Bandalag íslenskra listamanna tekur þátt í FUNDI FÓLKSINS 2. og 3. september 2016 með því að efna til fjögurra sjálfstæðra funda um málefni sem eru ofarlega á baugi í list- og hönnunargeiranum um þessar mundir, en að auki hefur BÍL aðkomu að fundum um málefni höfundarréttar sem samtök höfundarrétthafa gangast fyrir. Hér verður gerð nánari grein fyrir þessum fundum:
Föstudagur kl. 12:00
Kasettugjaldið – Framtíð höfundaréttar
Hvar: Salurinn (streymt verður frá fundinum)
Umsjón: STEF, SFH, RSÍ, SÍK, MYNDSTEF og FJÖLÍS
Þátttakendur: Fulltrúar allra þingflokka á Alþingi; Björt Ólafsdóttir fyrir Bjarta framtíð, Katrín Jakobsdóttir fyrir VG, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fyrir Samfylkingu, Vilhjálmur Bjarnason fyrir Sjálfstæðisflokk, Guðrún Ásta Helgadóttir fyrir Pírata og Líneik Anna Sævarsdóttir fyrir Framsóknarflokk.
Fyrir hönd Stefs: Jakob Frímann Magnússon formaður STEFs, Helga Sigrún Harðardóttir framkvæmdastjóri Fjölís, Ragnar Th. Sigurðsson formaður Myndstefs, Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjór RSÍ og Tómas Þorvaldsson lögmaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK
Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL
Lýsing: Verulegar breytingar í tækniumhverfi og aukið aðgengi að höfundaréttarvörðu efni hafa kallað á umræður um hvernig höfundarétturinn verður varinn í þessu nýja umhverfi. Í því sambandi hefur t.d. ekki verið breytt ákvæðum höfundalaga um eintakgerð til einkanota þrátt fyrir að eintakagerð eigi sér nú aðallega stað í snjallsímum og spjaldtölvum. Viðstöddum gefst kostur á að koma að spurningum til bæði stjórnmálamanna og annarra þátttakenda í pallborðsumræðum.
Föstudagur kl. 13:00
Listamenn eru líka „aðilar vinnumarkaðarins“
Hvar: Alvar Aalto herbergið
Umsjón: BÍL – Bandalag íslensra listamanna
Þátttakendur: Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins, Hörður Vilberg frá Samtökum atvinnulífsins, Ragnhildur Zoëga frá Rannís, Berglind Hallgrímsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Þórunn Sveinbjarnardóttir frá Bandalagi háskólamanna
Lýsing: Störfum í list- og menningargeiranum fjölgar hraðar en störfum í öðrum geirum atvinnulífsins. Sex milljónir Evrópubúa starfa við skapandi greinar eða tæp 3% vinnuaflsins. Listamenn og hönnuðir sinna 30% starfa innan menningargeirans og stór hluti afleiddra starfa byggir á verkum þeirra. En hvar standa listamenn í vinnumarkaðslegu tilliti? Eru þeir þátttakendur í samtali stjórnvalda og „aðila vinnumarkaðarins“ um kaup og kjör í landinu? Og er horft til þeirra í tengslum við rannsóknir, nýsköpun og frumkvöðlastarf?
Föstudagur kl. 14:00
Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkanna?
Hvar: Alvar Aalto herbergið
Umsjón: BÍL – Bandalag íslenskra listamanna
Þátttakendur: Fulltrúar flestra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis 2016
Fundarstjóri: Halla Margrét Jóhannesdóttir leikari og rithöfundur
Lýsing: Alþingi samþykkti menningarstefnu í fyrsta sinn 7. mars 2013. Flest sveitarfélög setja sér menningarstefnu og hefur Reykjavík rutt brautina þar sem borgaryfirvöld samþykktu fyrstu formlegu menningarstefnuna 2001. Landshlutasamtök sveitarfélaga gera samning við ríkið um framlög til menningarmála á grundvelli menningarstefnu. En hvernig er háttað stefnumótun stjórnmálaflokkanna í menningarmálum? Hafa stjórnmálaflokkarnir, sem bjóða fram krafta sína og hugmyndir til að stjórna ríki og sveitarfélögum, sett sér menningarstefnu?
Laugardagur kl. 13:00
Sýnileiki lista í fjölmiðlum
Hvar: Umræðutjald I
Umsjón: SÍM f.h. BÍL
Þátttakendur: Fulltrúar fjölmiðlanna og
Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarmaður, gagnrýnandi og aðjúnkt við HÍ
Ásgerður Gunnarsdóttir frá Danshöfundafélagi Íslands
Aðalheiður Atladóttir formaður Arkitektafélags Íslands
Helga Óskarsdóttir, myndlistarkona og ritstjóri Artzine
Fundarstjóri: Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður SÍM
Lýsing: Listir og fjölmiðlar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað varðar umfjöllun um listir og menningu. Þó einkennist menningarumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum örðu fremur af þörf menningarstofnana og listamanna til að auglýsa list- og menningartengda viðburði, en síður af metnaði fjölmiðlanna til að bjóða upp á faglega umfjöllun um mál tengd listum og menningu almennt. Jafnt innan listageirans sem fjölmiðlageirans býr löngun til að auka og dýpka faglega umræðu um listir og menningu. Hvernig geta listamenn og fjölmiðlamenn tekið höndum saman í baráttunni fyrir dýpri umfjöllun og auknum sýnileika lista í fjölmiðlum.
Laugardagur kl. 14:00
Lifað af listinni
Hvar: Salur
Umsjón: STEF, SFH, RSÍ, SÍK, MYNDSTEF og FJÖLÍS
Þátttakendur: Gunnar Helgason, Felix Bergsson ásamt fulltrúum mismunandi listgreina, m.a. Sigtryggi Baldurssyni tónhöfundi, flytjanda og framkvæmdastjóra ÚTÓN, Kristni Þórðarsyni kvikmyndaframleiðanda og formanni SÍK, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi og formanni RSÍ og Ólöfu Norðdal myndlistarmanni
Fundarstjóri: Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs
Lýsing: Gunnar og Felix sýna beitta og skemmtilega leikþætti um líf listamannsins. Þeir munu einnig bregða sér í hlutverk spyrla og spyrja fulltrúa mismunandi listgreina um hvernig þeir lifi af listinni og hver séu þeirra forgangsmál þegar kemur að höfundarétti. Þarna gefst öllum sem áhuga hafa á að fá innsýn inn í líf rithöfundarins, kvikmyndagerðarmannsins og tónhöfundarins og ljósmyndarans og hvernig höfundarétturinn hefur áhrif á störf þeirra.
Laugardagur kl. 15:00
Samspil lista og ferðaþjónustu
Hvar: Umræðutjald I
Umsjón: AÍ, FÍL og DFÍ f.h. BÍL
Þátttakendur: Karen María Jónsdóttir upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík
Hannes Pálsson frá Pink Iceland
Kari Viðar frá Frystiklefanum Rifi
Kristinn Vilbergsson forstjóri Kex Hostel
Fundarstjóri: Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar
Lýsing: Ísland verður sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna enda hefur gríðarlegur kraftur verið settur í markaðssetningu landsins sem ferðamannalands. En hvað er það í raun sem dregur ferðafólk til landsins annað en óspillt og spennandi íslensk náttúra? Kannanir sýna að þar spila saga og menning þjóðarinnar mikilvægt hlutverk. Kveikjan að Íslandsferðinni kemur oftar en ekki til af því að fólk sér íslenska kvikmynd, les íslenskar bókmenntir eða dáist að íslenskri tónlist. En hvernig stöndum við okkur í því að sýna erlendum gestum okkar það sem hæst ber í listum og menningu þegar hingað er komið?