Greinar

Harpan og heilbrigðið

Í dag skrifaði Guðmundur Andri Thorsson í Fréttablaðið:

Óneitanlega hnykkir fólki við þegar Kári Stefánsson skrifar í grein í Morgunblaðinu að fólk sé farið að deyja vegna ástandsins í heilbrigðismálum þjóðarinnar og rekur nokkur sláandi dæmi um fjárfrekar framkvæmdir sem stjórnvöld vildu frekar ráðast í en að standa straum af heilbrigðiskerfinu. Þar á meðal er Harpan.

Smælingjagorgeir
Vissulega. Gallinn við Hörpu er kannski sá að Íslendingar byggðu hana ekki endilega vegna þess að það vantaði tónlistarhús heldur til að láta dást að sér. Hún er byggð til þess að láta fólk grípa andann á lofti af hrifningu yfir fegurð hússins og aðdáun á krafti, útsjónarsemi, afli og fegurðarskyni þeirra sem byggja slíka ævintýrahöll.
Árum saman starfaði hér af mikilli þrautseigju og fórnfýsi félagsskapur fólks sem hélt lífinu í þeirri hugsjón að koma upp sómasamlegu tónlistarhúsi en aldrei tókst að vekja verulegan áhuga stjórnvalda á slíku húsi þótt þörfin væri brýn – ekki fyrr en allt í einu var farið að tala um að tengja tónlistarhúsið við ráðstefnuhald.
Þá held ég að mörgu af því fólki sem var í fararbroddi þessarar baráttu hafi liðið eins og drauminum um hús hafi verið stolið frá því og síðan eitthvað allt annað og miklu stærra og yfirgengilegra skapað en upphaflegi draumurinn snerist um.

Þessi framkvæmd var vitnisburður um hugarfar sem Íslendingum sjálfum er tamt að kenna við stórhug og lýsir sér í mikilli þörf fyrir viðurkenningu heimsins á því að hér búið afar sérstætt og magnþrungið fólk.
Þótt Íslensk erfðagreining væri stofnuð kringum þá einföldu og snjöllu hugmynd að vert gæti verið að skoða erfðamengi þessa einsleita þjóðarkrílis þá gætti þess stundum, fannst manni, í umræðu um fyrirtækið að fólk stæði í þeirri meiningu að íslensk gen væru á einhvern máta framúrskarandi og gjörvallt mannkynið stæði eiginlega í þakkarskuld við Íslendinga fyrir að vera til.

Þar örlaði á oflæti smælingjans. Og ýmsum þykir Harpan til vitnis um slíkt hugarfar. En hvað á að gera? Rífa húsið? Ætli við séum þá ekki farin að tala um virkilega sóun fjármuna? Láta húsið standa autt og eftirláta það köngulónum að spinna sína vefi í öll horn?
Eftir sem áður þarf væntanlega að greiða af húsinu – tekjulausu – hin frámunalegu fasteignagjöld sem miðast við óheyrilegan byggingarkostnaðinn en ekki sjálfa starfsemina í húsinu eins og eðlilegra væri og gerir að verkum að Harpan þarf að greiða margfalt hærri fasteignagjöld en önnur menningarhús, þar með talin íþróttamannvirki og tilbeiðsluhús.
Breyta Hörpu í spítala? Hvað á hann Kári nákvæmlega við? Hvernig sem á það er litið er vandséð hvernig það á að bjarga fjárhag Landspítalans að hætta tónleika- og ráðstefnuhaldi í þessu mikla félagsheimili þjóðarinnar sem Harpa hefur góðu heilli orðið. Tenging Kára er röng.

Stöndum vörð um skapandi atvinnugreinar

3. september birti Fréttablaðið þess grein eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur, forseta BÍL:

Ekki líður á löngu þar til fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar lítur dagsins ljós. Þess er nú beðið með eftirvæntingu í opinberum stofnunum og meðal þeirra sem reiða sig á opinber framlög til samfélagslegra verkefna af fjölbreyttum toga. En eftirvæntingin er lituð óróleika vegna óvissu um niðurstöðuna. Ríkisstjórnin hefur boðað niðurskurðaraðgerðir og hefur falið sérskipuðum hópi að gera tillögur að hagræðingu í ríkisrekstri.

Í umfjöllun fjölmiðla um væntanlegar hagræðingaraðgerðir hefur þriggja ára fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar gjarnan borið á góma og því haldið fram að hún sé í uppnámi að meira eða minna leyti. Sú áætlun var fyrst kynnt á vordögum 2012 og á fjárlögum yfirstandandi árs eru liðlega tíu milljarðar merktir verkefnum sem tilheyra áætluninni. Tekjuhlið áætlunarinnar hefur verið umdeild og ljóst að sá hluti hennar sem tengdur var auknum arði af veiðigjaldi mun ekki ganga eftir og óljóst hvað verður með þann hluta sem tengdur var arði af eignasölu.

Fjárfestingaráætluninni var ætlað að fjármagna viðamikil verkefni á vettvangi samgangna auk byggingar nýs fangelsis og húss íslenskra fræða, einnig gerði hún ráð fyrir auknum stuðningi við rannsóknir og tækniþróun, uppbyggingu ferðamannastaða og friðlýstra svæða auk ýmissa verkefna á sviði græna hagkerfisins. Þá eru ótalin verkefni á vettvangi lista og skapandi greina, en þau eru einmitt tilefni þessa pistils.

190 milljarða velta
Á undanförnum árum hefur talsverð vinna verið lögð í kortlagningu skapandi greina, m.a. gerð rannsókn á hagrænum áhrifum þeirra, sem leiddi í ljós að árleg velta greinanna nemur um 190 milljörðum króna og að þær skapa um 10.000 ársstörf. Um þessar mundir starfa fjögur ráðuneyti saman að því að skilgreina stjórnsýslu greinanna og framtíðarstefnu á grundvelli skýrslu sem gefin var út á haustdögum 2012.

Með fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar voru sett fram áform til þriggja ára um aukin framlög til verkefnatengdra sjóða á vettvangi lista og sköpunar. Í krafti hennar var framlag til Kvikmyndasjóðs tvöfaldað auk þess sem stofnaðir voru fjórir nýir sjóðir, sem nokkuð lengi hafði verið beðið eftir, þ.e. Hönnunarsjóður, Myndlistarsjóður, Útflutningssjóður tónlistar og Handverkssjóður. Þá var sett aukið fjármagn til sjóða á sviði bókmennta, til starfsemi atvinnuleikhópa og til Tónlistarsjóðs.

Í heildina er hér um að ræða stuðning við skapandi atvinnulíf upp á 720 milljónir króna, þar af 470 milljónir til Kvikmyndasjóðs og 250 milljónir í aðra sjóði. Þessir fjármunir eru til staðar í fjárlögum 2013 og augljóst að ef þeirra nýtur ekki við í fjárlögum 2014 mun það koma hart niður á uppbyggingu þeirra atvinnugreina sem byggja á starfi listamanna og hönnuða.

Mikið í húfi
Forsvarsmenn aðildarfélaga BÍL – Bandalags íslenskra listamanna, sem eru 14 talsins og hafa innan sinna vébanda um 4.000 félagsmenn; listamenn og hönnuði, hafa undanfarið gengið á fundi ráðherra í ríkisstjórninni til að gera grein fyrir þessari stöðu og óskað eftir áframhaldandi stuðningi við uppbyggingu skapandi atvinnugreina. Mikilvægi þessara greina er t.d. sýnilegt í ferðaþjónustu, sem um þessar mundir er sú atvinnugrein sem er í örustum vexti hér á landi. Þegar erlendir ferðamenn eru spurðir að því hvað hafi ráðið því að þeir völdu Ísland sem áfangastað kemur í ljós að næst íslenskri náttúru hafa menning og listir mest aðdráttarafl. Gefandi samstarf hefur þróast milli ferðaþjónustunnar og skapandi greina, t.d. með þátttöku í stefnumótun Íslandsstofu og einnig með kraftmiklu samstarfi við menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar.

Sú staðreynd að Listaháskóli Íslands útskrifar á hverju ári fjölda listamanna og hönnuða vegur að sjálfsögðu þungt í þessum efnum. Aðrir háskólar hafa einnig aukið vægi skapandi greina, má þar t.d. nefna námsbrautir í hagnýtri menningarmiðlun af ýmsu tagi. Þá hafa sveitarfélögin á landsbyggðinni lagt á það áherslu að byggja upp atvinnutækifæri tengd listum og skapandi greinum. Nægir að nefna fjölbreytta flóru hátíða í bæjarfélögum víðsvegar um landið, uppbyggingu handverks- og listamiðstöðva, auk markvissara samstarfs á vettvangi sveitarfélaga t.d. á Austurlandi með sameinandi afli Austurbrúar.

Með menntuðu og hugmyndaríku fólki og nýjum leiðum til samstarfs, opnast ótal möguleikar á að framkvæma skapandi hugmyndir, oft í samstarfi við aðrar atvinnugreinar, jafnvel sjávarútveg og landbúnað. Það er því mikið í húfi og mikil sú ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem undirbúa fjárlagatillögur fyrir næstu ár. Listamenn og hönnuðir hafa lagt fram þá frómu ósk að ráðamenn standi vörð um gríðarlega möguleika skapandi atvinnugreina á næstu árum, greina sem hafa sannað sig sem einn öflugasti vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi.

Steldu.net

Guðmundur Andri Thorsson ritar grein í Fréttablaðið í dag um ólöglegt niðurhal höfundarvarins efnis á netinu:

Það er alltaf verið að brjótast inn. Og þrátt fyrir það að alltaf sé verið að reyna að búa til nýjar þjófavarnir og hvernig sem lögreglan reynir þá er eins og sumir þjófar séu alltaf skrefinu á undan og sjái við varnarkerfunum. Maður hlýtur að spyrja sig: Tekur því að vera yfirleitt að standa í því að koma í veg fyrir innbrot? Á fólk ekki bara að að sætta sig við það að innbrot eru komin til að vera – þetta er víst framtíðin – og hafa bara opið?

Það er alltaf verið að brjótast inn í bíla og stela þaðan útvörpum og geislaspilurum. Lögreglan nær einungis að upplýsa örlítið brot af slíkum innbrotum og áleitin spurning hvort yfirleitt taki því að gera sér rellu yfir þeim. Þetta er víst framtíðin. Svona er lífið og réttast að hafa bara bílana ólæsta.

Og hvað er annars eign? Eru ekki lög um eignarréttinn löngu úrelt og miðuð við allt annað samfélag? Verðum við ekki að fara að koma okkur út úr þessum forneskjuviðhorfum og til nútímans?

Þannig má velta fyrir sér röksemdum þeirra sem aðhyllast frjálst niðurhal á kvikmyndum, tónlist og bókum. Í fyrsta lagi, segja þau, er vonlaust að koma í veg fyrir meirihlutann af þessu. Í öðru lagi er það forneskja að neytandinn geti ekki sjálfur náð sér í þann varning sem hann hefur áhuga á undir eins og honum þóknast. Og í þriðja lagi er höfundarrétturinn úreltur.

Þetta eru falsrök. Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana. Boð og bönn samfélagsins snúast ekki fyrst og fremst um glæpi og refsingu heldur öllu fremur um sjálfsmynd samfélagsins og sjálfsmynd þeirra einstaklinga sem það mynda – rétt og rangt – almennt siðferði. Er ég manneskja sem getur lifað með því að taka réttmæta eign annarra? Erum við samfélag sem getur lifað með því að líða ránskap?

Það að tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað gerir það ekki sjálfkrafa æskilegt. Það að mig langi í eitthvað táknar ekki sjálfkrafa að mér beri að fá það fyrirhafnarlaust.

Neytandinn über alles
Þegar ég sæki mér bíómynd á síðuna deildu.net, sem af stolti auglýsir að hún bjóði nú upp á íslenskt efni, þá er ég ekki bara að taka það ófrjálsri hendi sem mér ber að borga fyrir heldur er ég líka að lýsa því yfir að það fólk sem haft hefur fyrir því að skapa þetta listaverk eigi ekki að fá greitt fyrir vinnu sína. Ég er með þessum gjörningi að lýsa því yfir að matráðsfólkið við gerð myndarinnar eigi ekki að fá greitt fyrir matargerðina, ekki bílstjórarnir sem vinna við gerð myndarinnar, ekki kvikmyndatökufólkið, ekki smiðirnir sem gera leikmyndina, ekki klipparinn, ekki leikstjórinn, ekki leikararnir, ekki þau sem finna tökustaðina, ekki handritshöfundurinn – enginn. Þau hafa – segi ég með þessum gjörningi – engan rétt á launum fyrir vinnu sína: ég hef allan réttinn mín megin vegna þess að ég er nefnilega neytandi.

Hið sama gildir um bókagerð og öll afleiddu störfin sem hljótast af iðju skáldsins og hið sama gildir um tónlistina: réttur neytandans til að njóta listarinnar er samkvæmt þessum þankagangi æðri rétti listamannsins til að fá greitt fyrir vinnu sína. Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.

„Þjónustuvandi“
Þess háttar ránskap sem kenndur er við sjórán hefur af talsmönnum hans verið lýst sem „þjónustuvanda“ og reynt að láta líta svo út sem stórfelldur þjófnaður á mynd Baltasars, Djúpið, sé fyrst og fremst því að kenna að dreifingarfyrirtæki hans hafi ekki staðið sig í stykkinu við að gera myndina aðgengilega á netinu. Það má vera að eitthvað sé hæft í því og kannski er undarlegt að ekki sé til síða þar sem hægt er að gerast áskrifandi að íslenskum bíómyndum, en þetta eru líka falsrök og í raun réttlæting á þeirri iðju að stela því sem manni ber ekki.

Segjum sem svo að ég búi til afar eftirsóknarverðan lakkrís en sé latur við að koma honum á markað. Einhver neytandi er svo hrifinn af þessum lakkrís að honum finnst eins og hann sé jafnvel á sínum vegum og getur ekki á sér heilum tekið nema fá hann. En þegar hann kemur að tómum hillum stórmarkaðanna er ekki þar með sagt að hann geti bara vaðið inn á lager til mín og sótt sér lakkrís, jafnvel þótt ég geti kannski ekki komið í veg fyrir það og hafi ákaflega sérviskulegar og forneskjulegar hugmyndir um það hvernig lakkrísinn skuli markaðssettur. Þetta er minn varningur, ég bjó hann til, ég stjórna því hvernig hann er á boðstólum.

Kannski verður ekki komið í veg fyrir það að fólk hali niður bíómyndum, tónlist og bókum sem annað fólk hefur haft fyrir því að skapa. En það er óþarfi að gera slíkan stuld að dyggð.

Um listþörfina

Þessi grein Guðmundar Andra Thorssonar birtist í Fréttablaðinu í morgun:

„Það vantar ekki þessa listamenn,“ sagði hún Laufey amma mín stundum þegar hún var í mat hjá okkur og einhverja listamenn bar á góma, sem stundum vildi við brenna, og henni tók að leiðast þófið. Hún sagði þetta glaðlega og kímdi, en það var alltaf einhver tónn í þessu sem gaf til kynna að henni þætti satt að segja alveg nóg um alla þessa listamenn.

Mitt er að yrkja – ykkar að styrkja
(Játning: Fyrir allmörgum árum fékk ég svokölluð starfslaun rithöfunda, einhverja mánuði, og alls ekki jafn mikið og mér fannst að mér bæri og ekki nóg til að ég gæti helgað mig skáldsagnagerð eins og mig langaði að gera þá. En ég var auðvitað ekki dómbær. Margir listamenn sveiflast á milli þess að líta svo á að annað fólk standi unnvörpum í þakkarskuld við sig fyrir að gefa því allra náðarsamlegast kost á því að vera samtíðarmenn sínir og svo aftur hins að líta á sig og verk sín sem einskisvert drasl.

En ég fékk sem sé ekki það sem mér bar, frekar en til dæmis Þorgrímur Þráinsson, og svo fór að ég hætti að sækja um slík laun og ákvað með sjálfum mér að margir rithöfundar væru betur að þeim komnir en ég og auk þess gæti ég svo sem unnið fyrir mér með öðrum hætti. Ég bið afsökunar á þessum sjálfsútaustri en ég nefni þetta vegna þess að ég hef stundum rekist á athugasemdir þess efnis að ég sé mikill styrkjakall og því ekki að marka neitt af því sem ég segi.)

Þá er það úr sögunni. En ég er hálfsmeykur. Ég skynja eitthvert andrúmsloft um þessar mundir. Mér finnst ég verða var við eindregna og jafnvel sigri hrósandi andúð á menntamönnum, fræðum og þekkingarleit, verðmætasköpun andans – og listum alveg sérstaklega.

Fólk sem náði meirihluta á alþingi vegna loforða um lækkun lána og hækkun launa notar nú umboðið sem það fékk vegna þeirra loforða – og einskis annars – til að efna til stórfellds niðurskurðar á ríkisútgjöldum, sem aldrei var minnst á í kosningabaráttunni, en lánamálin fóru í nefnd. Vonandi skjátlast mér, en einhvern veginn skynjar maður að nú liggi í loftinu stórfelldur niðurskurður á framlögum til lista og menningar; þar hafa verið settir til verka Guðlaugur Þór, sem mun vera styrktasti þingmaður Íslandssögunnar, Ásmundur Einar, starfsmaður styrktustu atvinnugreinar Evrópu, íslensks sauðfjárbúskapar, og Vigdís Hauksdóttir sem hefur lagt sig fram af sérstakri alúð við að fara með fleipur um listamannalaun, við nokkur fagnaðarlæti skoðanasystkina; Vigdís hefur reyndar slíka unun af því að ganga fram af listamönnum, að það örlar á því að hún sé kannski svolítill listamaður sjálf, í henni sé þessi listræna viðleitni sem á frönsku er kölluð „épater les bourgeois“.

Sennilega verða listamenn að setja traust sitt á hana frekar en styrkjatröllin tvö.

Að vera andvígur meinatæknum
Samfélagið er net, þéttofið og síkvikt. Það samanstendur af skyldri og óskyldri starfsemi alls konar stakmengja og sniðmengja og raðmengja, flöktmengja og víxlmengja sem hafa gert með sér einhvers konar óformlegan sáttmála um að vera sammengi, það er að segja „þjóð“. Samfélagið er forógnarmikil bygging þar sem eru ótal vistarverur sem tengjast margvíslega í litlu og ættræknu samfélagi. Einn á frænku þarna, annar skólabróður hér, og ekki má gleyma besta vini eiginmanns náfrænku móðursystur eiginkonunnar. Sem sé: dýnamík og verkaskipting. Það er varla til tómarúm í samfélaginu, og flest höfum við vissa innsýn í iðju hvert annars; það er meðal þess sem er fallegt við íslenskt samfélag: bændurnir gerðu við bíla, bílasalarnir héldu rollur, meinatæknir sem opnar búð, sjómaður sem heklar dúka, ráðuneytisstjóri sem fer að læra trésmíði. Og svo framvegis.

En þó er það nú svo að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá fylgir nútímanum viss sérhæfing. Til dæmis meinatæknar. Ég veit ekkert hvað þeir eru að bauka. En ekki er þar með sagt að ég þurfi að gruna þá um græsku eða vera vera andvígur þeim, eða vilji að framlög verði skorin niður til meinatæknigreina. Mér finnst heldur ekki að ég hafi einhvern sérstakan rétt sem skattborgari til að skilja meinatækna alveg fyrirhafnarlaust. Ég treysti því bara að þeir sigli ekki undir fölsku flaggi og að iðja þeirra hafi sitt gildi sem þar til bært fólk leggur mat á.

Þannig starfar sérhæfingin í samfélaginu. Eins og margtuggið er: Van Gogh hefði aldrei náð að þróa og þroska sína list ef bróðir hans Theo hefði ekki styrkt hann á alla lund. Það dæmi eitt og sér ætti að nægja til að afgreiða þá firru að eftirláta eigi markaðnum að launa listamönnum. Þar með er ekki sagt að sérhver listamaður sem öllum finnst lélegur sé Van Gogh. En hver á þá að leggja dóm á erindi listamanna við samtíma sinn? Ásmundur Einar Daðason?

Og eins og margtuggið er líka: Allt skilar sér aftur inn í þá margbrotnu hringrás sem samfélagið er. Í peningum. Í góðum listaverkum. Í frægð. Í kúlheitum. Í skatti. Í listaverkunum sem tókust ekki og listaverkunum sem engum líkaði en kveiktu kannski hugmyndir og elda. Í listaverkunum sem vöktu viðbjóð en stungu á kýlum. Í hugmyndastreyminu og andlega fjörinu, lífsgleðinni, tjáningunni á því óumræðilega og neistafluginu, í lyginni sem segir satt og þúsundum spegilbrota.

Nei, amma mín. Það vantar alltaf þessa listamenn.

Skammarverðlaun Grímunnar

Í morgun birtist grein eftir Vigdísi Jakobsdóttur í Fréttablaðinu, en Vigdís er formaður ASSITEJ – samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi og situr auk þess í stjórn samtakanna á heimsvísu. Greinin fer hér á eftir:

Að ekki skuli vera hægt að veita verðlaun fyrir barnasýningu ársins á uppskeruhátíð sviðslistafólks vegna þess að frumsýndar barnasýningar ná ekki einu sinni tilnefningafjölda er ekki bara þyngra en tárum taki, heldur til háborinnar skammar fyrir íslenskt menningarlíf.

Fyrir kaldhæðni örlaganna kemur þessi staða upp á alþjóðlegu ári barnaleikhúss og á sama ári og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur loks verið festur í lög á Íslandi. Í sáttmálanum er meðal annars kveðið á um rétt hvers barns til að „taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og fá viðeigandi og jöfn tækifæri […] til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.”

Íslenskir foreldrar eru vissulega duglegir að fara með börnin sín í leikhús. Ætli við séum ekki duglegust í því í heimi, eins og í svo mörgu öðru. En matseðillinn er ekki fjölbreyttur.

Marengsfroða
Hérastubbur bakari kenndi bakaradrengnum fyrst að baka piparkökur árið 1962 í Þjóðleikhúsinu. Þeir félagar hafa síðan fengið nýjan búning ásamt hinum dýrunum í Hálsaskógi einu sinni á áratug að meðaltali. Og það er alltaf fullt hús, því „afi sá þetta þegar hann var lítill og pabbi þegar hann var lítill og nú er komið að þér”. Mary Poppins, sem reyndar hefur ekki ratað til Íslands sem sviðsuppfærsla fyrr, en kom fyrst út á bók árið 1934 (!) sló í gegn á stóra sviði Borgarleikhússins í vetur og félagarnir hárprúðu Karíus og Baktus eru enn á háa c-inu að heimta franskbrauð með sykri, þó íslensk börn séu flest komin í mun harðari efni í dag.

Við vitum hver vondi gæinn er strax frá upphafi. Stelpur eru sætar og strákar eru hetjur. Allt er þægilega fyrirsjáanlegt. Engar spurningar. Bara svör. Litadýrð og taumlaus gleði. Húrra fyrir pylsugerðarmanninum!
Raunsönn mynd af heiminum ekki satt?

Ekkert er hægt að setja út á fagmennsku þess listafólks sem að þessum sýningum kemur. Hins vegar er óásættanlegt með öllu að við séum að sóa opinberu fjármagni, svo ekki sé talað um hæfileikum okkar allra besta listafólks, í framleiðslu á eintómri næringarlausri marengsfroðu frá miðri síðustu öld ofan í börnin okkar, á meðan nánast ekkert annað er í boði.

Blásum til sóknar
Ég kalla eftir leiksýningum fyrir yngri áhorfendur um stríð og frið, um umhverfið, fjölmiðla, lýðræði, ábyrgð, völd, virðingu, kynjahlutverk, kynhneigð, fjölmenningarsamfélagið, lífið, dauðann – um allt sem skiptir máli í lífinu. Hvernig stendur á því að ekkert er sýnt af nýjum erlendum verkum fyrir börn? Og hvar eru nýju íslensku barnaverkin sem ekki eru leikgerðir á metsölubókum? Í stuttu máli: Hvers vegna sitja yngri leikhúsáhorfendur ekki við sama borð og þeir sem eldri eru?

Alls engu fé er veitt sérstaklega í sviðslistir fyrir börn og ungt fólk á Íslandi og þannig er engin hvatning í kerfinu fyrir listafólk eða leikhús að sinna þessum vettvangi – nema síður sé. Samanburður við aðrar Norðurlandaþjóðir er í þessu samhengi ekkert nema niðurlægjandi.

Börnin erfa ekki landið. Þau eiga það með okkur. Á sama hátt erfa þau ekki Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, óperuna, Sinfóníuna, listasöfnin eða Hörpu. Þessar menningarstofnanir eru þeirra rétt eins og annarra þegna þessa lands og þau eiga lagalega heimtingu á að þær þjóni þeim til jafns við aðra. Börn og ungmenni eru ekki „framtíðaráhorfendur”. Þau eru áhorfendur dagsins í dag.

Mér dettur ekki í hug að ætla að listafólk, leikhússtjórar, fagfélög listamanna og menningarmálayfirvöld séu sátt við stöðu mála, hvorki hvað varðar framboð sýninga eða innihald. Því hvarflar ekki að mér að úthluta skammarverðlaunum til eins ákveðins aðila, þó fyrirsögnin gefi annað til kynna. Skammarverðlaunin eru okkar allra. Botninum er náð. Nú blásum við til sóknar – fyrir börnin í landinu.

Nýr bókmenntapáfi

Í Fréttablaðinu í dag fjallar Guðmundur Andri Thorsson um “hinn árlega héraðsbrest” sem verður þegar tilkynnt er um úthlutun listamannalauna:

Árlega birtast í blöðum og netmiðlum myndir af listamönnum sem hlotið hafa úthlutun úr launasjóðum á vegum ríkisins. Þessar myndbirtingar vekja hugrenningatengsl við myndir af sakborningum í fjársvikamálum. Okkur er ætlað að horfa á þessi andlit og hugsa um það hvílíkir loddarar þau séu – hversu auðveldlega þau komist yfir almannafé. Okkur er ætlað að hugsa: Af hverju þau? Okkur er ætlað að hugsa: Aha! Klíka!

Af hverju bara listamenn?
Eða hvers vegna að birta myndir af því fólki sem þiggur laun úr almannasjóðum til að skapa list fremur en ýmsum öðrum sem njóta framlaga úr opinberum sjóðum? Hví ekki að birta myndir af öllum þeim sem hljóta styrki úr nýsköpunarsjóðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs og rannsóknasjóðum með tilheyrandi vangaveltum um verðuga og óverðuga? Af hverju ekki að birta myndir af læknum sem fá til sín heimsóknir sjúklinga niðurgreiddar af ríkinu, með tilheyrandi pælingum um erindi og erindisleysu? Væri ekki tilvalið að birta myndir af bændum sem fá til sín framleiðslutengdar beingreiðslur, og láta þá fylgja bollalengingar ófróðra um sanna bændur og ósanna?

Af hverju bara listamenn? Um það ríkir nokkur sátt í samfélaginu að það þurfi á listum að halda, vegna þess að það er svo ótalmargt sem listirnar færa okkur sem engin önnur iðja gerir. Markaðstrúarmenn telja að vísu að eftirláta eigi hinum óskeikula og guðlega markaði að skilja sauðina frá höfrunum – en til allrar hamingju eru þeir í miklum minnihluta og hafa lítil áhrif, nema þá helst inni á téðum fjölmiðlum þar sem þeir stökkva ævinlega til og birta sakamannamyndir af því fólki sem unnið hefur það sér til óhelgi að hljóta listamannalaun. Flest fólk áttar sig hins vegar á hinu: að til þess að samfélagið fái notið listar verða listamenn að vera til. Og til að svo megi verða þurfa þeir að lifa, þó að mörgum finnist þá fyrst eitthvað í þá varið þegar þeir eru dauðir.

Til þess að meta hverjir eigi að njóta þessara launa höfum við sérstakar úthlutunarnefndir þar sem situr fólk sem talið er hafa sérþekkingu á viðkomandi listgrein.

Að sjálfsögðu eru úthlutunarnefndir þessara launa ekki óskeikular og eflaust hægt að nefna ótal dæmi um það hversu misvitrar þær séu. En svona virkar þetta og vandséð hvernig það má öðruvísi vera í nútímasamfélagi þar sem reynt er að koma í veg fyrir klíkuskap og frændhygli af fremsta megni.

Daðason með dylgjur fer
Sum sé: Ásmundur Einar Daðason var með dylgjur. Innblásinn af fréttum úr safnaðartíðindum markaðstrúarmanna, Viðskiptablaðinu, kvaðst hann á bloggi sínu vera hugsi yfir því að makar ráðherra hefðu fengið laun úr rithöfundasjóði. Um er að ræða Jónínu Leósdóttur og Bjarna Bjarnason. Ásmundur taldi úthlutun til þessara rithöfunda til marks um undarlega forgangsröðum ríkisstjórnarinnar, og gaf þar með til kynna að ákvörðun um þessar greiðslur hefði einhvern veginn ratað inn á ríkisstjórnarfundi, og virtist ekki hvarfla að honum að ef til vill hefðu þau Jónína og Bjarni eitthvað gert sjálf til að verðskulda slík laun.

Jónína hefur um árabil verið í fremstu röð þeirra höfunda sem skrifa fyrir unglinga, þótt hún hafi líka skrifað bækur sem ætlaðar eru eldri lesendum, leikrit og ljóð. Hún hefur verið sérstaklega fundvís á viðkvæm og vandmeðfarin – og mikilvæg – efni en haft lag á að skrifa um þau af nærgætni og húmor. Bjarni Bjarnason hefur stundað ritstörf frá árinu 1989, skrifað skáldsögur, ljóð, smásögur, greinar. Hann nýtur mikillar virðingar meðal þeirra fjölmörgu sem fylgjast með íslenskum bókmenntum og hefur unnið til ýmissa viðurkenninga, fengið verðlaun og tilnefningar. Bækur hans eru ólíkar bókum annarra; fantasíur en um leið mjög jarðbundnar, fullar af heimspekilegum, trúarlegum og tilvistarlegum pælingum? Sem sé virtur og þekktur höfundur þótt Ásmundur Einar Daðason hafi aldrei heyrt hans getið.

Kannski veit Ásmundur Einar ekkert um bókmenntir þó að hann telji sig þess umkominn að tjá sig um þær af því að hann er alltaf að lesa um það í Morgunblaðinu hversu gáfaður hann sé. Og kannski er þetta er bara illgjarnt slaður, til þess að gera lítið úr öðru fólki og koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það má einu gilda. Því þetta er umfram allt heimild um Ásmund Einar Daðason og hugsunarhátt hans. Og næst þegar hann tekur til máls og fer að dylgja og atyrða og lasta – um Evrópusambandið eða gamla félaga í VG – er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þetta dæmi um það hvernig hann vinnur úr þeim upplýsingum sem hann aflar sér – og neitar sér um.

Talsamband við útlönd

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skrifar grein í Fréttablaðið um mikilvægi þess að faglega sé staðið að kynningu á íslenskri list og menningu á erlendri grund. Greinin fer hér á eftir:

Mér finnst gaman að vera kominn hingað, en það veit enginn um þennan stað,” sagði hinn heimsfrægi djasstónlistarmaður Chick Corea á sviðinu í Eldborgarsal Hörpu á dögunum. Hann var nokkuð hissa á húsinu og landinu. Listamaðurinn tók vissulega nokkuð djúpt í árinni en víst er Ísland lítið land og alls ekki sjálfgefið að hinn stóri heimur viti af okkur hér í hafinu, jafnvel þó um sé að ræða víðsýnt fólk.

Ísland hefur ýmislegt fram að færa. Skal þar fyrst telja náttúruna sem við verðum að standa vörð um fyrir komandi kynslóðir, gesti okkar og okkur sjálf. Nálægðin við óbeislaða náttúru, sjávarsíðuna, víðerni og fjallaloft má svo sannarlega flokka til forréttinda á nýrri öld. Eftirspurnin eftir því að koma til Íslands er einnig til staðar, það sést best á þeirri fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur á undanförnum árum og þeim fjölgar enn.
Stoðirnar sem ferðaþjónustan byggir á eru nokkrar. Flugsamgöngur þurfa að vera tryggar og aðstaða til að taka á móti gestunum til staðar. Reynslan af heimsókninni þarf að vera ánægjuleg og upplifunin þannig að gesturinn greini frá henni þegar heim er komið. Þeir sem ferðast um landið hafa frá ýmsu að segja en dvölin veltur hins vegar á tveimur atriðum, náttúru og menningu. Menningarlífið á Íslandi er öflugt og í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hefur það náð að standa af sér áföll og niðurskurð. Stuðning við menningarstofnanir og listir í landinu þarf þó að byggja upp aftur til framtíðar. Rökin fyrir því er fyrst og fremst að finna í menningunni sjálfri sem veitir okkur lífsfyllingu og ánægju en listir og menning treysta einnig fjölbreytt atvinnulíf þar sem sköpun verður sífellt mikilvægari þáttur.

Kynning á íslenskum listum
Hvað menningu varðar er einkar mikilvægt að við látum vita af okkur úti í hinum stóra heimi, enda höfum við margt fram að færa. Alþjóðlegt samstarf og samskipti eru mikilvæg svo að þeir sem starfa á vettvangi menningar og lista fái erlendan samanburð til að þroskast og dafna. Nefna má fjölmörg dæmi um að íslenskir listamenn nái góðum árangri með verkum sínum erlendis þessi misserin. Útgáfa á íslenskum samtímabókmenntum er með miklum blóma, tónlistarmenn vekja athygli og aðdáun og ferðast um heiminn til að syngja og leika, myndlistarmenn ná í auknum mæli að byggja tengslanet sín við erlenda sýningarsali og hátíðir og þannig mætti lengi telja.

Stuðningur stjórnvalda skiptir miklu máli í þessu sambandi og hann hefur einkum farið fram í gegnum kynningarmiðstöðvar listgreinanna sem komist hafa á laggirnar á undanförnum árum. Kvikmyndamiðstöð Íslands ýtir undir markaðssetningu og kynningu á kvikmyndum, ÚTÓN hefur eflt útflutning á íslenskri tónlist, Hönnunarmiðstöð hefur náð að byggja upp HönnunarMars í Reykjavík sem vakið hefur alþjóðlega athygli og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur haldið vel utan um þátttöku Íslands á myndlistartvíæringnum í Feneyjum, svo ágæt dæmi séu nefnd. Stuðning við kynningu á íslenskum bókmenntum stendur til að efla með tilkomu nýrrar miðstöðvar um þær og einnig er í frumvarpi til sviðslistalaga gert ráð fyrir stofnun kynningarmiðstöðvar um íslenskar sviðslistir. Mikilvægt er að kanna hvort þessum aðilum kunni að reynast betur til framtíðar að hafa með sér samstarf eða nánari samvinnu því að listgreinarnar styðja hvor aðra eins og menn vita.

Stuðningur stjórnvalda við kynningu á íslenskum listum á erlendri grund þarf að vera byggður á faglegum forsendum og þar gegnir þekking þeirra sem stýra miðstöðvunum lykilmáli. Þær þarf að efla um leið og tryggt er að stuðningurinn sé í takt við þá fjölbreytni og kraft sem finna má í íslensku menningarlífi. Verkefnið skiptir ekki aðeins listamenn máli, heldur okkur öll. Menning og listir leggja til sjálfsmyndar þjóðarinnar og efla sköpunarkraft með henni, veita okkur og gestum okkar ánægju og innblástur.
Veröldin er stór, þjóðirnar margar og möguleikarnir endalausir. Látum fleiri vita af okkur og okkar kraftmiklu listum. Íslenskar listir eiga erindi við heimsbyggðina.

Sorry Jón og sorry Stína

Fréttablaðið birti í morgun grein eftir Hjálmtý Heiðdal, kvikmyndagerðarmann og fyrrv. gjaldkera BÍL. Greinin fer hér á eftir:
 
21. feb. sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Guðmund Edgarsson málmenntafræðing um ríkisstyrkta menningarstarfsemi. Skrif Guðmundar er dæmi um hinn “árlega héraðsbrest”, eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur nefnir viðbrögðin, þegar úthlutun listamannalauna er kynnt opinberlega.
Að hætti frjálshyggjumanna setur Guðmundur upp hið einfalda dæmi að skattgreiðendur skuli ekki greiða fyrir menningarstarfsemi sem þeir hafa ekki áhuga á. Guðmundur ræðir málefni Þjóðleikhússins, sem nýtur töluverðra framlaga af skattfé, og Skjás Eins, sem heyr sína lífsbaráttu á grundvelli eigin ágætis og vinsælda. (Skjár einn er reyndar rekinn með miklu tapi, 375 milljónum kr. 2009 og trúlega niðurgreiddur af móðurfélaginu sem rekur Símann.)
Að sögn Guðmundar þá er “leikhúsrekstur eins og hver annar atvinnurekstur og á því að lúta lögmálum markaðarins”. Þetta er skýrt, list sem ekki höfðar til nægilega margra deyr drottni sínum.
Guðmundur er ekki einn um þessa skoðun, nýlega birti Kristinn Ingi Jónsson, ritstjóri sus.is, grein með fyrirsögninni List er fyrir listunnendur. Kristinn leggur fram einfalda spurningu: “Hvernig getur það þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni list eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum listamönnum laun?”
Niðurstaða Kristins Inga er sú sama; þeir sem vilja njóta lista eiga að borga það sjálfir. Nú rorra þeir sælir í sinni trú félagarnir Guðmundur og Kristinn og ekkert haggar þeirra sælu sannfæringu. Enda málið fremur augljóst og skýrt séð frá þeirra sjónarhól. Þetta þarf ekki að ræða frekar.
Ræðum því eitthvað annað, t.d. vegakerfið, jafnvel jarðgöng. Jarðgöng eru grafin gegnum fjöll og undir hafsbotninn til þess að auðvelda samgöngur. Það er rætt um að vetrarfærð sé víða varasöm og sumstaðar geta jarðgöng leyst vandann. Víða eru hættulegir fjallvegir lagðir af og jarðgöng koma í staðinn. Þetta flokkast undir framfarir.
En það er einn galli á jarðgöngum, þau eru staðbundin og yfirleitt greidd af almannafé. Reykvíkingur getur ekki nýtt sér jarðgöng milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar nema endrum og eins. Og þarf að fara langa leið til þess. Samt er hann þátttakandi í kostnaði við gerð ganganna og viðhaldi þeirra.
Hér er augljóslega verið að sniðganga lögmál Guðmundar og Kristins; jarðgöng eru fyrir jarðgangaunnendur, þau eiga að lúta lögmálum markaðarins.
Það þýðir ekkert að benda á gagnsemi jarðganga, t.d. samgöngubætur og lægri slysatíðni, grundvallaratriðin eru á hreinu: þeir sem nota jarðgöng eiga að borga þau.
Útreikningar sýna að jarðgöng á Austfjörðum geta aldrei borgað sig nema með himinháum veggjöldum. Sem enginn mundi greiða. Arðsemi Vaðlaheiðarganga, sem eru þó á þéttbýlla svæði, er reiknuð fram og aftur og óvíst um sjálfbærni framkvæmdanna. Margt bendir til þess að vegfarendur aki gamla veginn í stað þess að borga sannvirði fyrir styttri leið í gegnum göngin.
En það er eins með jarðgöng og listina, þau eru þarna vegna þess að sameiginlegt átak skattgreiðenda greiddi kostnaðinn að hluta. Og líkt og listin, þá skila jarðgöng verðmætum til baka. Ég minntist á slysatíðni og við má bæta minni bensíneyðslu og lengri endingu ökutækja sem fara oft sömu leið. Og tími er einnig peningar í einhverjum fræðum.
Hvað fáum við fyrir skattfé sem greitt er til menningarstarfsemi? Íslenskt leikhús, íslenskar kvikmyndir, íslenska tónlist, íslenska myndlist og íslenskar bækur. Enn fremur þýdd erlend leikverk, þýddar bækur og hingað koma stórgóðir erlendir listamenn.
Félagarnir Kristinn og Guðmundur telja báðir að Jón og Stína eigi að greiða fyrir sína menningarneyslu, burt séð frá efnum þeirra og aðstæðum. Stína er fremur blönk tveggja barna einstæð móðir og Jón er í hjólastól.
Spólum hratt áfram: Kiddi og Gummi hafa fengið sitt fram. Nú fer Stína ekki í leikhús vegna þess að miðarnir kosta það sem þeir þurfa að kosta, 15-20.000 pr. sýningu. Jón fer ekki í leikhús vegna þess að hann og nokkrir aðrir fatlaðir geta ekki borgað brú fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið. Þau vita fátt skemmtilegra en að fara í leikhús. En sorry Jón og sorry Stína-samfélagið styður ekki listir og menningu. Fyrirsögnin á grein Kristins átti að vera List er fyrir ríka listunnendur.
Kenningar frjálshyggjumanna um listir og menningu eru af sama sauðahúsi og kenningar þeirra um efnahagsmál. Þær eru skemmtilegt umræðuefni – en stórslys í framkvæmd.

Þakkir

Í dag, á degi tónlistarinnar, birti Fréttablaðið grein eftir Jakob Frímann Magnússon formann FTT:

Vorið 1991 afhenti Björk Guðmundsdóttir þáverandi menntamálaráðherra, Svavari Gestssyni, kröfu fyrir hönd íslenskra tónlistarmanna um að jafnræðis skyldi gætt milli listgreina í nýjum lögum um virðisaukaskatt. Nýkynnt stefna ríkisstjórnar var nefnilega á þann veg að allar listgreinar skyldu undanþegnar virðisaukaskatti – nema hryntónlist og tónlist á geisladiskum. Þetta skóp mikinn samkeppnishalla, ekki síst milli útgefenda vsk- fjálsra bóka og vsk-skyldra geisladiska og bitnaði mjög á tónlistarfólki.

Eftir fimmtán ára baráttu náði SAMTÓNN, Samtök tónlistarrétthafa, þeim langþráða árangri gagnvart stjórnvöldum árið 2007 að geisladiskar og bækur skyldu loks færðar í sama virðisaukaskattþrep, 7% , en bækur höfðu þá um allangt skeið borið 14% og tónlist 24,5%. Eftir sat hins vegar tónlist í rafrænu formi sem enn bar 24,5% virðiskaukaskatt – og sama gilti um rafbækur.

Þökk sé efnahags- og skattanefnd undir forystu Helga Hjörvar að leiðrétting þessa átti sér nýverið stað. Þetta fór ekki hátt en Dagur íslenskrar tónlistar er kjörinn til að vekja athygli á þessari réttmætu og langþráðu leiðréttingu.

Tuttugu ára baráttu tónlistafólks og útgefenda fyrir þessu sjálfsagða og brýna jafnréttismáli er hérmeð lokið. Aukinn skilningur á gildi stéttarinnar og framlagi hennar til samfélagsins speglast í ákvörðun efnahags- og skattanefndar. Henni skulu færðar bestu þakkir.

Betri bæi

Fréttablaðið í dag birtir grein eftir formann Arkitektafélags Íslands Loga Má Einarsson:

 Óbyggðir landsins eru okkur dýrmætar og mikilvægt að huga vel að því hvernig um þær er gengið. Þetta hefur mönnum orðið æ ljósara og hefur megináhersla umhverfisverndar á Íslandi snúist um víðernið. Það er þó ekki síst við skipulagningu þéttbýlis sem ná má árangri í umhverfisvernd. Skynsamleg þróun bæja getur skipt sköpum.

Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis síðustu áratugi. Við höfum að miklu leyti byggt upp samkvæmt hugmyndafræði hinnar bandarísku bílaborgar, þar sem lykilhugtökin eru flokkun og aðgreining. Borg og bæir eru gisin, innviðir dýrir, almenningssamgöngur lélegar og almenningsrými oft illa skilgreind. Þá höfum við byggt okkur stærra íbúðarhúsnæði en skynsamlegt má teljast. Markmiðið hlýtur að vera að snúa af þessari braut.

Stjórnvöld hafa ekki horft á hlutina í nógu stóru samhengi og þann ávinning sem í því felst. Arkitektar bera þó auðvitað líka sína ábyrgð á þessari þróun. Sum okkar hafa ýmist villst af leið eða verið of leiðitöm í ofsaþenslu síðustu ára. Önnur hafa hins vegar hvergi hvikað frá gildum sínum og víða má sjá byggingar og skipulagssvæði sem bera metnaði og fagmennsku mjög gott vitni.

Byggingarlist lýsir vel menningarstigi og viðhorfi þjóðfélaga á hverjum tíma. Því eigum við að leggja áherslu á að góður arkitektúr einkenni þéttbýli. Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna.

Í framtíðinni þurfa orku- og umhverfisvænar lausnir einnig að einkenna góða byggingarlist.
Góð byggingarlist og skipulag auka lífsgæði, stuðla að verðmætasköpun og eru því hagkvæm.
Í þeirri viðleitni að snúa til betri vegar óskar Arkitektafélag Íslands, sem nú fagnar 75 ára afmæli, eftir aukinni og markvissri samvinnu við ríki, sveitarfélög og almenning um mótun skýrrar sýnar til langrar framtíðar.

Page 5 of 7« First...34567