29. apríl síðastliðinn fór fram hinn árlegi samráðsfundur BÍL með borgarstjóranum í Reykjavík og Menningar- og ferðamálaráði. Fundurinn var, sem fyrr, haldinn í Höfða.

Megináhersla BÍL var annars vegar á danshúsi og hins vegar á kvikmyndaborginni Reykjavík.

Í upphafi tók forseti BÍL tvennt fram sem ekki var að finna á framlagðri málefnaskrá: 1) Framlög til listalífs í Reykjavík eru of lág, en vel er farið með það fé sem þó fæst. 2) Allir umræðupunktarnir sem lagðir voru fram eru atvinnuskapandi, enda eru meðlimir BÍL atvinnufólk, hvert í sinni grein.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður ráðsins, hafði góð orð um að athuga hvort þess væri kostur að borgin komi að stofnun danshúss í Reykjavík. Hugmyndin um danshús við höfnina þótti nýstárleg, en Friðriki Þór fannst hún þó varla listgreininni sæmandi og vildi metnaðarfyllri byggingu.

Um kvikmyndaborgina Reykjavík er það fyrst að segja að nú er verið að leita að stað undir það sem kvikmyndagerðarmenn vilja kalla kvikmyndaþorpið. Eftir fundinn var því stungið að atstoðarmanni borgarstjóra að Gufunes kæmi hugsanlega til greina.

Um list í almenningsrými virtust allir hafa sama áhugann.

Sama má segja um list í skólum – og raunar ekki síður. Lokið var lofsorði á framtak BÍL, Litróf listanna. Þorbjörg Helga lofaði að athuga skólasýningar í leikhúsum.

Fulltrúi arkitekta kom athugasemdum á framfæri varðandi Byggingarlistardeild Listasafnsins.

Borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, lýsti yfir undrun með hve tónlistarfólk vissi lítið um það sem til stendur í Tónlistarhúsinu. Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri, sagðist hafa sent langan fyrirspurnalista til Portus.

Gerður hefur verið samningur við Tónlistarþróunarmiðstöð, svo að það mál má segja að sé afgreitt með jákvæðum hætti.

Þorbjörg Helga lofaði að hafa samstarf við aðildarfélög BÍL um menningarstefnuna.