Greinar

Listrænn metnaður eða markaðsfræði

Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

Í leiðara Friðriku Benónýsdóttur 11. febrúar er lýst áhyggjum af því að listamenn séu í auknum mæli hættir að trúa á gildi listarinnar og sé meira í mun að sanna að þeir skaffi peninga en skapi góða list. Hún rekur fyrir þessu tvær meginástæður, annars vegar aukna áherslu á hagræn áhrif skapandi greina og hins vegar neikvæða umfjöllun um listir almennt.

Umræðu um hagræn áhrif lista og skapandi greina má rekja til sameiginlegs áhuga listamanna og fræðimanna á því að vita efnahagslegt umfang listastarfsemi í landinu. Það var árið 2010 sem settir voru opinberir fjármunir í rannsókn, sem leiddi í ljós umtalsverð hagræn áhrif greinanna. Atvinnuvegir þjóðarinnar hafa áratugum saman verið kortlagðir og fyrir þeim gerð grein í árlegum þjóðhagsreikningum, en hingað til hefur þáttur listamanna og hönnuða verið nánast ósýnilegur í þessum reikningum.

Listamenn stíga fram
Þessu vilja listamenn breyta, sem er eflaust ein af ástæðum þess að þeir hafa sjálfir orðið sýnilegir í umræðunni um þátt skapandi greina í þjóðarhag. Friðrika virðist gagnrýnin á þá þátttöku þar sem hún segir að listamenn hafi hvað eftir annað beitt sér fyrir umræðum um þessi hagrænu áhrif, jafnvel haldið um þau málþing.

Bandalag íslenskra listamanna, sem samanstendur af fjórtán fagfélögum listafólks og arkitekta, hefur á undanförnum árum gengist fyrir málþingum í tengslum við aðalfund sinn. Umfjöllunarefnin hafa verið fjölbreytt en þingið 2013 fjallaði að sönnu um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Þar var undirstrikað mikilvægi þess að listir og menning eignuðust fastan sess í þjóðhagsreikningum, en jafnframt komu fram svipaðar áhyggjur og lýst er í leiðara Friðriku, af aukinni áherslu á markaðssjónarmið í umfjöllun um listir og þeirri hættu að eigið gildi listanna gæti horfið í skuggann af yfirþyrmandi umfjöllun um þjóðhagslegt vægi þeirra.

Von um aukið vægi skapandi greina
Umræðan um hin hagrænu áhrif er ný af nálinni, hún helst í hendur við þörf á fjárhagslegri endurskipulagningu samfélagsins eftir hrun og speglar áætlanir nágrannalanda okkar um uppbyggingu starfa í skapandi greinum. Hún á sér líka rætur í breyttu munstri listmenntunar, sem hefur á seinni árum verið að færast til í kerfinu með þróun listnáms á háskólastigi.
Einnig eru skýr merki um breytingar á uppbyggingu fagfélaga listafólks og meðvitund listamanna um kjör sín, t.d. með inngöngu æ fleiri félaga í Bandalag háskólamanna. Þá eru ótalin áform stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna um að hefja sókn í uppbyggingu atvinnutækifæra innan hins skapandi geira, en slíkar yfirlýsingar kveikja von meðal listamanna um aukið vægi greinanna. Með þetta í huga væri beinlínis undarlegt ef listamenn leiddu þessa umræðu hjá sér.

Friðrika veltir hins vegar fyrir sér hvort niðrandi umfjöllun um störf listamanna sé farin að skjóta rótum í hugskoti þeirra sjálfra og verði þess beinlínis valdandi að þeim sé meira í mun að skaffa peninga en skapa góða list. Það dreg ég í efa. Vissulega þykir listamönnum oft nóg um þegar fjölmiðlar og samskiptamiðlar fyllast af athugasemdum á borð við þær að leggja beri niður Þjóðleikhúsið eða Sinfóníuhljómsveit Íslands, að misráðið hafi verið að ljúka byggingu Hörpu eða að listamenn ættu að fá sér eðlilega vinnu eins og venjulegt fólk. Satt að segja óttast ég fremur að gusur af þessu tagi hafi áhrif á tiltrú stjórnvalda og þeirra sem halda utan um opinbera fjármuni en að þær ógni listrænum metnaði listamannanna.

Ég vil leyfa mér að ljúka þessu greinarkorni með því að þakka Friðriku Benónýsdóttur fyrir leiðarann og viðurkenna að áhyggjur hennar eru ekki tilefnislausar, en á sama tíma langar mig að hvetja hana og aðra áhugamenn um menningarumfjöllun að hefja til vegs umræðu sem vegur upp á móti möntrunni um að listin sé fyrst og fremst markaðsvara. Mín gæfa er fólgin í því að starfa daglega með listafólki sem hefur fulla trú á gildi listarinnar sem byltandi afls í samfélaginu og hefur ekki í hyggju að selja Satan sál sína.

Sígild í sjónvarpi

Gunnar Guðbjörnsson, formaður FÍT skrfar grein í Fréttablaðið í dag:

Aðdáendur sígildrar tónlistar fengu óvæntan glaðning í upphafi ársins 2014. Á sjónvarpsskjánum hefur klassískri tónlist verið gert hærra undir höfði en áður svo að eftir því er tekið.

Raunar hófst sjónvarpsveturinn á RÚV með sjónvarpsþáttunum Útúrdúr þar sem þau Halla Oddný Magnúsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson buðu sjónvarpsáhorfendum í ferðalag um heima tónlistarinnar. Þetta ferðalag reyndist bæði fjölbreytt og fróðlegt. Þau nálguðust viðfangsefnið á þann hátt að jafnt atvinnumenn, áhugafólk og þeir sem ekki höfðu áður gefið sig að sígildri tónlistgátu notið.

RÚV á þakkir skildar fyrir framleiðslu þáttanna en nú hefur Ríkissjónvarpið gefið í og boðið upp á frekari dagskrá af svipuðum toga en þar má nefna upptökur af tónleikum úr Hörpu og Salnum í Kópavogi, þátt um stórkostlegt tónlistarverkefni Hallfríðar Ólafsdóttur, Maxímús Músíkus, auk aðkeyptra tónlistarþátta á borð við upptöku á Zarzúelatónleikum með Placido Domingo, frá tónlistarhátíðinni í Salzburg.

Ekki háð tískusveiflum
Menningarefnið virðist nú hafa hellst yfir sjónvarpið því þar til um miðjan febrúar verður sérstök næturdagskrá allar nætur, sem tileinkuð er myndlist og stendur veislan fram undir morgun.

Allt bætist þetta við ágæta dagskrárliði sem þegar eru til staðar: Kiljuna, Hljómskálann og Djöflaeyjuna.

Ástæða er til að færa RÚV sérstakar þakkir fyrir þessar nýársgjafir enda má lesa á samskiptamiðlum mikinn fjölda jákvæðra viðbragða þess fólks sem notið hefur. Sumir hafa bent á að eitthvað af hinu ágæta efni sé reyndar ekki það allra nýjasta á markaðnum en þá ber að nefna að einn helsti kosturinn við sígilda tónlist er að hún er yfirleitt ekki háð tískusveiflum. Klassískar tónleikaupptökur eldast yfirleitt fádæma vel en lækka þó í verði með aldrinum. Ólíklegt má því teljast að hoggið verði stórt skarð í sjóði Ríkisútvarpsins við innkaupin. Sú staðreynd ætti að vera dagskrárstjóra Sjónvarps ástæða til að halda áfram þessari janúarstefnu og gleðja okkur enn frekar með vönduðu sígildu tónlistarefni.

Hver veit nema að okkar bíði fastur þáttur í vetrardagskránni um allt það helsta sem er á döfinni í sígildri tónlist heima og erlendis, þáttur í ætt við Hovedscenen hjá NRK?

Nýr tíðarandi

Dóri DNA skrifar eftirfarandi pistil í vefritið Kjarnann í dag:
Á einhverjum tímapunkti hefði ég talið að söngvarinn Bono væri einn frægasti og dáðasti maður í heimi. Hann eyddi áramótunum í Reykjavík. Út úr því komu nokkrar sjálfsmyndir sem voru teknar niðri í bæ. Svona álíka margar og Steindi Jr. þarf að taka með fólki þegar hann fer út í Sorpu. Hins vegar voru hér tveir hæfileikagrannir lúðar í Smáralind á sunnudaginn og ungt fólk hélt að selfie–dómsdagurinn væri runninn upp.

Þetta er tíðarandinn að öskra til okkar að nú séu tímarnir breyttir. Geggjuð byrjun á árinu. Auðvitað er tíðarandinn að breytast. Það breyttist ógurlega margt árið 2013. Öllum er drullusama um sjávarútveginn og Decode og álver og sæstreng til Bretlands. Nú snýst þetta um Plain Vanilla. Gæja í nettum jakkafötum að gera tölvuspil fyrir snjallsíma og hanga í San Francisco.

Alþjóðlegu við
Við erum orðin svo alþjóðleg. Hér er allt troðfullt af út­lenskum ferðamönnum og öllum er alveg sama. Opna ekki einu sinni matvöruverslun yfir hátíðirnar eða skafa stéttina á Gullfoss og Geysi. Kannski tengist það staðreyndinni að utanríkisráðherra kann hvorki að bera fram Kasakstan, né benda á það á landakorti. Á meðan Össur og Jón Baldvin skrifuðu færsluna um Kasakstan á Wikipediu. Ég vona svo innilega að við tökum upp gjaldtöku á ferðamannastöðum sem fyrst, bara svo hægt sé að bjóða ferðamönnum viðeigandi aðbúnað og þjónustu.

Sakleysið er hægt og bítandi að hverfa. Allar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu selja nú kannabistengdan varning og vatnslón í hauskúpuformi eru til sölu við útganginn á Hagkaupum bæði í Smáralind og á Eiðistorgi. Börn og unglingar stela öllu afþreyingar­efni sem þau hafa áhuga á og lögreglan skaut mann til bana í fyrsta skipti á árinu. Sam­félaginu virtist nákvæmlega sama hvort það hafi verið nauðsynlegt eða ekki. En hins vegar vildu allir vita; með hvers konar byssu banaði lögreglan manninum, gæti verið að þetta séu eins byssur og hægt er að velja í Call of Duty?

Sjálfsmyndir sjálfhverfra
Sjálfhverfa kynslóðin tók svo ógeðslega mikið af sjálfs­myndum á árinu og hélt meira að segja úti eigin hraðfréttatíma í Ríkissjónvarpinu, þar sem gamli góði eineltis­húmorinn úr Verslunarskólanum hlaut loks ríkisvottun. Hvað get ég sagt? Ég er bara lítill og nettur og fíla Gísla Rúnar og Eddu Björgvins og mögulega vandaðan frétta­flutning af erlendum fréttum og ætti því bara að þegja.

Áramótaskaupið hefur glatað öllum tengslum við sína karnivalísku fyrirmynd. Við erum hætt að nota þessar mínútur til að gera grín að valdhöfum í samfélaginu. Og viljum heldur hafa bara einn góðan grínþátt, eins og alla hina daga ársins, og gerum grín að fólkinu í landinu í staðinn. Með lágmarkskvenkvóta – auðvitað, eins og allt, alltaf, alls staðar.
Gillzenegger sneri aftur úr útlegð sinni á árinu við dynjandi lófatak. Sjónvarpsþættir hans um lífsleikni verða svo sýndir í kvikmyndahúsum á fyrsta ársfjórðungi. Loksins, loksins, segi ég. Enda eru allir búnir að gleyma því hvernig á að tala við blökkumann, koma fram við prinsessu eða stinga upp í femínista.

Á árinu dóu hugsjónir
Flugvöllurinn er á förum, hvernig sem horft er á dæmið, og Jón Gnarr líka. Eftir stendur fólk með sömu hugsjón undir nýju nafni. Stjórnmála­skýrendur kalla lista þess veikan. Líklegast af því að hann inniheldur ekki neinn pólitískan þungavigtarmann sem er lunkinn við að þrífa blóð af höndum sínum. En ég hvet fólk til að skoða listann. Þarna er skynugt og klárt fólk sem á það sameiginlegt að elska Reykjavík. Þar á meðal er konan mín og hún er algjört æði.

Á árinu dóu hugsjónir. Næstum allar. Við erum hætt að fara á íslenskar myndir í bíó. Leggjum Þjóðleikhúsið að jöfnu við fæðingardeild í Vestmannaeyjum. Grátum aura og krónur sem ganga til myndlistarmanna og rithöfunda, skerum undan Kvikmyndasjóði. Afhöfðum Ríkisútvarpið, klippum á þróunaraðstoð. En á sama tíma dælum við peningum í iðnað sem við vitum að er illa rekinn, höldum leyndófundi með útgerðinni og görgum á umhverfissinna að náttúruvernd sé allt of dýrt apparat. Hvað var þetta aftur kallað um árið, fépynd eða blackmail?

Við erum heldur ekki hætt að hugsa um hrunið. Erum eiginlega bara rétt að byrja á því núna.

Svo rekur landið alltaf fjær Evrópu. En við erum ekki að reka til helvítis, þvert á móti. Við erum á leiðinni til Bandaríkjanna og þaðan til Kína og Rússlands. Svo hugsanlega, ef það verður eitthvað bensín eftir, förum við til andskotans

Menntun og menning

Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari skrifar grein í Fréttablaðið í dag:
Margir hafa áhyggjur af ástandi menntunarmála. Lesskilningur, stærðfræðilæsi og náttúrulæsi íslenskra skólabarna fer versnandi líkt og PISA könnun hefur gefið til kynna síðustu ár. Sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug. Í samfélaginu er talað um mikilvægi þess að standa vörð um skóla- og vísindastarf. Ég er sammála því. Kennslustofnanir og menntamálayfirvöld þurfa að leita svara við því hvað er að og finna leiðir til þess að snúa þessari þróun við.

Hins vegar þarf að passa sig á því að hugsa ekki bara um menntun í samhengi prófgráða, rannsóknastiga og annarra titla. Menntun er dýpra hugtak en svo. Einn einstaklingur getur verið menntaðri en annar í einhverjum mikilvægum skilningi þótt hann hafi styttri skólagöngu að baki eða aflað sér færri rannsóknastiga í háskóla. Íslendingur sem er með doktorsgráðu í verkfræði en hefur aldrei farið á tónleika eða í leikhús, horft á kvikmyndir eða rýnt í samfélagið okkar í gegnum spegla listamanna eða annarra upplýsenda, er í einhverjum skilningi ómenntaður, skilur ekki samfélag sitt.

Samfélagsleg umræða
Menntun snýst ekki síst um að vera læs á sjálfan sig, umhverfi sitt og annað fólk. Að vera ekki mataður heldur kynna sér málin sjálfur og þroska ímyndunaraflið. Leita að svörum við spurningum lífsins, þótt þær komi e.t.v. aldrei á prófi í skólanum.

Umfangsmikil skerðing á starfsemi menningarstofnana hefur ekki bara slæm áhrif á menningarlífið heldur líka menntastigið. Það er nefnilega einmitt í slíkum stofnunum þar sem fram fer samfélagsleg umræða, tekist er á við áleitnar spurningar um lífið og tilveruna. Gagnrýnin umræða um samfélagsmál og tjáning og túlkun okkar í gegnum listköpun er bæði flutt og varðveitt. Og er því bæði fræðandi fyrir okkur í dag sem og komandi kynslóðir. Allt stuðlar þetta að ígrundaðri og upplýstari einstaklingum. Menntaðra samfélagi.

Við eigum að standa vörð um menningarstofnanir okkar. Hér hrundi fjármálakerfið og vissulega þarf að bregðast við því, sýna ráðdeild og byggja upp skilvirkara kerfi. En viðbrögð okkar við fjármálahruni mega ekki leiða til mennta- og menningarlegs hruns.

Ljótur afleikur í Efstaleiti

Eina Falur Ingólfsson , ljósmyndari og blaðamaður, skrifar eftirfarandi pistil í Morgunblaðið í morgun:

Nú er sorglegt að kveikja á Rás 1. Helgi Pétursson er mættur í þularstofu og snýr skífum milli þess sem kynntur er endurflutningur á þáttum sem minna á hvað hefur verið gert á þessum merka miðli – og hvað á að gera þar.

Rás 1 á að vera sú lifandi menntastofnun sem ég hef elst og gránað með, þar sem líf og saga þjóðarinnar, í fortíð og nútíð, er skráð og miðlað á upplýstan, fjölbreytilegan og vandaðan hátt. Rás 1 hefur hjálpað okkur að uppfylla þá grunnskyldu hvers hugsandi manns, að vita við lok dags að hann hafi lært eitthvað nýtt og þekki heiminn betur en þegar hann vaknaði.

Vitaskuld þurfa fyrirtæki og stofnanir að sýna aðhald. Ríkisútvarpið þarf að skera niður og spara eins og aðrir. En hvernig farið er að því nú er einfaldlega galið. Að segja upp helmingi starfsfólks Rás 1, sem er rekin fyrir minna en tíu prósent rekstrarfjárins, sendir út efni sem enginn annar ljósvakamiðill sinnir og er rótin í menningunarmiðlun til þjóðarinnar er óskiljanlegt og einfaldlega skammarlegt.

Það hefur valdið vonbrigðum að menntamálaráðherra skuli ekki hafa stigið fram, fyrir hönd okkar eigenda Ríkisútvarpsins, og lýst því yfir að svona geri menn ekki.

Íslensk hönnun, handverk og föndur?

Fréttablaðið birtir í morgun grein eftir Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra hönnunarmiðstöðvar:

Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um notkun þjóðfána Íslendinga á íslenskum vörum.

Í frumvarpinu er hönnun, handverki og jafnvel föndri ruglað saman eins og er nokkuð algengt hér á landi. Íslensk hönnunarvara er í frumvarpinu skilgreind sem vara hönnuð og framleidd á Íslandi. Það er ekki rétt skilgreining. Verði fumvarpið samþykkt óbreytt mun það koma í veg fyrir að flest fyrirtæki sem raunverulega selja og framleiða íslenska hönnunarvöru geti notað fánann á sínar vörur.

Hönnunarvara
Hönnunarvara er búin til af menntuðum hönnuðum sem flestir hafa háskólanám að baki. Margir hönnuðir stofna fyrirtæki, hanna vörur og láta framleiða þær fyrir sig, markaðssetja og selja. Þessar vörur eru ýmist framleiddar í verksmiðjum hér á landi eða erlendis og stundum handgerðar að hluta eða öllu leyti af handverksfólki. Handverkið sjálft er sjaldnast aðalatriði hönnunarvöru en gæði og stöðugleiki í framleiðslu eru mjög mikilvæg.

Í einhverjum tilfellum framleiða hönnuðir sjálfir sínar vörur en ástæðan er oftast sú að það er mjög erfitt að finna framleiðendur hér á Íslandi. Markmið hönnuða er yfirleitt nýsköpun, að búa til nýja hluti, finna nýjar lausnir eða leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Hugmyndin er það sem skiptir mestu máli en ekki aðferðin við framleiðslu hennar.

Aðrir hönnuðir hanna vörur og selja hugmyndir sínar til fyrirtækja sem sérhæfa sig í framleiðslu, sölu og markaðssetningu á hönnunarvörum. Í þeim tilfellum er varan stundum markaðssett sem vara eftir viðkomandi hönnuð (s.b. IKEA sem markaðssetur vörur undir nafni ákveðinna hönnuða) en stundum er varan einungis markaðssett undir nafni fyrirtækisins.

Margir hönnuðir ráða sig til starfa hjá fyrirtækjum og hanna vörur eða sérhæfða þjónustu sem seld er undir nafni fyrirtækjanna s.b. íslensku fyrirtækin Össur, 66North og Cintamani.

Handverk
Handverk er unnið af list- og iðnmenntuðu handverksfólki og fólki sem hefur sérhæft sig í ákveðnu handverki. Handverksfólk vinnur yfirleitt eitt að sínum verkum og framleiðslugetan takmarkast af afköstum hvers og eins. Handverkið sjálft er aðalatriði og aðferðin og efnið hefur afgerandi áhrif á hugmyndina sem unnið er með og útkomu hennar. Handverksfólk og hönnuðir vinna oft saman. Sumt handverk getur fallið undir skilgreininguna hönnun en flest handverk gerir það ekki.

Föndur
Föndur er það sem fólk gerir þegar það er að búa eitthvað til án þess að hafa til þess sérstaka menntun eða sérhæfða handverkskunnáttu. Flest okkar föndrum og notum þá uppskriftir eða fyrirmyndir sem við finnum í blöðum, á netinu eða annars staðar. Föndur er ekki hönnun og ekki listhandverk.

Hönnunarmiðstöð Íslands hefur gert athugasemd fyrir hönd íslenskra hönnuða og fyrirtækja á því sviði varðandi skilgreiningu á íslenskri hönnun í frumvarpinu. Einnig er gerð athugasemd við að ekki er gert ráð fyrir gæðaeftirliti vegna notkunar fánans á vörur. Miklar líkur eru á því að fáninn verði settur á vörur sem eru mjög misjafnar að gæðum. Það getur leitt til þess að hann verði ekki talinn eftirsóknarvert tákn og framleiðendur hannaðrar gæðavöru og matvæla muni alls ekki vilja nýta hann sér og vörum sínum til framdráttar.

Á Íslandi er fjöldi fyrirtækja á sviði hönnunar, íslensk fyrirtæki sem eru stolt af því að markaðssetja sig sem slík og bera þannig hróður Íslands víða um lönd. Framleiðslugeta á Íslandi er afar takmörkuð þannig að flest fyrirtæki á þessu sviði verða að leita út fyrir landsteinana eftir framleiðendum, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd mættu okkar helstu fyrirtæki á sviði hönnunar ekki nýta fánann á vörur sínar. Þar skiptir íslenskt hráefni ekki máli en framleiðslan öllu. Þetta eru fyrirtæki eins og STEiNUNN, Farmers Market, 66North, Geysir, KronKron, Vík Prjónsdóttir, Ígló&Indí, ELLA, JÖR, Færið, Bility og mörg fleiri.
Föndrari sem býr til dúkkur úr innfluttum perlum eftir fyrirmynd úr blaði gæti aftur á móti hengt íslenska fánann á þær og selt.

Hönnunarmiðstöð Íslands er í eigu Arkitektafélags Íslands, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Félags vöru- og iðnhönnuða, Leirlistafélags Íslands, Fatahönnunarfélags Íslands, Textílfélagsins, Félags íslenskra gullsmiða og Félags íslenskra teiknara.

Árásin á íslenska menningu

JKSJón Kalman Stefánsson skrifar á visir.is í dag: 
Við erum komin á undarlegan stað sem þjóð, sem samfélag, þegar það þarf að færa rök fyrir nauðsyn þess að halda úti Rás eitt; þegar við þurfum jafnvel að berjast fyrir lífi hennar. Ríkisútvarpið hóf göngu sína í desembermánuði árið 1930, þá var Ísland fátækt land, en þjóðin augljóslega rík í anda og metnaði. Það hefði áreiðanlega verið auðvelt reikningsdæmi að sýna fram á að jafn fátæk þjóð hefði ekki efni á að reka útvarp; en þau „skynsömu“ rök höfðu ekki sama aðdráttarafl árið 1930 og núna. Íslendingar virtust þá einfaldlega gera sér grein fyrir því að fátækt er ekki alltaf mæld í peningum, heldur ástandi, reisn; gerðu sér grein fyrir því að ríkidæmi þjóðar er geymt í menningu hennar.

Leiðin til fátæktar
Ríkisútvarpið hefur verið rödd þjóðarinnar í ríflega áttatíu ár. Í áttatíu ár hefur það tekið upp rödd okkar og útvarpað henni án þess að hugsa um hverjir sitja við völd; eða sett sérstaklega fyrir sig hvaða skoðanir bárust með röddunum. Rás eitt geymir þess vegna rödd þjóðarinnar, hún geymir viðtöl við löngu dáið fólk, pistla þess, hugleiðingar og sögur. Það er vegna Rásar eitt að við höfum aðgang að fortíð þjóðarinnar.

Rás eitt er því allt í senn: rödd okkar, andardráttur og minni. Hún geymir fortíðina, hún útvarpar henni, en er jafnframt stöðugt að taka upp samtíma sinn, og vista hann fyrir framtíðina. Þannig hefur Rás eitt í rúm áttatíu ár sameinað fortíð, nútíð og framtíð. Ef við klippum núna í ógæfu okkar og skammsýni á þennan þráð, verða afleiðingarnar alvarlegri en við gerum okkur grein fyrir. Við missum eitthvað mikilvægt. Og verðum fátæk þjóð.

Árin eftir hrun hafa verið dapurleg fyrir íslenska fjölmiðla, einkum fyrir dagblöðin sem hafa aldrei verið jafn rýr, undirmönnuð, og/eða í eigu harðra hagsmunaafla. Gagnrýnin umræða hefur liðið mjög fyrir það, sem eru alvarleg tíðindi fyrir lýðræðið; því minni og grynnri umræða, því veikara lýðræði.

Ríkisútvarpið hefur verið ljósið í fjölmiðlaumhverfinu, báðar rásirnar, en ég nefni núna sérstaklega Rás eitt með sinn Spegil, sína pistlahöfunda í þáttum á borð við Víðsjá. Við vitum hins vegar að innan núverandi ríkisstjórnarflokka hefur lengi gætt töluverðs óþols gagnvart gagnrýninni umræðu Ríkisútvarpsins; lengst hefur þó þingmaður Framsóknar, og formaður hagræðingarhópsins, Vigdís Hauksdóttir, gengið. Það er því miður óþægilega mikill samhljómur milli hótana hennar í garð RÚV og niðurskurðanna miklu; sem vekur upp ónotalegar grunsemdir um að þeir sem nú stjórna landinu líði illa aðrar skoðanir en sínar. Og refsi þeim sem halda uppi sterkri gagnrýni.

Hin vanhelga þrenning?
Þrátt fyrir erfiða tíma eftir hrun höfum við haft gæfu til að halda úti fjölradda útvarpi sem hefur rúmað allar skoðanir, og boðið upp á óteljandi þætti um tónlist, þjóðfræði, heimspeki, garðrækt, viðtöl við fólk, þætti fyrir börn; fjölradda útvarp mannað starfsfólki með brennandi metnað. Eru þeim tímar virkilega liðnir?

Íslands óhamingju verður allt að vopni; ríkisstjórnarflokkarnir virðast alls ekki skilja ábyrgð okkar hér og nú gagnvart íslenskri menningu – og það sama gildir því miður um sjálfan útvarpsstjórann, Pál Magnússon. Þessi þrenning, flokkarnir tveir og Páll, skilja ekki, eða loka þá augunum fyrir því, að ef við sinnum ekki íslenskri menningu af fullum þunga, þá dofnar hún með ófyrirséðum afleiðingum fyrir framtíðina. Íslensk menning er sterk, en hún lifir samt ekki nema henni sé sinnt af alúð og krafti. Mikill niðurskurður og gróf aðför gagnvart Ríkisútvarpinu eru ekkert annað en árás. Rás eitt hefur í áttatíu ár verið hryggjarstykki í íslenskri menningu. Árás á Rás eitt er því einfaldlega árás á íslenska menningu.

Ríkisútvarpið í tröllahöndum

Fréttablaðið birti í morgun þessa grein eftir Guðmund Andra Thorsson:

Ríkisútvarpið er í tröllahöndum. Því er stjórnað af mönnum sem telja þátt með risastæðum af peningum sem fólk tilbiður og tapar smám saman eiga meira erindi við þjóðina en gjörvalla dagskrá rásar eitt. Því er stjórnað af mönnum sem hlusta ekki á útvarp, vita ekkert um útvarp, hafa aldrei unnið við útvarp – er í nöp við útvarp; tóku að minnsta kosti orðið „útvarp“ úr nafni stofnunarinnar til að þurfa ekki að heyra eða sjá þetta voðalega orð sem er næstum jafn ljótt og hitt orðið: „Ríkis-“. Því er stjórnað af mönnum sem fá svo margar milljónir í kaup sjálfir að þeim finnast fimm milljónir vera smáaurar sem ekkert munar um „í stóra samhenginu“. Fyrri forsendan að atlögunni er sú að Íslendingar séu svo fátæk þjóð að þeir hafi ekki efni á menningarstarfsemi. Hún er röng. Önnur forsendan er sú að Ríkisútvarpið fá svo litla peninga að það hafi ekki efni á að rækja lögboðið menningarhlutverk sitt. Hún er líka röng.

Þó að atlagan að rás eitt hafi virst illa undirbúin og verði lengi í minnum höfð fyrir vonda útfærslu þá hefur hún lengi staðið fyrir dyrum; kannski frá fyrstu dögum Páls Magnússonar í starfi. Það fór furðu lágt, en í tíð síðustu stjórnar Ríkisútvarpsins kom til mikilla átaka milli hennar og útvarpsstjóra vegna áforma hans um stórfelldan niðurskurð á rás eitt. Þau áform voru stöðvuð af þáverandi stjórn – að sinni – en umsvifalaust tekin fram á ný þegar kominn var til valda stjórnarmeirihluti sem deilir þeim skoðunum Páls Magnússonar að í niðurskurði þurfi fyrst og fremst að hlífa yfirstjórn Ríkisútvarpsins og skrifstofu útvarpsstjóra en minni þörf sé á dagskrárgerðarfólki.

Sprengju varpað
Í síðustu viku var sprengju varpað á Ríkisútvarpið. Hending virtist ráða hvar hún lenti nákvæmlega og hverjir urðu fyrir henni. Þú ert rekinn – ekki þú; snáfaðu burt undireins – þú mátt vera ögn lengur; farðu – vertu. Fólk var rekið með skít og skömm eftir jafnvel áratuga starf sinnt af trúmennsku. Skilið var við stofnunina í rjúkandi rúst. Síðan hafa dagarnir liðið með neyðarráðstöfunum og skyndireddingum: þulir horfnir og í snarhasti ráðnir nýir til að fylla upp í skarðið, þótt góðir þulir sitji heima á biðlaunum, burtreknir.

Hvernig skyldi fara með jólakveðjurnar ástsælu? Ætli þær verði spilaðar frá því í fyrra? Eða kannski að útvarpsstjórinn lesi þær sjálfur – fyrir sanngjarna þóknun?

Ríkisútvarpið býr við fjandsamlegan ríkisstjórnarmeirihluta sem telur nokkuð skorta á auðsveipni starfsfólks stofnunarinnar gagnvart sér og finnst ástæða til að refsa henni með því að skerða lögbundna tekjustofna. Í stað þess að berjast gegn þessum áformum eða bíða þess sem kæmi út úr vinnu við fjárlög neytti útvarpsstjóri færis við að losa sig við öfl innan stofnunarinnar sem honum voru ekki að skapi, og lama Rás eitt til langframa.

Hlutverk ríkisútvarpsins
Hann segir að það þurfi að spara. Sjálfur hefur hann fengið um eina og hálfa milljón króna í mánaðarlaun en þótti sú upphæð ekki endurspegla sitt mikla framlag og óeigingjarna starf og sótti með harðfylgi „leiðréttingu“ upp á tæpar fimm milljónir, sem hann segir ekki skipta máli „í stóra samhenginu“; en skiptir eflaust máli fyrir hann persónulega í forstjóramannjöfnuðinum á bökkum laxveiðiánna. Á milli áranna 2012 til 2013 jukust heildarlaun og þóknanir til æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins úr 57,8 milljónum í 74,6 milljónir. Samkvæmt ársreikningi 2012 fóru rúmlega 260 milljónir í yfirstjórn Ríkisútvarpsins, skrifstofu útvarpsstjóra, stjórn stofnunarinnar og fjármálaskrifstofu. Enginn niðurskurður er áformaður á þeim vettvangi.

Til hvers er Ríkisútvarpið? Því er fljótsvarað: til að búa til útvarp. Það er spegill og vettvangur þjóðlífsins. Það er rannsóknarstofnun og háskóli. Það er skemmtun og ferðalag. Það er við. Það er samsett úr ótal röddum, þar heyrist í fiskvinnslufólki og lögfræðingum, þungarokkurum, kokkum og vísindamönnum, grínistum, garðyrkjumönnum og langferðabílstjórum. Það er tólftónatónlist og harmonikka og teknó. Það er heilbrigðisstofnun og gömlu fólki ómetanlegur félagsskapur. Það er þekkingarstöð, listræn starfsemi, flipp og dánarfregnir og jarðarfarir. Það er veðurskipið Metró og hæð yfir Grænlandi, passíusálmalestur og niður aldanna. Það er hefð og saga. Það er nærvera í lífi okkar, hljóðtjöldin kringum atburði dagsins. Þar er stjórnmálamönnum sýnt tilhlýðilegt tillitsleysi. Þar eru svipmyndir af menningarstarfsemi þjóðar, sögu þjóðar, sögu einstaklinga, sögu hugmynda, þar eru fundir og mannfagnaður, þar er músík sem okkur hafði ekki einu sinni dreymt um að væri til. Þar eru fréttir dagsins og tilkynningar þegar mikið liggur við; þar eru íþróttaviðburðir og sinfóníutónleikar. Þar segir fólk frá hugðarefnum sínum og deilir með okkur sérþekkingu sinni þannig að við skiljum. Þar streymir fróðleikur og þekking. Þar er samfella í samveru þjóðar. Þar er súrefnið í andlegu lífi okkar.

Ríkisútvarpið er vettvangur skoðanaskipta í samfélaginu. Enginn á það annar en við, ég og þú – ekki stjórnmálaflokkarnir hversu sem þeir reyna og ekki einu sinni milljónafélagið á fimmtu hæð útvarpshússins. Starfsfólkið hefur engum svarið trúnaðareiða öðrum en hlustendum, sjálfum eigendum ríkisútvarpsins, þjóðinni, okkur.

Þegar Páll Magnússon fékk að vita að nú þyrftu stórfelldar uppsagnir að eiga sér stað hefði hann fyrst af öllu átt að afsala sér að minnsta kosti helmingi launa sinna í stað þess að fá „leiðréttingu“ upp á fimm milljónir. Svo hefði hann átt að svipast um á hæðinni sinni, 260 milljóna hæðinni sinni, og hugleiða hvort þar mætti ekki fækka silkihúfum í stað þess að ráðast að því fólki sem raunverulega framleiðir efni og sinnir þannig raunverulegum skyldum þessarar stofnunar sem við eigum – ekki hann.

Röddin okkar

Listamenn skrifa skrifa grein í Fréttablaðið í dag í tilefni uppsagna á Ríkisútvarpinu, sem tilkynnt var um í fyrradag: 

Þjóðin á sér rödd. Sú rödd er ekki ómþýð. Eina stundina minnir hún á stamandi unglingspilt í mútum, þá næstu á langþreytta kerlingu með reykingahósta. Stundum minnir hún á hikstandi smástelpu, augnabliki síðar á örvæntingarfullan tenór. Hljómur hennar er margradda. Þannig verður það að vera, öðruvísi getur þjóðin ekki átt sér rödd. Forsenda þess að röddin fái að hljóma í öllum sínum blæbrigðum, þessum kraftmikla lífsþorsta, er að hér á landi sé rekið öflugt ríkisútvarp með reynsluríku dagskrárgerðarfólki. Aðeins þannig er hægt að tryggja að röddin sé sönn.
Nú á að lækka rostann í þessari hljómmiklu rödd. Blóðtakan hjá RÚV er svo yfirgengileg að það er engu líkara en það eigi að gelda allan kórinn, þessa þrætugjörnu en þó líflegu þjóð. Það er verið að þvinga röddina þannig að hún verði hjómið eitt. Við þessar aðstæður verður að teljast ólíklegt að RÚV geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem skyldi. Það er svo hátt reitt til höggs að afleiðingarnar verða tæpast afturkræfar.

Það er ekki að ástæðulausu að rúm 50% þjóðarinnar treysta RÚV (samanborið við 16% traust á Alþingi eða 14% traust á öðrum fjölmiðlum samkvæmt könnun MMR í október). Landsmenn treysta RÚV af því að þar vinna starfsmenn af heilindum og ástríðu. Það sækir enginn um að vinna við dagskrárgerð eða á fréttastofu til að verða ríkur eða til að þjóna hagsmunum fárra.

Nú eru slegnar sprungur í Spegilinn á Rás 1 og Kastljós sjónvarps þarf að lýsa landsmönnum veginn með sífellt færri perum. Kona ein veitti lesendum Smartlands Mörtu Maríu eitt sinn það fegrunarráð að slökkva ljósið. Það er engu líkara en ríkisstjórn Íslands hafi tekið þetta til sín.
Það lítur út fyrir að Tónlistardeild Rásar 1 verði vart starfandi eftir þessa uppsagnahrinu, okkur telst til að nú starfi 2,4 starfsmenn á deildinni. Svo virðist einnig sem barnaefni í útvarpi hafi verið slegið af þar sem báðir dagskrárgerðarmenn Leynifélagsins eru í hópi þeirra sem var sagt upp – og þannig mætti lengi upp telja.

Dagskrárgerðarfólk RÚV á stóran þátt í sköpun menningar dagsins í dag, en auk þess varðveitir RÚV menningararf síðustu 70 ára og heldur honum lifandi. Útvarpsperla er réttnefni fyrir þá dagskrárliði. Vegna RÚV hafa landsmenn í senn getað litið um öxl og horft fram á veginn; en nú á að sjá til þess að okkar tími verði eyða í safni útvarpsins. Þetta er svartur dagur. Er hann virkilega kominn?

Við neitum að trúa að þetta sé óhjákvæmileg forgangsröðun á fjárlögum. Við neitum líka að trúa að stjórn Ríkisútvarpsins hafi ekki getað forgangsraðað hlutunum á annan hátt en raun ber vitni. Hvað er mikilvægara en að fjárfesta í dagskrárgerðarfólki með ómetanlega reynslu? Er einhver skynsamleg skýring á þessu? Nei, segjum við. Nei. Kannski er munurinn á þjóðmenningu og menningu sá að í þjóðmenningunni felst það eitt að vera með íslenskt vegabréf á meðan menningin er það sem fólk gerir vel. Það er verið að segja okkur að við höfum ekki efni á því lengur.

Víkingur Heiðar Ólafsson
Auður Jónsdóttir
Jón Kalman Stefánsson
Kristín Ómarsdóttir
Andri Snær Magnason
Guðrún Eva Mínervudóttir
Ingi Björn Guðnason
Eiríkur Örn Norðdahl
Vigdís Grímsdóttir
Lísa Kristjánsdóttir
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Sigurbjörg Þrastardóttir
Rannveig (Gagga) Jónsdóttir
Birna Anna Björnsdóttir
Eiríkur Guðmundsson
Þórarinn Leifsson
Ragna Sigurðardóttir
Kristín Eiríksdóttir

 

Öllum til vegsauka

Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður og framkvæmdastjóri ÚTÓN skrifar grein í helgarblað Fréttablaðsins:
Í nýframlögðu frumvarpi til fjárlaga kemur fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fella niður fjárfestingaráætlun í skapandi greinum, sem komið var á fót á síðasta ári, einkum í formi smærri sjóða.

Tónlistarsjóður mennta- og menningarmálaráðuneytis var og færður til móts við verðlagshækkanir úr 43 milljónum í 86 milljónir. Þá var komið á fót afar mikilvægum, en hófstilltum 20 milljóna króna útflutningssjóði. Þessar aukningar hafa verið teknar af dagskrá.

Aftur til fortíðar?
Þetta er miður í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í útflutningi íslenskrar tónlistar á síðustu árum en nú stefnir í liðlega 100% aukningu á tónleikahaldi íslenskra tónlistarmanna á erlendri grundu milli áranna 2012 og 2013. Alls voru 720 tónleikar haldnir árið 2012 en eru nú komnir yfir 1024 tónleika það sem af er árinu 2013. Þetta er mikill vöxtur. Vaxtarbrodds íslenskrar tónlistar er helst að vænta að utan, þar sem innanlandsmarkaður er einfaldlega of lítill.

Þess utan skapar allur þessi útflutningur tónlistar afleiddan arð í formi kynningar á landinu til ferðamennsku og upplifunar.
Heildarframlag ríkisins til útflutnings tónlistar nemur í dag aðeins um 40 milljónum króna sem er mjög lág tala miðað við aðrar atvinnugreinar. Að óbreyttu mundi sú upphæð lækka um helming sem væri afar dapurleg lokaniðurstaða.

ÚTÓN vinnur að útflutningi á íslenskri tónlist og styrkingu íslenskra tónlistarhátíða og á IA sem annast rekstur Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar sem veltir rúmum milljarði í hagkerfinu á innan við viku í byrjun nóvember á ári hverju.

Efling annarra tónlistarhátíða á Íslandi, m.a. til markaðssóknar á mið erlends tónlistaráhugafólks er forgangsmál í menningartengdri ferðaþjónustu. Þar ber að byggja á þeirri reynslu sem fyrir er hjá Iceland Airwaves og nýta má frekar til að hjálpa öðrum tónlistarhátíðum að nálgast hinn tónlistarþyrsta ferðamann, en slíkum fer stöðugt fjölgandi.

Tónlistin og aðrar skapandi greinar hafa reynst afar vel til þess að bæta ímynd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi eftir hrun og hefur það vakið heimsathygli að hér hafi verið hlúð sérstaklega að listum til að byggja samfélagið upp að nýju.

Mannleg mistök? 
Skapandi greinar hafa vaxið mjög á undanförnum árum og því er illskiljanleg með öllu sú fyrirhugaða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að kippa til baka jafn smáum fjárfestingum í geirum sem skapa jafn mikinn vöxt og raun ber vitni. Til að endurgreiða megi skuldir þjóðarinnar verður að hlúa að þeim atvinnugreinum sem best virðast dafna á eigin forsendum.

Útflutningur tónlistar er afar mikilvægur hlekkur í stækkandi keðju íslenskra atvinnugreina sem skapa verðmæti og gjaldeyristekjur án mengunar eða fórna náttúruverðmæta og eiga að auki stóran þátt í að efla þjóðartekjur á vettvangi ferðaþjónustu. Að strika fyrirvaralaust út þá hóflegu fjárfestingar sem í greinina fara eftir áralanga tilvistarbaráttu væri vísbending um alvarlegan skort á heilbrigðri, nútímalegri framtíðarsýn.

Slíkt væri fljótlegt og auðvelt að leiðrétta, öllum til vegsauka.

Page 3 of 712345...Last »