Í dag lauk í Madríd ársfundi ECA – European Council of Artists og ráðstefnu sem haldin var í tengslum við fundinn. Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL var á fundinum kjörin forseti ECA og tekur hún við af írska myndhöggvaranum Michael Burke, sem gegnt hefur embættinu sl. fjögur ár. Varaforsetar samtakanna eru tveir, danska söngkonan og söngvaskálið Pia Raug og Theodoulos Gregoriou myndlistarmaður frá Kýpur. 27 Evrópulönd eiga aðild að Bandalagi evrópskra listamanna, þar á meðal öll Norðurlöndin nema Noregur. Færeyjar og sjálfstjórnarsvæði Sama á Norðurlöndum eru líka aðilar að ECA.
Í fimmtán þessara landa eru starfandi svokölluð „regnhlífarsamtök“ listgreinanna, þar sem flest eða öll samtök listafólks í viðkomandi landi eiga aðild. Helstu verkefni ECA varða sameiginleg hagsmunamál listafólks í Evrópu, stefnumótun og lagaumhverfi listgreinanna, nýsköpun og þróun, höfundarétt, tryggingar, eftirlaunamál og möguleika listafólks á að stofna til verkefna yfir landamæri.
Á ráðstefnunni, sem haldin var í tengslum við ársfundinn og hafði yfirskriftina „Back to buisiness – the need for industrious artists“ var fjallað um gildi listanna fyrir samfélagið og áhrifin sem það hefur á listamenn og listina þegar kastljósinu er í auknum mæli beint að hinum efnahagslegu áhrifum svokallaðra skapandi greina. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru argentíska tónskáldið Federico Jusid, leikstjórinn og leikskáldið José Sanchís Sinisterra og systir Bernatte Sweeny, sem vakið hefur athygli fyrir að gefa fiðlur, víólur eða selló öllum 400 börnunum í Skóla heilagar Agnesar í Dublin, sem hún stýrir. Þá ávarpaði fyrrum þingmaður Evrópuþingsins Carlos Carnero González ráðstefnuna.
Nokkur óvissa ríkir um framtíð ECA vegna fjárhagserfiðleika í flestum löndum álfunnar, svo fyrsta verk hins nýkjörna forseta verður að leita leiða til að treysta fjárhagsgrundvöll samtakanna og tryggja rekstur þeirra til næstu ára.