Aðalfundur BÍL 2015 verður haldinn laugardaginn 7. febrúar og hefst hann kl. 11:00. Í framhaldinu verður haldið málþing um ábyrgð hins opinbera gagnvart því að varðveita og viðhalda listsköpun á íslenskri tungu í þágu menningararfs framtíðarinnar. Málþingið hefst kl. 14:00 og yfirskrift þess verður: Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar. Og undirtitillinn verður í formi spurningar: Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti? Ekki liggur ljóst fyrir hvar fundurinn verður haldinn, þar sem Iðnó er ekki laust 7. febrúar, svo staðarval verður ákveðið og tilkynnt einhvern næstu daga.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu þessari. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2015 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.