Alþjóðlegur dagur jazzins er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, þriðjudaginn 30. apríl. Það er UNESCO sem blæs til alþjóðlegs dags jazzins öðru sinni, en í fyrra þótti takast sérstaklega vel til þegar þessu merka fyrirbæri var hleypt af stokkunum. 2013 markar upphaf áratugar undir yfirskriftinni: “Viðurkenning, réttlæti og framför fyrir fólka af afrískum uppruna”. Þessi yfirskrift bregður enn einum ljómanum á alþjóðlega jazzdaginn sem Sameinuðu Þjóðirnar munu vntanlega fylkja sér á bakvið. Upprunalandi jazzins, Afríku, verður þess vegna veittur tvöfaldur heiður þetta árið.

Í tilefni dagsins stendur Íslenska UNESCO-nefndin í samstarfi við Tónlistarskóla FÍH fyrir viðburði í Hörpu kl. 17 – 18.30 undir yfirskriftinni Hvað er jazz? Einnig verða jazz-tónleikar á Jómfrúnni, Kex og Café Rosenberg. Aðgangur er ókeypis á alla viðburði. Sjá nánari dagskrá hér fyrir neðan og í meðfylgjandi tilkynningu:

Fræðumst, fögnum og fjölmennum eru kjörorð UNESCO fyrir Alþjóðlega Jazzdaginn og verður deginum fagnað í 24 klukkustundir samfleytt um allan heim með fjölbreyttum viðburðum allt frá Beirút til Peking og Dakar til Reykjavíkur.
„Á Alþjóðlega Jazzdeginum taka jarðarbúar höndum saman í friði og sátt og deila ástríðu sinni fyrir tónlist í nafni frelsis og sköpunargleði“ segir Irina Bokova Aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Þess vegna stóð UNESCO fyrir því að fagna Alþjóðlega Jazzdeginum í fyrsta sinn árið 2012, þá í samstarfi við Velvildarsendiherrann og djasssnillinginn Herbie Hancock. Alþjóðlegi Jazzdagurinn er hátíð draumsins um heim þar sem fólk nýtur hvarvetna friðar og frelsis. „Allir eru hjartanlega velkomnir!“ eru skilaboðin frá UNESCO og í ár tökum við Íslendingar virkan þátt í þessum degi.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.