Þann 1. maí birtist í Fréttablaðinu niðurstaða könnunar á því hvaða framkvæmdum fólk vildi helst fresta í Reykjavík til að hamla gegn ofþenslu í efnahagskerfinu. Flestir nefndu Tónlistarhús, næstflestir Sundabraut, en fæstir Háskólasjúkrahús. Nýkjörinn formaður sá ástæðu til að leggja orð í belg, í grein sem birtist í Fréttablaðinu 4. maí. Hér má lesa hana í örlítið betrumbættri mynd.

 

Tónlistarhús: lausn efnahagsvandans?

Í síðustu viku birti Fréttablaðið niðurstöður könnunar á því hvaða framkvæmdum fólk vildi skjóta á frest í ljósi þenslu í þjóðarbúinu. Niðurstaðan varð sú að fólk taldi sig helst geta verið án Tónlistarhúss. Sundabrautin naut meiri vinsælda, þótt furðulegt megi teljast.

Í skoðanakönnuninni virðast þessar tvær stórframkvæmdir lagðar að jöfnu. Það gengur reyndar ekki alveg upp. Fjögurra akreina Sundabraut kostar 30 milljarða – og er þá ekki gert ráð fyrir jarðgöngum neins staðar, sem væntanlega mundu hækka kostaðinn enn, ef út í þau yrði farið. Tónlistarhúsið kostar “einungis” rúma 12 milljarða. Það er því vafamál hvort unnt sé að afstýra yfirvofandi efnahagsöngþveiti með því einu að slá Tónlistarhúsi á frest. Framkvæmdin er varla nógu stór til að breyta miklu um þensluna í þjóðarbúinu. Það væri eins og að setja puttaplástur á gapandi holund.

Líklega var hér einungis spurt um stórframkvæmdir í Reykjavík. Álver fyrir norðan og á Suðurnesjum virtust ekki koma til álita, né heldur vatnsvirkjanir. Eigi að minnka umsvifin, væri nær að taka fyrir framkvæmdir sem eru stórar í alvörunni. Auk þess munu Íslendingar brjóta undirritaða sáttmála um mengunarvarnir, ef báðar álbræðslurnar fá að rísa – og er þar komin enn ein ástæðan til að staldra við á þeim vetvangi.

En hvað veldur því að fólk telur svo sjálfsagt að geyma Tónlistarhúsið? Þykir þetta bara bruðl og óráðsía? Er verið að púkka undir sérstaka áhugamenn um tónlist? Út frá ákveðnum, þröngum sjónarhóli má ef til vill túlka það sem svo. En áhugamenn um tónlist eru ekki einhver minnihlutahópur í samfélaginu. Þeir sem njóta tónlistar dag hvern eru nánast hvert einasta mannsbarn með heyrn í landinu. Það er ekki verið að reisa hús utan um einhverja elítu. Þarna verður flutt tónlist af öllu tagi.

Á árum áður var reist hér höll fyrir handboltann í landinu. Ástæðan var sú að Íslendingar náðu nokkuð langt eitt árið á heimsmeistaramóti í greininni. Varla var húsið komið upp þegar áhugi á íþróttinni fór að dala, og því fór svo að handboltahöllin nýttist í flest annað en handbolta. Raunar má segja að tónlistin hafi fundið þessu dýra húsi nýtt hlutverk. Þó að hljómburður sé afleitur og enn verra að sjá upp á sviðið, hafa tónleikahaldarar nýtt sér húsið í hverjum stórviðburðinum á fætur öðrum. Síðustu árin hafa þeir einnig leitað í annað íþróttahús, Egilshöll, sem líka er reist fyrir íþróttamenn, án tillits til hljómburðar eða ágætis sviðsins.

Þeir sem halda að tónlist skili engu í þjóðarbúið ættu að hugsa sig um tvisvar. Mér fróðari menn tala um margfeldisáhrif og segja að samfélagið allt njóti góðs af. Til viðbótar við tónleikahaldið rís þarna langþráð aðstaða fyrir stórar alþjóðlegar ráðstefnur – og allir sem að ferðamálum koma vita að slíkar stórframkvæmdir færa björg í bú.

Rétt eins og handboltamennirnir hér um árið hafa íslenskir tónlistarmenn unnið margvísleg afrek utanlands og innan. Það er því löngu kominn tími til að sérhanna hús í kringum tónlistina í stað þess að flytja hana í skálum sem reistir eru í gjörólíku augnamiði. Og framkvæmdin í heild á eftir að færa þjóðinni tekjur. Það er fleira iðja en stóriðja.

 

Ágúst Guðmundsson Forseti Bandalags íslenskar listamanna