherra kynni í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019, svo fá megi fram sjónarmið þeirra sem best þekkja. Endanlegt frumvarp verði svo lagt fram á Alþingi eigi síðar en haustið 2021.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.

1.gr.

Eftirfarandi kafli og greinar bætast í lög um sviðslistir nr. 165/2019.

1. KAFLI

Þjóðarópera.

(a). gr.

Hlutverk.

Þjóðarópera er eign íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Þjóðaróperunnar er að sviðsetja óperuverk af háum listrænum gæðum. Þjóðaróperan skal sinna sögulegri arfleið óperulistarinnar í samtíma samhengi með sérstakri áherslu á íslenska frumsköpun. Þjóðaróperan skal vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun óperulistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á óperulist.

(b). gr.

Helstu verkefni.

Aðalverkefni Þjóðaróperu eru sýningar á íslenskum og erlendum óperuverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk óperuverk. Einnig skal Þjóðaróperan annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum innanlands. Þjóðaróperunni er heimilt að standa að sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa.

(c). gr.

Óperustjóri.

Ráðherra skipar óperustjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Skipaður skal einstaklingur með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á óperuflutningi og starfssviði Þjóðaróperunnar. Endurnýja má skipun óperustjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meirihluti stjórnar mælir með endurráðningu.

Óperustjóri er stjórnandi Þjóðaróperunnar og markar listræna stefnu hennar. Hann er í forsvari fyrir þjóðaróperuna og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn stjórnar. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi Þjóðaróperunnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

(d). gr.

Stjórn.

Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Þjóðaróperunnar. Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum tilnefnir tvo fulltrúa en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin skal skipuð til fimm ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórnina lengur en tvö samfelld starfstímabil.

Stjórn Þjóðaróperunnar er óperustjóra til ráðgjafar um stefnu Þjóðaróperunnar og önnur málefni er varða starfsemi hennar. Hún veitir óperustjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

(e). gr.

Samstarf.

Þjóðaróperan skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna óperulist s.s. tónskáld, textahöfunda, sviðshöfunda, hönnuði og flytjendur með listrænan ávinning, nýsköpun og fjölbreytni að markmiði.

Þjóðaróperan skal stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi Þjóðaróperunnar eftir því sem við verður komið.

(f). gr.

Kostnaður.

Kostnaður af óperuráði og rekstri Þjóðaróperunnar greiðist úr ríkissjóði. Þjóðaróperunni er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.