Stjórn BÍL hitti nýja stjórnendur Ríkisútvarpsins á fundi í Iðnó í dag þar sem skipst var á skoðunum um það mikilvæga menningarhlutverk sem hvílir á Ríkisútvarpinu ohf – fjölmiðli í almannaþágu. Til fundarins kom nýráðinn útvarpsstjóri Magnús Greir Þórðarson, ásamt skrifstofustjóra RÚV Margréti Magnúsdóttur og dagskrárstjórum Rásar 1 og sjónvarps, þeim Þresti Helgasyni og Skarphéðni Guðmundssyni. Á fundinum fóru fram málefnanleg skoðanaskipti um það sameiginlega hagsmunamál listafólks og stjórnenda Ríkisútvarpsins að þannig sé búið að Ríkisútvarpinu að það fái staðið undir þessu mikilvæga og margslungna menningarhlutverki af myndugleik og voru sjónarmið skýrð á báða bóga. Sammæltust fundarmenn um að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi samtal þessara aðila í þágu menningararfsins, tungunnar, sögunnar, listarinnar og lífsins í landinu.