Greinar

Ár endurskoðunar og stefnumótunar

7. janúar 2011.

Í morgun birtist áramótagrein forseta BÍL, Kolbrúnar Halldórsdóttur í Fréttablaðinu:

Þegar litið er yfir árið 2010 sjást víða merki um afleiðingar efnahagshrunsins sem reið yfir þjóðina á haustdögum 2008. Ástandinu má líkja við ummerki eftir aurskriðu í fjallshlíð, þau verða sýnileg  um langa framtíð, þó smám saman grói yfir sárið. Ferli heilunar og bata er augljóslega hafið í íslensku samfélagi, þó langt sé í að ummerki hrunsins hverfi. Segja má að lykillinn að bata sé fólginn í endurskoðun þeirra gilda og kerfa sem ríkt hafa í samfélagi voru og í samskiptum manna í milli. Enda hefur víða verið staldrað við á árinu í þeim tilgangi að endurmeta „kúrsinn“ og yfirfara stýribúnað. Þjóðfundurinn í Laugardalshöll 14. nóv. 2009 hlýtur að vera leiðarljós þeim sem nú líta yfir farinn veg, draga lærdóma og móta nýja stefnu. Niðurstaða hans var sú að grunngildi nýrra tíma væru heiðarleiki, jafnrétti, virðing og réttlæti.

Á vettvangi lista og menningar hefur á árinu verið unnið að stefnumótun líkt og víða annars staðar. Menntamálaráðherra óskaði strax vorið 2009 liðsinnis BÍL við mótun lista- og menningarstefnu og hefur verið unnið að verkinu með margvíslegum hætti þó endanleg afurð liggi ekki enn fyrir. Mögulega verður slík stefna aldrei fullmótuð, heldur stöðugt í vinnslu. Í öllu falli er ljóst að það er eitt að móta menningarstefnu og annað að koma henni í framkvæmd. Til marks um það má benda á menningarstefnu í mannvirkjagerð, sem enn er unnið við að útfæra þó hún hafi að formi til verið samþykkt  í ríkisstjórn í apríl 2007. Í tengslum við aðalfund BÍL 22. janúar nk. er ráðgert að halda málþing um menningarstefnu, þar sem framvinda stefnumótunar í listum verður skoðuð, en hér fylgir stutt yfirlit yfir það sem þegar hefur unnist:

Á vordögum 2009 settust listamenn á rökstóla, ræddu aðferðafræði og innihald stefnumótunar í listum og skipuðu nokkra starfshópa. Þeir skiluðu af sér tillögum í lok september 2009, sem gerð er grein fyrir í áfangaskýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst frá í maí 2010. 24. apríl 2010 gekkst BÍL fyrir hugarflugsfundi, þar sem rúmlega 100 listamenn ræddu daglangt um stefnu í listum og skapandi greinum. Afurðir þess fundar hafa verið settar saman í aðgengilegt plagg og hafa, ásamt niðurstöðum stefnumótunarþings menntamálaráðuneytisins Menningarlandið 2010, verið grundvöllur áframhaldandi vinnu. Á árinu birti menntamálaráðuneytið greiningu á menningarstefnu íslenska ríkisins „Er til menningarstefna á Íslandi?“ sem unnin var af Hauki F Hannessyni. Einnig gekkst ráðuneytið fyrir könnun á menningarneyslu Íslendinga í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Tvær skýrslur um kvikmyndagerð komu út, önnur í mars „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk?“, sem greinir frá könnun á fjármögnun íslenskra kvikmynda. Hin kom út fyrr í þessum mánuði og fjallar um starfsskilyrði kvikmyndagerðar á Íslandi. Þá er athyglisvert frumkvæði Félags íslenskra listdansara, sem nýverið birti vandaða stefnu danslistarinnar til næstu 10 ára. Það sama má segja um ÚTÓN sem mótaði stefnu um áframhaldandi útflutning íslenskrar tónlistar. Síðast en ekki síst ber að nefna kortlagningu skapandi greina, en 1. desember sl. voru fyrstu niðurstöður þeirrar viðamiklu kortlagningar kynntar. Hún varpar ljósi á umfang skapandi greina í atvinnulífi landsmanna og efnahagslega þýðingu þeirra.  Ráðgert er að vinnu við kortlagninguna ljúki í mars 2011.

Ljóst er að mikið stefnumótunarstarf hefur verið unnið innan menningargeirans á árinu þó ekki sé því lokið. Meðal þess sem taka þarf afstöðu til í menningarstefnu er ýmislegt er lýtur að listkennslu á öllum skólastigum, ekki síst á háskólastigi. Gefa þarf gaum að rannsóknum í listum og skapandi greinum. Skoða þarf hlutverk og starfsskilyrði helstu menningarstofnana. Greina með hvaða hætti stoðkerfi atvinnulífsins nýtist skapandi greinum. Kanna grundvöll og hlutverk kynningarmiðstöðva listgreinanna og kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Auk þess sem mikilvægt er að huga að varðveislu og miðlun menningararfsins. Umræða af þessum toga er liður í mótun menningarstefnu, sem setja mun mark sitt á breytt og betra samfélag.

Skapandi greinar – burðarstoð í íslensku atvinnulífi

2. desember 2010

Grein eftir forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur, birt í Fréttablaðinu í dag:

Þau eru athyglisverð tíðindin af kortlagningu skapandi greina, sem leiða fram í dagsljósið nýja burðarstoð í íslensku atvinnulífi. Umfang skapandi greina, fjölbreytni þeirra og mikilvægi fyrir hagkerfið hafa aldrei verið skráðar með skipulegum hætti, þó við sem störfum innan geirans höfum haft á tilfinningunni að stærðargráðan sé umtalsverð.  Þegar samtök listamanna hafa þurft að réttlæta tilveru sína og verja opinber framlög til lista og menningar, hefur verið svekkjandi að geta ekki vitnað til hagstærða eins og aðrar atvinnugreinar gera jafnan. Hagtölur landbúnaðarins eru gefnar út með reglubundnum hætti, útflutningsverðmæti sjávarafurða er skráð niður í hvern þorsksporð og hvert framleitt áltonn er reiknað með í heildarverðmæti stóriðju í landinu, en ekkert hefur verið vitað með  vissu um skapandi greinar. Viðhorfið hefur hneigst í þá átt að afurðir lista- og menningargeirans séu ákjósanlegt skraut á útflutning frá Íslandi en hafi ekki sjálfstætt gildi. Nú er annað að koma á daginn.

Bandalag íslenskra listamanna hefur tekið virkan þátt í vinnunni við kortlagningu skapandi greina enda varðar verkefnið sameiginlega hagsmuni þeirra fjórtán aðildarfélaga sem koma saman undir hatti  BÍL. Baráttan fyrir viðurkenningu starfa okkar er meðal annars fólgin í því að þurfa að verja þá fjármuni sem varið er til lista og menningar á fjárlögum íslenska ríkisins. Þannig er það árviss atburður að réttlæta þurfi fyrirkomulag það sem gildir um launasjóði listamanna skv. lögum um listamannalaun.

Á tímum samdráttar og niðurskurðar í ríkisútgjöldum þurfa allir málaflokkar að taka á sig skerðingar. Þar eru listir og menning ekki undanskilin og skorast listamenn ekki undan ábyrgð í þeim efnum. En niðurskurðarhnífnum þarf þó að beita með varkárni svo mikilvægir vaxtasprotar bíði ekki varanlegt tjón.  Upp á síðkastið hefur stjórn BÍL hitt að máli fjárlaganefnd og mennta- og menningarmálanefnd Alþingis til að ræða um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins.

Áherslur BÍL eru skýrar. Tryggja þarf faglega úthlutun opinberra fjármuna til menningarverkefna. Í því skyni er mikilvægt að fjárlaganefnd breyti vinnubrögðum sínum og láti af handahófskenndum úthlutunum af safnliðum en beiti sér þess í stað fyrir eflingu sjóða sem ætlað er slíkt hlutverk samkvæmt lögum. Þar er um að ræða m.a. Kvikmyndasjóð, Bókmenntasjóð, Tónlistarsjóð,  Starfsemi atvinnuleikhópa og launasjóði listamanna.  Á síðasta ári var samningi menntamálaráðuneytis við kvikmyndagerðarmenn kippt úr sambandi og kvikmyndasjóður skorinn umfram aðra sjóði. BÍL telur mikilvægt að samningurinn verði vakinn til lífs á ný svo áform um stóreflingu kvikmyndageirans geti gengið eftir. Hafa ber í huga að kvikmyndagerð er einhver öflugasti þátturinn í vef skapandi greina.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu rannsóknarverkefnisins um kortlagningu skapandi greina er mikilvægt að efla kynningarmiðstöðvar í skapandi greinum; Hönnunarmiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Bókmenntasjóð og Sviðslistamiðstöð Íslands sem nú er í burðarliðnum.  Í því sambandi ber einnig að hafa í huga hlutverk nýstofnaðrar Íslandsstofu, en lög um stofuna gera ráð fyrir að hún greiði fyrir kynningu lista og menningar á erlendri grund.

Af einstökum verkefnum leggur BÍL áherslu á að horfið verði frá áformum um að þurrka út af fjárlögum verkefnið „Tónlist fyrir alla“ . Þar er um að ræða vel skilgreint verkefni, sem hefur skilað góðum árangri gegnum tíðina. Fjöldi barna og unglinga um land allt hefur fengið að njóta tónleika undir þess hatti. Meðal listamanna er ríkur vilji til að efla verkefnið og þróa það svo enn fleiri fái notið þess um komandi ár. Slík áform eru dauðadæmd ef fjárlagafrumvarpið verður óbreytt að lögum.

 

Page 7 of 7« First...34567