Í aðdraganda kosninga hefur stjórn BÍL fundað með stærstu stjórnmálaflokkunum um málefni lista og menningar. Á þeim fundum hafa farið fram gagnleg skoðanaskipti um áherslurnar sem flokkarnir hafa lagt í málaflokknum og þau mál sem BÍL hefur barist fyrir á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka. Áherslumál BÍL í þessu samtali samtali hafa verið eftirfarandi:

  • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
  • Listamannalaun – þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna, úr 1600 í 2000 og hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. 2017. Einnig að gera áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóð og sviðslistasjóð.
  • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
  • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013, með tímasettum markmiðum.
  • Listaháskóli Íslands – áríðandi að fullfjármagna starfsemi skólans og ákveða hvar byggja á skólann upp til frambúðar.
  • Rannsóknir í listum – viðurkenna þarf hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
  • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
  • Starfsumhverfi listamanna – lagaskylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja höfundum til frambúðar sanngjarna þóknun vegna eintakagerðar til einkanota. Einnig þarf að finna leiðir til lækka skattprósentu á greiðslum til rétthafa, að hún fylgi skattprósentu fjármagns- og leigutekna.
  • Öflugri menningarstofnanir og söfn – með áherslu á að söfn og sýningarsalir sem njóta opinbers stuðnings greiði myndlistarmönnum með sama hætti og í nágrannalöndunum.
  • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála (heyra nú undir landbúnaðarráðuneytið), tryggja faglega úthlutun fjármuna á grundvelli samninganna og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.