Fréttablaðið birti í morgun þessa grein eftir Guðmund Andra Thorsson:

Ríkisútvarpið er í tröllahöndum. Því er stjórnað af mönnum sem telja þátt með risastæðum af peningum sem fólk tilbiður og tapar smám saman eiga meira erindi við þjóðina en gjörvalla dagskrá rásar eitt. Því er stjórnað af mönnum sem hlusta ekki á útvarp, vita ekkert um útvarp, hafa aldrei unnið við útvarp – er í nöp við útvarp; tóku að minnsta kosti orðið „útvarp“ úr nafni stofnunarinnar til að þurfa ekki að heyra eða sjá þetta voðalega orð sem er næstum jafn ljótt og hitt orðið: „Ríkis-“. Því er stjórnað af mönnum sem fá svo margar milljónir í kaup sjálfir að þeim finnast fimm milljónir vera smáaurar sem ekkert munar um „í stóra samhenginu“. Fyrri forsendan að atlögunni er sú að Íslendingar séu svo fátæk þjóð að þeir hafi ekki efni á menningarstarfsemi. Hún er röng. Önnur forsendan er sú að Ríkisútvarpið fá svo litla peninga að það hafi ekki efni á að rækja lögboðið menningarhlutverk sitt. Hún er líka röng.

Þó að atlagan að rás eitt hafi virst illa undirbúin og verði lengi í minnum höfð fyrir vonda útfærslu þá hefur hún lengi staðið fyrir dyrum; kannski frá fyrstu dögum Páls Magnússonar í starfi. Það fór furðu lágt, en í tíð síðustu stjórnar Ríkisútvarpsins kom til mikilla átaka milli hennar og útvarpsstjóra vegna áforma hans um stórfelldan niðurskurð á rás eitt. Þau áform voru stöðvuð af þáverandi stjórn – að sinni – en umsvifalaust tekin fram á ný þegar kominn var til valda stjórnarmeirihluti sem deilir þeim skoðunum Páls Magnússonar að í niðurskurði þurfi fyrst og fremst að hlífa yfirstjórn Ríkisútvarpsins og skrifstofu útvarpsstjóra en minni þörf sé á dagskrárgerðarfólki.

Sprengju varpað
Í síðustu viku var sprengju varpað á Ríkisútvarpið. Hending virtist ráða hvar hún lenti nákvæmlega og hverjir urðu fyrir henni. Þú ert rekinn – ekki þú; snáfaðu burt undireins – þú mátt vera ögn lengur; farðu – vertu. Fólk var rekið með skít og skömm eftir jafnvel áratuga starf sinnt af trúmennsku. Skilið var við stofnunina í rjúkandi rúst. Síðan hafa dagarnir liðið með neyðarráðstöfunum og skyndireddingum: þulir horfnir og í snarhasti ráðnir nýir til að fylla upp í skarðið, þótt góðir þulir sitji heima á biðlaunum, burtreknir.

Hvernig skyldi fara með jólakveðjurnar ástsælu? Ætli þær verði spilaðar frá því í fyrra? Eða kannski að útvarpsstjórinn lesi þær sjálfur – fyrir sanngjarna þóknun?

Ríkisútvarpið býr við fjandsamlegan ríkisstjórnarmeirihluta sem telur nokkuð skorta á auðsveipni starfsfólks stofnunarinnar gagnvart sér og finnst ástæða til að refsa henni með því að skerða lögbundna tekjustofna. Í stað þess að berjast gegn þessum áformum eða bíða þess sem kæmi út úr vinnu við fjárlög neytti útvarpsstjóri færis við að losa sig við öfl innan stofnunarinnar sem honum voru ekki að skapi, og lama Rás eitt til langframa.

Hlutverk ríkisútvarpsins
Hann segir að það þurfi að spara. Sjálfur hefur hann fengið um eina og hálfa milljón króna í mánaðarlaun en þótti sú upphæð ekki endurspegla sitt mikla framlag og óeigingjarna starf og sótti með harðfylgi „leiðréttingu“ upp á tæpar fimm milljónir, sem hann segir ekki skipta máli „í stóra samhenginu“; en skiptir eflaust máli fyrir hann persónulega í forstjóramannjöfnuðinum á bökkum laxveiðiánna. Á milli áranna 2012 til 2013 jukust heildarlaun og þóknanir til æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins úr 57,8 milljónum í 74,6 milljónir. Samkvæmt ársreikningi 2012 fóru rúmlega 260 milljónir í yfirstjórn Ríkisútvarpsins, skrifstofu útvarpsstjóra, stjórn stofnunarinnar og fjármálaskrifstofu. Enginn niðurskurður er áformaður á þeim vettvangi.

Til hvers er Ríkisútvarpið? Því er fljótsvarað: til að búa til útvarp. Það er spegill og vettvangur þjóðlífsins. Það er rannsóknarstofnun og háskóli. Það er skemmtun og ferðalag. Það er við. Það er samsett úr ótal röddum, þar heyrist í fiskvinnslufólki og lögfræðingum, þungarokkurum, kokkum og vísindamönnum, grínistum, garðyrkjumönnum og langferðabílstjórum. Það er tólftónatónlist og harmonikka og teknó. Það er heilbrigðisstofnun og gömlu fólki ómetanlegur félagsskapur. Það er þekkingarstöð, listræn starfsemi, flipp og dánarfregnir og jarðarfarir. Það er veðurskipið Metró og hæð yfir Grænlandi, passíusálmalestur og niður aldanna. Það er hefð og saga. Það er nærvera í lífi okkar, hljóðtjöldin kringum atburði dagsins. Þar er stjórnmálamönnum sýnt tilhlýðilegt tillitsleysi. Þar eru svipmyndir af menningarstarfsemi þjóðar, sögu þjóðar, sögu einstaklinga, sögu hugmynda, þar eru fundir og mannfagnaður, þar er músík sem okkur hafði ekki einu sinni dreymt um að væri til. Þar eru fréttir dagsins og tilkynningar þegar mikið liggur við; þar eru íþróttaviðburðir og sinfóníutónleikar. Þar segir fólk frá hugðarefnum sínum og deilir með okkur sérþekkingu sinni þannig að við skiljum. Þar streymir fróðleikur og þekking. Þar er samfella í samveru þjóðar. Þar er súrefnið í andlegu lífi okkar.

Ríkisútvarpið er vettvangur skoðanaskipta í samfélaginu. Enginn á það annar en við, ég og þú – ekki stjórnmálaflokkarnir hversu sem þeir reyna og ekki einu sinni milljónafélagið á fimmtu hæð útvarpshússins. Starfsfólkið hefur engum svarið trúnaðareiða öðrum en hlustendum, sjálfum eigendum ríkisútvarpsins, þjóðinni, okkur.

Þegar Páll Magnússon fékk að vita að nú þyrftu stórfelldar uppsagnir að eiga sér stað hefði hann fyrst af öllu átt að afsala sér að minnsta kosti helmingi launa sinna í stað þess að fá „leiðréttingu“ upp á fimm milljónir. Svo hefði hann átt að svipast um á hæðinni sinni, 260 milljóna hæðinni sinni, og hugleiða hvort þar mætti ekki fækka silkihúfum í stað þess að ráðast að því fólki sem raunverulega framleiðir efni og sinnir þannig raunverulegum skyldum þessarar stofnunar sem við eigum – ekki hann.