Greinar

Smákóngar

14. febrúar 2011 birtist pistill eftir Sigurð Pálsson skáld í Fréttablaðinu í pistlaröðinni Öðlingurinn 2011. Öðlingurinn 2011 er jafnréttisátak sem ætlað er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Pitstill Sigurðar fer hér á eftir:

Hvernig á að skýra ýmislegt kynjamisrétti, til dæmis augljóst óréttlæti eins og launamun eða fákvenni í stjórnum fyrirtækja? Það verður ekki bara útskýrt með vondum og óréttlátum einstaklingum. Skýringin liggur í eitraðri blöndu hefða, kerfis, valdabrölts, hagsmunaárekstra, sem skapar hugarfar sem leiðir til þessa ástands og ástandið skapar svo hugarfarið…

Mér finnst reyndar yfirleitt miklu trúverðugra þegar konur fjalla um jafnréttisbaráttu, altso frá sjónarhóli kvenna. Reynsluheimi eins og sagt er. En eigum við alltaf að þegja, karlpeningurinn? Ég held ekki.

Ég tek til máls af því að kvennabarátta kemur öllum við, hún er reyndar öllum til góðs þegar upp er staðið. Til dæmis listamönnum og öllum sem starfa í skapandi greinum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Hér á landi hefur það fólk í gegnum tíðina alltaf fundið fyrir svipuðu niðurlægjandi viðhorfi og konur. Listamenn og fólk í skapandi greinum hefur alltaf orðið fyrir barðinu á hinni stórkarlalegu orðræðu; orðræðu hins eilífa hreppstjóra og annarra smákónga, sjómannsins gegn landkrabbanum, stjóra gegn undirsáta, karls gegn konu, þessi árásarhneigða orðræða beinist gegn skapandi greinum, gegn listum, gegn menningu og menntun, gegn mennsku samfélagsins.

Kjarninn í þessari þjösnalegu orðræðu birtist til dæmis í heimskulegustu yrðingu allra tíma á íslensku: „Bókvitið verður ekki í askana látið”. Hugarfarið sem að baki býr er í gagnvirku sambandi við orðræðuna, orðræðan býr til hugarfar, sem býr til orðræðu og þannig áfram ad infinitum, til eilífðarnóns. Eða hvað? Nei, sem betur fer ekki. Uppreisnir eru gerðar gegn þessum viðbjóði, ein mikilvægasta uppreisnin á gervallri síðustu öld var kvennabaráttan.

Tregðan til að hafa konur með er stórhættuleg. Það kemur í veg fyrir framþróun. Beinlínis. Þeim mun meiri völd og peningar sem eru í húfi, þeim mun meiri fælni að hafa konur með. Yfirlætisfullir drengir vilja vera áfram í friði í mógúlaleik með völd og fjármagn. Lítum til dæmis á fjármálaheiminn. Hvað hrundi? Það var númer eitt þetta geðbilaða jafnvægisleysi sem olli hruninu, það sem gerði útslagið var fákvennið, skorturinn á kvenlegri nálgun sem er forsenda jafnvægis.

Og jafnvægi kynjanna er forsenda jafnréttis kynjanna.

 

Til hvers er barist?

3. febrúar 2011

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um alvarlega stöðu tónlistarskólanna í Reykjavík nái áformaður niðurskurður borgaryfirvalda fram að ganga:

Nú liggur fyrir að skera eigi niður fjárframlög til tónlistarmenntunar í höfuðborginni þriðja árið í röð. Skera á niður um 11% frá 2010 en þar sem niðurskurðurinn á allur að koma til framkvæmda frá og með haustmánuðum væri í raun nær að tala um 33% fyrir skólaárið 2011-12. Að óbreyttu munu skólar á borð við Tónlistarskólann í Reykjavík skella í lás á næsta skólaári. Mann setur hljóðan.  Það er viðkvæmt að bera saman málaflokkana tónlist og íþróttir. Reyndar svo viðvæmt að við ritun þessa greinarkorns bárust mér fjölmargar aðvaranir þess efnis. Að „veitast að” íþróttahreyfingunni á þann hátt virðist jafngilda því að segjast hlynntur offitu barna, ofdrykkju og eiturlyfjaneyslu. Ekki ætla ég að gerast sekur um það – öðru nær, ég sem eitt sinn náði þeim frama að vera stoltur (en nokkuð slánalegur) miðjumaður í fjórða flokki Vals. Það er líka leiðinlegt að horfa upp á kreppuna deila og drottna; etja hagsmunahópum hverjum á móti öðrum og skapa sundrungu og almenn leiðindi. Þannig hefur til dæmis viðgengist að láta eins og tónlistin sé að mergsjúga heilbrigðisþjónustuna – en íþróttamálin, á þau má varla anda. Staðreyndin er hins vegar sú að íþróttastarf og tónlistarnám eru á margan hátt sambærilegir málaflokkar sem eðlilegt er að setja í samhengi hvorn við annan í slíkri umræðu – eða voru sambærilegir, ef marka á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar frá því árið 2004. Hins vegar hefur þróunin verið sú að meðan íþróttahreyfingin naut velvildar þeirra fjölmörgu borgarstjórna sem sátu í góðærinu, urðu tónlistarskólar Reykjavíkurborgar eftir. Þeir fengu hlutfallslega sífellt smærri sneið af sívaxandi kökunni og skólagjöld hækkuðu því linnulaust, samanlagt 50% síðan 2004.

 

Vonlaus refskák

Í meðfylgjandi töflu sést þróun fjárheimilda borgarinnar til tónlistarskólanna annars vegar og hins vegar til æfinga- og húsaleigustyrkja ÍTR árin 2004-2011. Upphæðirnar eru í milljónum króna. Sé mið tekið af núverandi fjárhagsáætlun hafa fjárheimildir til tónlistarskólanna fyrir árið 2011 hækkað um 8% samanborið við árið 2004 á meðan æfinga- og húsaleigustyrkir ÍTR hafa hækkað um 173%. Þessar tölur eru ekki framreiknaðar þannig að í raun er staða tónlistarskólanna umtalsvert verri en taflan gefur til kynna. Borgaryfirvöld verða að meta niðurskurð út frá þróun mála á þenslutímum. Á því flaska þau og setja framtíð tónlistar á Íslandi í hættu. Á síðasta borgarstjórnarfundi virtist sem eina lausn menntaráðs til bjargar tónlistarmenntun fælist í því að skera enn frekar af grunnskólum. Það væri fráleitt og því er augljóst að endurhugsa þarf rækilega skiptingu milli menntasviðs og íþrótta og tómstundasviðs fyrir 2011. Ef borgin myndi kosta nemendur í framhaldsstigi á þessu ári, líkt og henni ber skylda til, væri nær að tala um 720 milljónir til tónlistarskólanna. Borgarstjórn Reykjavíkur teflir nú fram tónlistarnemendum á framhaldsstigi sem fórnarpeði í sjö ára refskák sinni við menntamálaráðuneytið um hver skuli kosta nemendur á framhaldsstigi í tónlist. Menntamálaráðherra hefur tekið vel í að borga framhaldsstig tónlistarskólanna en borgaryfirvöld frábiðja sér að borga nám sextán ára og eldri. Það er óeðlileg krafa þar sem ekki er hægt að miða við samræmdu prófin í listmenntun. Gjörólíkt eðli mismunandi hljóðfæranáms sem og söngsnáms ættu að vera augljós rök.

 

Að skora í gatslitin net

Að ofan er komið inn á rekstrarstyrki til ÍTR en ótaldir eru auðvitað byggingarstyrkirnir sem námu yfir 2.600 milljónum króna á sama tímabili. Byggingarstyrkir til tónlistarskóla borgarinnar voru engir. Í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ hafa sérhannaðar byggingar undir tónlistarmenntun hafa risið undanfarin ár. Í Tónlistarskólanum í Reykjavík, þeim skóla sem er mér kærastur af öllum þeim sem ég hef numið við, starfa margir fremstu listamenn þjóðarinnar áfram í skrifstofuhúsnæðinu yfir Vinabæjarbingóinu í Skipholti, í níu óhljóðeinangruðum skólastofum með pappírsþunnum veggjum, gefandi ófáa ólaunaða aukatíma í yfirvinnu, enda starfa bestu tónlistarkennararnir ekki eftir klukkunni. Flyglar skólans eru þeir sömu og móðir mín æfði sig á fyrir fjörutíu árum. Á þeim tíma þóttu þeir á síðasta snúningi. Aðstöðu tónlistarskólans má líkja við það að stunda knattspyrnuæfingar á sömu skóm og með sama knettinum í fjörutíu ár, skorandi í gatslitin net. Þó útskrifar skólinn aðdáunarverða tónlistarmenn ár eftir ár, tónlistarmenn sem stjórnmálamenn punta sig með á tyllidögum.

 

Öld hagtölunnar

Við lifum á tímum hagtalna, fram hjá því verður ekki horft. Frægðarsól þeirra hefur risið jafnt og þétt og nú er svo komið að ár hvert er þeim helgaður sérstakur dagur á heimsvísu, 20. október. Að manni setur kjánahroll þegar maður stendur sig að því að fella listgreinarnar í sömu talnamót og notuð eru um aðrar framleiðslugreinar, það er þversagnakennt, enda ætti listin að taka við þar sem tölunum sleppir á 21. öldinni. Tónlistarmenn skyldu þó ekki óttast þá umræðu, kannski er hún löngu tímabær á Íslandi. Það er nefnilega landlægt viðhorf að tónlistarmenn (og listamenn almennt) séu öðrum skattborgurum byrði og það hefur óhjákvæmilega áhrif á sjálfsmynd stéttarinnar. Skemmst er að minnast umtalaðrar skýrslu menntamálaráðuneytisins frá byrjun desember þar sem fram kom að heildarvelta menningar á Íslandi árið 2009 hefði verið 191 milljarður króna, 6% af þjóðarframleiðslu. Virðisaukaskattsskyld velta landbúnaðar var til samanburðar 1% og fiskveiðar 4%. Af listaspírunum spretta því líka peningar. Hagfræðileg rök gegn því að kippa grunnstoðunum undan tónlistarmenntun Reykjavíkurborgar ættu því að duga borgaryfirvöldum, ein og sér, hafi tónlistin ekki nægt gildi fyrir þeim í sjálfri sér. Þannig var óþolandi að hlusta á borgarstjóra og aðra í besta flokki tala klisjukennt um yndi tónlistar sl. þriðjudag allt út frá sömu hugsun og niðurstöðu: tónlist væri „hobbý” sem réttlætanlegt væri að setja skörinni lægra en aðra menntun þegar að kreppti. Það er röng hugsun, henni þarf að útrýma. Tónlist er gríðarstór atvinnuvegur sem veltir tugmilljörðum. Fegurð hennar virðist blinda borgarstjórnendum sýn. „Til hvers erum við þá að berjast?” – þannig hljómuðu viðbrögð Winstons Churchill við tillögum um að færa opinber framlög til lista yfir í stríðsrekstur í seinna stríði. Orð hans koma ósjaldan upp í hugann þegar listsköpun og listmenntun verða fyrir barðinu á óupplýstri umræðu á Íslandi. Í íslenskum stjórnmálum ríkir jafnan stríðsástand, í kreppu sem góðæri. Til hvers berjast Samfylkingin og Besti flokkurinn?

Ár endurskoðunar og stefnumótunar

7. janúar 2011.

Í morgun birtist áramótagrein forseta BÍL, Kolbrúnar Halldórsdóttur í Fréttablaðinu:

Þegar litið er yfir árið 2010 sjást víða merki um afleiðingar efnahagshrunsins sem reið yfir þjóðina á haustdögum 2008. Ástandinu má líkja við ummerki eftir aurskriðu í fjallshlíð, þau verða sýnileg  um langa framtíð, þó smám saman grói yfir sárið. Ferli heilunar og bata er augljóslega hafið í íslensku samfélagi, þó langt sé í að ummerki hrunsins hverfi. Segja má að lykillinn að bata sé fólginn í endurskoðun þeirra gilda og kerfa sem ríkt hafa í samfélagi voru og í samskiptum manna í milli. Enda hefur víða verið staldrað við á árinu í þeim tilgangi að endurmeta „kúrsinn“ og yfirfara stýribúnað. Þjóðfundurinn í Laugardalshöll 14. nóv. 2009 hlýtur að vera leiðarljós þeim sem nú líta yfir farinn veg, draga lærdóma og móta nýja stefnu. Niðurstaða hans var sú að grunngildi nýrra tíma væru heiðarleiki, jafnrétti, virðing og réttlæti.

Á vettvangi lista og menningar hefur á árinu verið unnið að stefnumótun líkt og víða annars staðar. Menntamálaráðherra óskaði strax vorið 2009 liðsinnis BÍL við mótun lista- og menningarstefnu og hefur verið unnið að verkinu með margvíslegum hætti þó endanleg afurð liggi ekki enn fyrir. Mögulega verður slík stefna aldrei fullmótuð, heldur stöðugt í vinnslu. Í öllu falli er ljóst að það er eitt að móta menningarstefnu og annað að koma henni í framkvæmd. Til marks um það má benda á menningarstefnu í mannvirkjagerð, sem enn er unnið við að útfæra þó hún hafi að formi til verið samþykkt  í ríkisstjórn í apríl 2007. Í tengslum við aðalfund BÍL 22. janúar nk. er ráðgert að halda málþing um menningarstefnu, þar sem framvinda stefnumótunar í listum verður skoðuð, en hér fylgir stutt yfirlit yfir það sem þegar hefur unnist:

Á vordögum 2009 settust listamenn á rökstóla, ræddu aðferðafræði og innihald stefnumótunar í listum og skipuðu nokkra starfshópa. Þeir skiluðu af sér tillögum í lok september 2009, sem gerð er grein fyrir í áfangaskýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst frá í maí 2010. 24. apríl 2010 gekkst BÍL fyrir hugarflugsfundi, þar sem rúmlega 100 listamenn ræddu daglangt um stefnu í listum og skapandi greinum. Afurðir þess fundar hafa verið settar saman í aðgengilegt plagg og hafa, ásamt niðurstöðum stefnumótunarþings menntamálaráðuneytisins Menningarlandið 2010, verið grundvöllur áframhaldandi vinnu. Á árinu birti menntamálaráðuneytið greiningu á menningarstefnu íslenska ríkisins „Er til menningarstefna á Íslandi?“ sem unnin var af Hauki F Hannessyni. Einnig gekkst ráðuneytið fyrir könnun á menningarneyslu Íslendinga í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Tvær skýrslur um kvikmyndagerð komu út, önnur í mars „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk?“, sem greinir frá könnun á fjármögnun íslenskra kvikmynda. Hin kom út fyrr í þessum mánuði og fjallar um starfsskilyrði kvikmyndagerðar á Íslandi. Þá er athyglisvert frumkvæði Félags íslenskra listdansara, sem nýverið birti vandaða stefnu danslistarinnar til næstu 10 ára. Það sama má segja um ÚTÓN sem mótaði stefnu um áframhaldandi útflutning íslenskrar tónlistar. Síðast en ekki síst ber að nefna kortlagningu skapandi greina, en 1. desember sl. voru fyrstu niðurstöður þeirrar viðamiklu kortlagningar kynntar. Hún varpar ljósi á umfang skapandi greina í atvinnulífi landsmanna og efnahagslega þýðingu þeirra.  Ráðgert er að vinnu við kortlagninguna ljúki í mars 2011.

Ljóst er að mikið stefnumótunarstarf hefur verið unnið innan menningargeirans á árinu þó ekki sé því lokið. Meðal þess sem taka þarf afstöðu til í menningarstefnu er ýmislegt er lýtur að listkennslu á öllum skólastigum, ekki síst á háskólastigi. Gefa þarf gaum að rannsóknum í listum og skapandi greinum. Skoða þarf hlutverk og starfsskilyrði helstu menningarstofnana. Greina með hvaða hætti stoðkerfi atvinnulífsins nýtist skapandi greinum. Kanna grundvöll og hlutverk kynningarmiðstöðva listgreinanna og kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Auk þess sem mikilvægt er að huga að varðveislu og miðlun menningararfsins. Umræða af þessum toga er liður í mótun menningarstefnu, sem setja mun mark sitt á breytt og betra samfélag.

Skapandi greinar – burðarstoð í íslensku atvinnulífi

2. desember 2010

Grein eftir forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur, birt í Fréttablaðinu í dag:

Þau eru athyglisverð tíðindin af kortlagningu skapandi greina, sem leiða fram í dagsljósið nýja burðarstoð í íslensku atvinnulífi. Umfang skapandi greina, fjölbreytni þeirra og mikilvægi fyrir hagkerfið hafa aldrei verið skráðar með skipulegum hætti, þó við sem störfum innan geirans höfum haft á tilfinningunni að stærðargráðan sé umtalsverð.  Þegar samtök listamanna hafa þurft að réttlæta tilveru sína og verja opinber framlög til lista og menningar, hefur verið svekkjandi að geta ekki vitnað til hagstærða eins og aðrar atvinnugreinar gera jafnan. Hagtölur landbúnaðarins eru gefnar út með reglubundnum hætti, útflutningsverðmæti sjávarafurða er skráð niður í hvern þorsksporð og hvert framleitt áltonn er reiknað með í heildarverðmæti stóriðju í landinu, en ekkert hefur verið vitað með  vissu um skapandi greinar. Viðhorfið hefur hneigst í þá átt að afurðir lista- og menningargeirans séu ákjósanlegt skraut á útflutning frá Íslandi en hafi ekki sjálfstætt gildi. Nú er annað að koma á daginn.

Bandalag íslenskra listamanna hefur tekið virkan þátt í vinnunni við kortlagningu skapandi greina enda varðar verkefnið sameiginlega hagsmuni þeirra fjórtán aðildarfélaga sem koma saman undir hatti  BÍL. Baráttan fyrir viðurkenningu starfa okkar er meðal annars fólgin í því að þurfa að verja þá fjármuni sem varið er til lista og menningar á fjárlögum íslenska ríkisins. Þannig er það árviss atburður að réttlæta þurfi fyrirkomulag það sem gildir um launasjóði listamanna skv. lögum um listamannalaun.

Á tímum samdráttar og niðurskurðar í ríkisútgjöldum þurfa allir málaflokkar að taka á sig skerðingar. Þar eru listir og menning ekki undanskilin og skorast listamenn ekki undan ábyrgð í þeim efnum. En niðurskurðarhnífnum þarf þó að beita með varkárni svo mikilvægir vaxtasprotar bíði ekki varanlegt tjón.  Upp á síðkastið hefur stjórn BÍL hitt að máli fjárlaganefnd og mennta- og menningarmálanefnd Alþingis til að ræða um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins.

Áherslur BÍL eru skýrar. Tryggja þarf faglega úthlutun opinberra fjármuna til menningarverkefna. Í því skyni er mikilvægt að fjárlaganefnd breyti vinnubrögðum sínum og láti af handahófskenndum úthlutunum af safnliðum en beiti sér þess í stað fyrir eflingu sjóða sem ætlað er slíkt hlutverk samkvæmt lögum. Þar er um að ræða m.a. Kvikmyndasjóð, Bókmenntasjóð, Tónlistarsjóð,  Starfsemi atvinnuleikhópa og launasjóði listamanna.  Á síðasta ári var samningi menntamálaráðuneytis við kvikmyndagerðarmenn kippt úr sambandi og kvikmyndasjóður skorinn umfram aðra sjóði. BÍL telur mikilvægt að samningurinn verði vakinn til lífs á ný svo áform um stóreflingu kvikmyndageirans geti gengið eftir. Hafa ber í huga að kvikmyndagerð er einhver öflugasti þátturinn í vef skapandi greina.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu rannsóknarverkefnisins um kortlagningu skapandi greina er mikilvægt að efla kynningarmiðstöðvar í skapandi greinum; Hönnunarmiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Bókmenntasjóð og Sviðslistamiðstöð Íslands sem nú er í burðarliðnum.  Í því sambandi ber einnig að hafa í huga hlutverk nýstofnaðrar Íslandsstofu, en lög um stofuna gera ráð fyrir að hún greiði fyrir kynningu lista og menningar á erlendri grund.

Af einstökum verkefnum leggur BÍL áherslu á að horfið verði frá áformum um að þurrka út af fjárlögum verkefnið „Tónlist fyrir alla“ . Þar er um að ræða vel skilgreint verkefni, sem hefur skilað góðum árangri gegnum tíðina. Fjöldi barna og unglinga um land allt hefur fengið að njóta tónleika undir þess hatti. Meðal listamanna er ríkur vilji til að efla verkefnið og þróa það svo enn fleiri fái notið þess um komandi ár. Slík áform eru dauðadæmd ef fjárlagafrumvarpið verður óbreytt að lögum.

 

Page 7 of 7« First...34567