Stjórn FÍLD:
Formaður: Irma Gunnarsdóttir. Gjaldkeri: Guðmundur Helgason. Ritari: Guðmunda Pálmadóttir. Meðstjórnandi: Bryndís Einarsdóttir. Meðstjórnandi: Ingunn Elísabet Hreinsdóttir. Varamaður: Valgerður Rúnarsdóttir. Varamaður: Sigrún Ósk Stefánsdóttir.
Bryndís flutti erlendis í september 2019. Sigrún Ósk hefur gengt starfi meðstjórnanda síðan.
FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum stofnunum/bandalögum:
Bandalag Íslenskra Listamanna: Irma Gunnarsdóttir. Íslenski Dansflokkurinn: Anna Norðdahl. Varamaður: Guðmundur Helgason. Sviðslistasamband Íslands: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Guðmundur Helgason. Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík: Irma Gunnarsdóttir. Varamaður: Ólöf Ingólfsdóttir. Gríman – Íslensku Leiklistarverðlaunin: Einn fulltrúi í Grímunefnd.
Aðalfundur FÍLD var haldinn 27.janúar 2019. Irma Gunnarsdóttir var endurkjörin sem formaður. Fráfarandi stjórnarmeðlimir voru Hildur Ólafsdóttir ritari, Anna Norðdahl meðstjórnandi og Guðrún Selma Sigurbjörnsdóttir varamaður. Núverandi stjórn þakkar þeim fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins.
Stjórn FÍLD fundaði að jafnaði með eins mánaðar millibili á árinu. Utan þess var fjallað um mál sem hæst báru hverju sinni í gegnum tölvupóst, síma og facebooksíðu stjórnar. Stjórn fundaði einnig nokkrum sinnum með skólastjórnendum listdansskólanna, sérfræðingum menntamálaráðuneytisins og skólastjórnendum MH vegna stöðu framhaldsskólastigs í listdansi en samningar vegna kennslu á framhaldsskólastigi eru lausir frá 1.júlí 2020.
Kjaramál dansara og danshöfunda
FÍLD hefur átt í góðu samstarfi við FÍL – stéttarfélag sviðslistafólks síðastliðið ár. Birna Hafstein formaður FÍL hefur sýnt kjarabaráttu dansara mikinn stuðning á árinu og hefur hún beitt sér af fullum krafti f.h. dansara í kjarabaráttu við ríkið og stofnanaleikhúsin. Einnig má finna fyrir samstöðu með dönsurum meðal sviðslistafólks innan FÍL en til marks um samstöðuna sendi aðalfundur FÍL frá sér ályktun til stofnannaleikhúsanna þar sem krafist er að dansarar og danshöfundar fái greitt fyrir sína vinnu í leikhúsunum skv. lögbundnum kjarasamningum, líkt og aðrar stéttir leikhúsanna.
Sviðslistafélögin FÍLD, FÍL, DFÍ og SL ásamt Dansversktæðinu tóku höndum saman á árinu og mynduðu þrýstiafl til stuðnings kjarabaráttu dansara. Sent var bréf til stjórnenda stofnanaleikhúsanna þar sem þrýst var á um úrbætur og krafist launajafnréttis. Það er óþolandi að danslistarfólk skuli ekki búa við sömu kjör og sambærilegar stéttir í leikhúsunum. Ályktanir og ákall um að dansarar og danshöfundar fái lögbundna kjarasamninga hafa einnig verið sendar til kjara- og mannauðssýslu ríkisins en það er í höndum þeirra að lögbinda kjarasamninga við stofnanaleikhúsin fyrir danslistarfólk. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að samningarnir líti dagsins ljós. Baráttan heldur áfram af fullum krafti. Við krefjumst réttlætis og jafnréttis!
FÍLD á vettvangi BÍL
Formaður FÍLD sækir mánaðarlega stjórnarfundi BÍL og er þar talsmaður listdansmála. BÍL starfar skv. starfsáætlun stjórnar þar sem áhersla er á samtal og samráð um málefni listamanna og listgreina við aðila sem stýra málaflokknum hjá ríki og borg. Samráðsfundur BÍL með menntamálaráðherra og sérfræðingum ráðuneytisins var haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í lok nóvember og samráðsfundur með borgarstjóra og fulltrúum borgarinnar fór fram í byrjun desember í Höfða. Á báðum þessum fundum vakti undirrituð athygli ráðamanna á bágborinni stöðu listdansnáms í menntakerfinu sem og óviðunandi kjörum danslistarfólks í stofnannaleikhúsunum.
FÍLD hefur unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að vekja athygli ráðamanna á stöðu listdansnáms í menntakerfinu en því miður þokast málin hægt áfram. Á umræddum fundum benti undirrituð á stöðu listdansnámsins í stjórnsýslunni og því hróplega misræmi sem blasir við í styrkveitingum með listnámi frá ríki og borg. Ítrekað hefur FÍLD kallað eftir reglugerð utan um listdansnám skv. aðanámsskrá og var enn og aftur vakin athygli á málinu á báðum þessum fundum. Vegna skorts á lagaumgjörð utan um listdansnám sér borgin sér ekki fært að greiða með grunnnáminu að svo stöddu en borgarstjóri lýsti yfir áhuga á að gera þríhliða samning um kennslu grunnnáms í listdansi með ríki, borg og listdansskólum þegar lagaumgjörð þess efnis kemur frá ríkinu. Málið liggur nú hjá menntamálaráðherra og mun FÍLD halda áfram að ýta á eftir málum.
Á báðum þessum samráðsfundum voru kjör listafólks rædd. BÍL fer fram á að fjöldi starfslauna listamanna verði hækkaður sem og að starfslaunin sjálf verði hækkuð í takt við almenna launaþróun í landinu. Á fundi með borgarstjóra töluðu formenn FÍL og FÍLD fyrir bættum kjörum danslistarfólks. Vakin var athygli á að jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar er virt að vettugi í Borgarleikhúsinu þar sem kjör danslistarfólks í Borgarleikhúsinu eru ekki sambærileg kjörum annarra stétta sviðslistafólks í húsinu. Spurningu var varpað fram til borgarstjóra um jafnlaunastefnu borgarinnar og hvort hún eigi ekki við um allar stofnanir borgarinnar ? Borgarstjóri gat ekki svarað f.h. Borgarleikhússins þar sem um sjálfseignastofnun er að ræða sem rekin er af LR en ekki borginni.
Þó alltaf megi gera betur þá ber að þakka þau framfaraskref sem tekin eru. Formaður FÍLD þakkaði borginni fyrir stuðning við Dansverkstæðið á árinu og einnig fyrir að gera Reykjavík dansfestival að einni af sex borgarhátíðum Reykjavíkur næstu þrjú árin. Stuðningur borgarinnar í þeim efnum er þakkarverður og til mikilla bóta fyrir sjálfstætt starfandi danslistarfólk.
FÍLD á vettvangi SSÍ
Nokkrir fundir voru haldnir á árinu hjá Sviðslistarsambandi Íslands og mætti formaður á fundina f.h. FÍLD. Skipað var í Grímunefnd á vordögum fyrir yfirstandandi leikár auk þess sem fundað var um framkvæmd Grímunnar og regluverk hennar. Gríman sjálf fór svo fram í byrjun júní með pompi og prakt og var uppskera danslistarinnar ríkuleg.
Frumvarp til laga um sviðslistir var samþykkt á alþingi þann 17.desember. Starfsemi Íslenska dansflokksins er nú loks bundin í lög, bravó!
Formaður FÍLD ásamt formönnum aðildarfélaga SSÍ sátu samráðsfundi á vegum SSÍ á árinu þar sem frumvarp til laga um sviðslistir var rætt. Frumvarpið fór í gegnum nokkrar breytingatillögur þar til að það var að lokum samþykkt á alþingi í lok árs. Með nýju sviðslistalögunum er kominn sambærilegur lagarammi utan um sviðslistir eins og t.d. til er fyrir bókmenntir, myndlist og tónlist. Helstu nýmæli í lögunum er að í fyrsta sinn er lögfest ákvæði um Íslenska dansflokkinn. Það er mikið fagnaðarefni að ný sviðslistalög nái yfir starfsemi Íslenska dansflokksins og er staða dansflokksins nú betur tryggð til framtíðar en áður. Af lögunum er ljóst að litið er svo á að Íslenski dansflokkurinn sé sjálfstæð listastofnun líkt og Þjóðleikhúsið. Vonandi verða lögin til þess að Íslenski dansflokkurinn fái viðunandi vinnuaðstöðu í náinni framtíð. Vonandi verða nýju lögin til þess að danshús rísi á Íslandi í náinni framtíð en lagarammi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins er áþekkur. Aðstöðumismunur þessara ríkisstofnanna er hinsvegar áberandi mikill.
Barnamenningarhátíð 2019 Árleg hátíðarsýning FÍLD á opnunardegi hátíðarinnar
Félag íslenskra listdansara stóð fyrir hátíðarsýningu í samstarfi við Barnamenningarhátíð þann 9.apríl og var sýningin, líkt og undanfarin ár, liður í opnunardegi hátíðarinnar. Listdansskólum innan FÍLD var boðin þátttaka í sýningunni og var þátttaka skólanna mjög góð en um 250 nemendur tóku þátt í sýningunni. Stjórnendur Barnamenningarhátíðar voru mjög ánægðir með dansviðburðinn í ár sem og undanfarin ár og er óhætt að segja að sýningin sé mikil lyftistöng fyrir skólasamfélag listdansskólanna. Forsvarsmenn Barnamenningarhátíðar hafa óskað eftir áframhaldandi samstarfi við FÍLD vegna komandi hátíðar. FÍLD endurtekur því leikinn, blásið verður til dansveislu á opnunardegi Barnamenningarhátíðar, þann 21.apríl næstkomandi. Stjórnendur listdansskóla eru beðnir um að tilkynna þátttöku skóla á netfangið formadur@dance.is fyrir 25.mars næstkomandi.
Nýstúdent af listdansbraut MH fékk viðurkenningu frá FÍLD fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum
Á vordögum fór fram útskrift frá MH að venju. Á undanförnum árum hafa dansnemar listdansskólanna útskrifast þaðan með stúdentspróf af listdansbraut. Fjölmörg fagfélög veita nýstúdentum bókarverðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur á stúdentsprófi og hefur FÍLD nú veitt slík verðlaun í þrígang, við útskriftir á árunum 2017, 2018 og 2019. Það var Rebekka Sól Þórarinsdóttir nýstúdent af listdansbraut MH sem hlaut viðurkenningu FÍLD síðastliðið vor. Fékk hún ævisögu Helga Tómassonar að gjöf fyrir framúrskarandi námsárangur í listdansgreinum og heillaóskir frá félaginu.
Formleg opnun Dansverkstæðisins fór fram 30.ágúst.
Starfsemi Dansverkstæðisins fór vel af stað í nýja húsnæðinu að Hjarðarhaga 47. Formleg opnun fór fram í lok sumars þar sem fjölmargir heiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar á meðal Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. FÍLD færði Dansverkstæðinu ævisögu Helga Tómassonar og blóm í innflutningsgjöf með heillaóskum frá félaginu. Verkefnastjórar Dansverkstæðisins kynntu metnaðarfulla dagskrá vetrarins, boðið var upp á léttar veitingar og í boði var dagskrá með ýmsum dansuppákomum. Opnunarhátíðin heppnaðist mjög vel og er ánægjulegt að sjá starfsemi Dansverkstæðisins blómstra í nýju húsakynnunum.
Framhaldsskólastig í listdansi
Á árinu vann undirrituð að nýjum brautar- og áfangalýsingum fyrir Listdansbraut MH en uppfæra þurfti eldri námslýsingar úr aðalnámsskrá til samræmis við gildandi viðmið hjá Menntamálastofnun fyrir nám á framhaldsskólastigi.
Nýjar brautar- og áfangalýsingar voru unnar fyrir menntamálaráðuneytið og MH í samstarfi við skólastjórnendur listdansskólanna og er almenn ánægja meðal skólastjórnenda hvernig til hefur tekist. Búið er að endurskoða námið og aðlaga það betur að þörfum listdansnema. Nýju náms- og brautarlýsingarnar eru nú í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun en stefnt er að því að hefja kennslu samkvæmt þeim haustið 2020 ef samningar nást við ríkið um kennsluna.
Hvernig samið verðu við listdansskólanna á vordögum 2020 er óljóst að svo stöddu en samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál þarf öll aðkeypt þjónusta ríkisins að fara í opinbert útboð og fellur starfsemi listdansskólanna undir þau lög. Listdansskóli Íslands, Danslistarskóli JSB og Klassíski Listdansskólinn hafa lýst yfir áhuga á að bjóða í námið sameiginlega og hafa listdansskólarnir lagt fram tillögur til ráðuneytisins þess efnis. Tillögurnar eru nú til skoðunar hjá menntamálaráðuneytinu og vonum við að ráðherra taki tillögunum vel. Farið er fram á aukið fjárframlag með náminu en hvernig útboði á listdansnámi verður nákvæmlega háttað veit enginn.
Eins og fram hefur komið þá hefur FÍLD gagnrýnt lagaumhverfi listdansnámsins harðlega en formaður skrifaði m.a. grein í Morgunblaðið á haustmánuðum sem varpar ljósi á það misrétti sem listgreinin býr við er kemur að styrkveitingum með náminu frá ríki og borg. Hvernig ráðherra mun bregðast við öllum ábendingunum frá FÍLD verður bara að koma í ljós. Við vonum að hún taki ábendingum okkar vel og leggi sitt af mörkum til að bæta stöðu listdansnámsins í menntakerfinu.
Undankeppni Dance World Cup fór fram á Íslandi í fyrsta sinn þann 30.mars á Stóra sviði Borgarleikhússins
Einn af stærstu dansviðburðum dansnema á árinu var undankeppni Dance World Cup. Þátttakan í keppninni fór fram úr björtustu vonum og var magnað að fylgjast með fjölda dansnema frá dansskólum víðsvegar að af landinu spreyta sig í fjölbreyttum keppnisflokkum keppninnar. Stjórn FÍLD lagði sitt að mörkum og hjálpaði til við undirbúning og skipulag keppninnar en umboðsaðili og aðalskipuleggjandi keppninnar á Íslandi, Chantelle Carey, óskaði eftir aðstoð frá stjórn FÍLD. Keppnin tókst í alla staði vel. Fjöldi íslenskra dansnema náði að vinna sér inn þátttökurétt í aðalkeppninni en ríflega 150 keppendur frá Íslandi tóku þátt í aðalkeppni DWC sem fram fór í Braga í Portúgal síðastliðið sumar. Skemmst er frá að segja að íslensku keppendurnir voru landi og þjóð til sóma og komu reynslunni ríkari heim. Undankeppni DWC í ár fer fram þann 9.febrúar næstkomandi á Stóra sviði Borgarleikhússins og verður gaman að fylgjast með afrekum nemenda á sviðinu í ár. Hlökkum til!
SÓLÓ undankeppni Stora Daldansen
fór fram á Nýja sviði Borgarleikhúsins sunnudaginn 20.október
FÍLD hefur á undanförnum árum staðið fyrir SÓLÓ undankeppni í klassískum listdansi fyrir aðalkeppnina Stora Daldansen. Undankeppnin er mikil lyftistöng fyrir klassíska listdansinn hérlendis og er hún mikilvægur vettvangur fyrir íslenska listdansnema til þess að spreyta sig á krefjandi sólóhlutverkum klassískra ballettverka. Þátttökurétt í undankeppnina hafa 16 ára og eldri listdansnemar í listdansskólum innan Félags íslenskra listdansara. Alls tóku 14 nemendur þátt í keppninni í ár og var almenn ánægja með hvernig til tókst. Mjög gaman var fyrir nemendur að fá tækifæri til að spreyta sig á Nýja sviði Borgarleikhússins og var umgjörð keppninnar til fyrirmyndar. Þær Ásdís Karen Árnadóttir úr Klassíska Listdansskólanum og Bergþóra Sigurðardóttir og Dagný Björk Harðardóttir úr Listdansskóla Íslands urðu hlutskarpastar í keppninni í ár og munu þær keppa fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni sem haldin verður í Falun í Svíþjóð dagana 1.-4.apríl næstkomandi.
Mikil gróska og frábært dansár að baki
Það er heilmikil gróska og gerjun í gangi í íslensku danssamfélagi og má segja að danslistin teygi anga sína í allar áttir þessa dagana. Þrátt fyrir fjárskort og brothætt starfsumhverfi listdansskólanna er skólasamfélag listdansins sterkt og íslenskir dansnemar hafa mun fleiri tækifæri nú en áður.
Íslenski dansflokkurinn átti frábært ár og er að slá í gegn erlendis en starfsemi flokksins teygir sig langt útfyrir landssteinana. Starfsumhverfi sjálfstætt starfandi dansara á Íslandi er frekar erfitt en þó hefur aðstaðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstæðisins. Boðið er upp á morguntíma á hagstæðu verði og frábæra starfsaðstöðu en styrkveitingar til danslistarfólks úr verkefnasjóðum og starfslaunasjóðum sviðslista eru alltof takmarkaðar, því þarf að breyta. Höldum áfram að skapa okkar dansumhverfi og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Það er enginn sem skapar danslistinni farveg í landinu nema við sjálf. Nýtt ár felur í sér nýjar áskoranir, tökum fagnandi á móti 2020!
Að lokum,
FÍLD opnaði nýja heimasíðu á árinu og er slóðin www.felagislenskralistdansara.com . Ólöf Ingólfsdóttir hannaði síðuna fyrir FÍLD og er heimasíðan mjög vel heppnuð. Umsjónarmaður síðunnar er Sandra Ómarsdóttir. Ég vil hvetja ykkur öll til að senda mynd af ykkur á netfangið dance@dance.is vegna uppfærslu á félagatali. Allir félagsmenn eru tilgreindir í félagatali á heimasíðunni. Athugið að ef smellt er á nöfn félagsmanna opnast gluggi með mynd af viðkomandi og tengslaupplýsingum þ.e. hjá þeim sem sent hafa inn portrait mynd af sér og tengslaupplýsingar. Fréttasíðan á vefnum okkar er heldur fátækleg og vil ég hvetja félagsmenn til að nýta sér vefinn með því að senda fréttatilkynningar af dansviðburðum eða öðru fréttnæmu á netfangið dance@dance.is . FÍLD er einnig með facebooksíðu og deilir þar danstengdu efni.
Dags. 20.01 2020
f.h. stjórnar
Irma Gunnarsdóttir formaður FÍLDæsins﷽﷽﷽﷽﷽taðan lagast til muna með tilkomu Dansverkstlegt er að knar eru af borginniiðruðu samkomuna með nærveru sinni, þar