Pétur Gunnarsson rithöfundur og fyrrv. formaður Rithöfundasambands Íslands skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann fjallar um ólíka afstöðu ráðamanna til bókaskatts frá árinu 1990 til dagsins í dag. Greinin fylgir hér:
Nú þegar enn einn ganginn upphefst orðræða um bókaskattinn er vert að rifja upp sögu sem helst má ekki gleymast. Það var árið 1990. Íslensk bókaútgáfa var að sligast undan 25% skatti á bækur, þeim hæsta á byggðu bóli. Þeir sem létu sig bókaútgáfu varða með rithöfunda í broddi fylkingar voru óþreytandi að vekja athygli á þeirri mótsögn að minnsti bókamarkaður veraldar skyldi búa við hæstu skattlagningu í heimi. Í miðri þeirri orrahríð barst liðstyrkur sem um munaði: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér ályktun þar sem skattinum var mótmælt og lagt til afnám hans (en fjármálaráðherra þá var Ólafur Ragnar Grímsson).
Hvort þetta var kornið sem fyllti mælinn eða dropinn sem holaði steininn skal ósagt látið, en haustið 1990 urðu þau stórtíðindi að söluskattur á bækur var afnuminn. Við erum enn á dögum nokkur sem tókum þátt í sigurhátíðinni af því tilefni, haldinni í Norræna húsinu við húsfylli þar sem ræður voru fluttar, sungið og spilað að ógleymdum maraþonupplestri úr völdum bókmenntaverkum. Hámarkið var svo þegar þingheimur fór út á hlað og féllst í faðma meðan flugeldum var skotið á loft. Í hönd fóru þrjú hamingjusöm ár, þar til haustið 1993, þegar eins og þruma úr heiðskíru lofti skattinum var aftur komið á (fjármálaráðherra þá var Friðrik Klemenz Sophusson).
Af þessari sögu má sjálfsagt draga ýmsa lærdóma, en í hug koma orð ófeimnu löggunnar í Atómstöðinni: „Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn.“ Þeir fara yfirleitt óaðfinnanlega með rulluna um bókmenntirnar sem hryggjarstykkið í íslenskri menningu, mikilvægi þeirra fyrir tunguna, mikilvægi tungunnar fyrir tilveru þjóðarinnar, nauðsynina að bregðast við hrakandi læsi… Ég held að þeir skilji líka margir, a.m.k. þeir sem eiga vasareikni, að kostnaður við að prenta íslenska bók er borinn uppi af sárafáum eintökum, en dreifist á tugi þúsunda eintaka hjá „þjóðum sem við viljum bera okkur saman við“. Og stilla þær þó ýmist söluskatti á bækur mjög í hóf eða hafa hann engan, samanber Breta og Íra sem þó geta tungumálsins vegna dreift bókum í hundruðum milljóna eintaka. Núverandi stjórnvöld á Íslandi búast aftur á móti til að slá Evrópumet í skattlagningu á bækur.
Nú þegar enn eina ferðina þarf að biðja íslenskum bókmenntum griða, koma í hug orðin sem Árni prófastur Þórarinsson hafði um Guð: að það dygði ekki að tala við hann eins og vitiborna manneskju, heldur miklu fremur eins og barn eða jafnvel óvita. Án þess að ég vilji beinlínis færa meirihluta þingmanna undir þann flokk, hvet ég þá til að hverfa frá fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á bækur og hverfa aftur til sæludaga áranna 1990–1993 með því að nema hann alfarið af.