Listin að lifa — starfsumhverfi listamanna.

Laugardaginn 4. september mun Bandalag íslenskra listamanna standa fyrir málþingi í Iðnó, þar sem til umfjöllunar verður spurningin um listina að lifa — starfsumhverfi  listamanna.

Samkomubann vegna sóttvarna hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir listamenn og hefur svipt fjölda þeirra öllum möguleikum á að starfa og afla tekna.

Þetta algera hrun hefur afhjúpað hversu erfiðlega listamönnum gengur að nýta þau úrræði  sem eiga að grípa  fólk við slík áföll á vinnumarkaði. Ósveigjanlegar útlínur regluverksins ná illa utan um flókið og margbreytilegt starfsumhverfi listamanna og ólík ráðningarform.

Í kjölfar þessa ástands féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli söngvara gegn Íslensku óperunni  þann 18. janúar 2021 sem setur samningsstöðu listamanna í en frekari óvissu.

Á málþinginu veltum við fyrir okkur  sérstöðu þessa starfsumhverfis og ástæðum þess að einyrkjar í listgreinum ná ekki þeim réttindum sem viðurkennd eru á vinnumarkaði.

Er eitthvað sem einkennir þennan hóp eða aðgreinir? Er regluverkið ósveigjanlegt? Þurfa listamenn ef til vill að taka rækilega til í sínum rekstri? Frummælendur leitast við að varpa ljósi á hvar vandinn liggur og vonandi í framhaldinu hvar lausnin leynist.

Frummælendur á þinginu verða:

Erling Jóhannesson, Forseti Bandalags íslenskra listamanna – Vistkerfið, 

Jakob Tryggvason, Formaður félags tæknifólks  – Skýrari rammi = aukið frelsi

Helga Vala Helgadóttir, Formaður velferðarnefndar alþingis – Þegar tölvan segir nei

Gunnar Ingi Jóhannsson, Hæstaréttar lögmaður – Staða listamanna á vinnumarkaði. Eru störf þeirra “óhefðbundin”?

Fundarstjóri er,  Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ritstjóri – Hver á að syngja í jarðarförinni þinni? 

Comments are closed.