Samráðsfundur 30. ágúst – Minnisblað
BÍL fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar á uppbyggingu innviða samfélagsins m.a. í þágu kraftmikils atvinnulífs um land allt, en vekur jafnframt athygli á því að orðið „listir“ kemur einungis einu sinn fyrir í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, í langri upptalningu í kaflanum um menntamál. Augljós er áherslan á það sem kallað er „skapandi greinar“, en þegar rýnt er í textann virðist sú áhersla og áhersla á nýsköpun einungis eiga við tækni- og hugbúnaðargreinar (farskipta-, tölvu-, upplýsinga- og þjónustufyrirtæki), sem framleiða eitthvað sem getur orðið andlag vörusölu eða þjónustu og þannig orðið til að bæta samkeppnishæfni Íslands. Listirnar lúta öðrum lögmálum og virðast því ekki tilheyra menginu „skapandi greinar“. En í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta hefur stjórn BÍL nú óskað eftir fundi með ráðherra skapandi greina og ritar minnisblað þetta í aðdraganda fundarins.
Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti
Eins og málum er fyrir komið í stjórnarráðinu nú þá heyra málefni lista og menningar undir fjögur ráðuneyti auk fjármálaráðuneytis. Undir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar heyra almenn starfsskilyrði og stuðningsumhverfi atvinnulífsins, þ.á.m. stuðningur ríkisins við rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun í atvinnugreinunum, málefni hönnunar og handiðnaðar, hugverkaréttindi og tilteknir þættir tónlistar og kvikmyndagerðar, auk skapandi greina í þágu atvinnuþróunar. Undir sveitarstjórnarráðherra heyrir fjármögnun verkefna á vettvangi lista og menningar utan höfuðborgarinnar og uppbygging starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sóknaráætlanir landshlutanna. Undir utanríkisráðherra heyrir kynning á íslenskri list og menningu erlendis og menningarsamstarf sendiráða Íslands. Annað tengt listunum, sem er auðvitað stærsti hlutinn, heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra, sem jafnframt er ráðherra norrænnar samvinnu þ.m.t. menningarsamstarfs Norðurlandanna. Það er mat stjórnar BÍL að jafn viðkvæmur málaflokkur og listirnar þoli illa svo dreifða stjórnsýslu enda nánast ógerningur að koma á virku samtali milli ólíkra ráðuneyta um hagsmuni listgreinanna. BÍL telur nauðsynlegt að skoða kosti þess að stofna sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar, sambærilegt þeim sem við þekkjum á hinum Norðurlöndunum, slík ráðstöfun sé til þess fallin að styrkja stjórnsýslu lista og skapandi greina og um leið efla málaflokkinn í heild.
Menningarstefna
Alþingi samþykkti fyrstu opinberu menningarstefnuna í mars 2013. BÍL hefur lýst stuðningi við stefnuna, en stjórnvöldum hefur ekki lánast að semja aðgerðaáætlun á grundvelli hennar, svo erfiðlega hefur gengið að innleiða hana. Ekki tókst síðustu ríkisstjórn að blása til þeirrar sóknar í listum og skapandi greinum, sem þó var áformuð skv. stjórnarsáttmála hennar. Í febrúar 2015 kynnti BÍL stjórnvöldum tillögu sína að sóknaráætlun, sem hlaut því miður ekki hljómgrunn. BÍL hefur ýmislegt fram að færa til að tryggja framgang áformanna sem tíunduð eru í menningarstefnunni, t.d. reynsluna af stefnumótunarvinnu hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur, og vill gjarnan taka þátt í slíkri vinnu með stjórnvöldum.
Menningarstefnan geymir m.a. ákvæði um bætt starfsumhverfi sjálfstætt starfandi listamanna á sviði skattamála, almannatrygginga og sjúkratrygginga, en ekkert hefur hreyfst í þeim efnum þau rúm fjögur ár sem liðin eru frá samþykkt hennar. Ekki hefur heldur náðst árangur í áformum um listrannsóknir, sem sést best á því að í nýútgefinni stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017 – 2019 eru listir einungis nefndar einu sinni á nafn og það í inngangi stefnunnar. Þá má nefna að Listaháskóli Íslands hefur enn ekki hlotið skilning stjórnvalda á þörfinni fyrir aukin framlög til listrannsókna. Allt þetta skiptir máli þegar stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þróun er til umfjöllunar.
Fjármálaáætlun 2018 – 2022
Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018 – 2022 eru uppi áform um eflingu málaflokksins listir og menning, en upphæðirnar sem ætlaðar eru til þess uppbyggingarstarfs eru ekki í neinu samræmi við fjárþörf stofnana og annarra sem bera uppi starfið í geiranum. Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir eflingu nýsköpunar og rannsóknarstarfs undir hatti Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar. BÍL tekur heilshugar undir áformin, en lýsir yfir áhyggjum af því hversu óraunsæ þau virðast út frá fjárhagslegu sjónarmiði, a.m.k. þau sem tíunduð eru undir yfirskriftinni „listir og menning“. BÍL lýsir yfir áhuga á að taka þátt í vinnu við að semja aðgerðaáætlun í málefnum lista og menningar á grunni þess vilja ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjármálaáætlun og hefur þeim vilja verið komið á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra, en líklegt er að atbeina fleiri ráðherra þurfi til að slík vinna skili tilætluðum árangri.
Tölfræði lista og skapandi greina
Nú eru bráðum sjö ár síðan stjórnvöld birtu skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina (des. 2010). Talsvert vantaði uppá að sú skýrsla veitti fullnægjandi upplýsingar og þá strax voru gefin fyrirheit um áframhaldandi þróun slíkrar kortlagningar, sem því miður hafa ekki gengið eftir. Engu að síður settu stjórnvöld í framhaldinu á laggirnar starfshóp sem fékk það verkefni að greina stöðu lista og skapandi greina og koma með tillögur um aðgerðir sem hægt væri að byggja á framtíðasýn fyrir greinarnar. Hópurinn skilaði skýrslunni „Skapandi greinar – Sýn til framtíðar“ í september 2012, þar sem meðal annars voru tillögur um skilgreiningar og skráningu talnaefnis um greinarnar, en engar af tillögum starfshópsins hvað þetta varðar hafa náð fram að ganga. Þó gekkst mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrir ráðstefnu um menningartölfræði haustið 2015, Menningarlandið 2015, þar sem unnið var með tillögur að skráningu talnaefnis um greinarnar en skýrsla ráðstefnunnar hefur aldrei verið birt með formlegum hætti og ekkert gert með niðurstöður vinnunnar.
Samstarfsráðherrar Norðurlandanna samþykktu 2014 að sameina krafta sína við að safna upplýsingum um tölfræði norrænna menningarmála. Sænskri stofnun Myndigheden for kulturanalys var falið verkefnið, en þrátt fyrir eftirgrennslan hefur BÍL ekki tekist að fá upplýsingar um hvar það starf er á vegi statt, en ljóst er að Ísland er mikill eftirbátur nágrannalandanna í skráningu menningartölfræði. Það sýna nýlegar skýrslur (norsk og sænsk) um störf listamanna og starfsskilyrði.
Endurgreiðslur framleiðslukostnaðar
Nú er komin nokkur reynsla á lögin um tímabundnar endurgreiðslur hluta framleiðslukostnaðar vegna kvikmyndagerðar og á þeirri reynslu m.a. byggja sambærileg lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar. BÍL hefur stutt framgang beggja lagasetninganna, en bendir jafnframt á þá þróun sem er að verða í nágrannalöndum okkar þar sem hlutfall endurgreiðslu hefur farið hækkandi á undanförnum árum. Það er mat BÍL að mikilvægt sé að gera rannsókn á því hvernig þessi lög nýtast innlendri framleiðslu og hver skiptingin er milli innlendra og erlendra verkefna, einnig hver skiptingin er milli ólíkra tegunda efnis. Slík greining gæti verið undanfari endurskoðunar laganna hvað varðar hækkað endurgreiðsluhlutfall.
Störf listamanna utan höfuðborgar
BÍL hefur reynt að vekja athygli stjórnvalda á því hversu misráðið það var að sameina menningarsamninga ríkisins og landshlutasamtaka sveitarfélaga vaxtasamningum, eins og gert var 2015. Við þessa ráðstöfun voru störf menningarfulltrúa landshlutasamtakanna lögð niður og úthlutun fjármuna til menningartengdra verkefna var drepið á dreif. Í skýrslu starfshóps byggðastofnunar um sóknaráætlanirnar frá 2015 kemur fram að skráningu verkefna og tölfræði sá ábótavant, t.d. sé líklegt að fjöldi verkefna, bæði umsókna og styrkja, sem flokkast sem „menningarstarfsemi“ séu í raun ferðaþjónustuverkefni. Þetta telur BÍL öfugþróun og telur að endurvekja beri menningarsamningana og skipa á ný í störf menningarfulltrúa á landsbyggðinni, slíkt sé forsenda þess að hið fjölbreytta atvinnulíf, sem ríkisstjórnin stefnir að um land allt, verði að veruleika.