Fréttir

Aðalfundur Bandalagsins

Yfir fimmtíu manns sátu aðalfund Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 31. janúar 2009. Að loknum aðalfundarstörfum var haldið málþing um listamenn á krepputímum. Framsöguerindi héldu Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor, gjarnan nefndur Goddur, og Haukur F. Hannesson, listrekstrarfræðingur. Þau má lesa undir Greinar.

Þar má ennfremur finna ársskýrslu forseta.

 

(Ársskýrsla forseta er hér.)

(Erindi Guðmundar Odds Magnússonar er hér.)

(Erindi Hauks F. Hannessonar er hér.)

 

Listamaðurinn á krepputímum

Haukur F. Hannesson:

Framsöguerindi flutt á málþingi Bandalags íslenskra listamanna 31. janúar 2009 í Skíðaskálanum í Hveradölum

 

Á þeim umbrotatímum sem við lifum á er athyglisvert að velta fyrir sér hvar listamaðurinn er staddur í öllu umrótinu.  Hvaða stöðu eða hlutverk hefur hann í kreppunni ef staða hans hefur þá einhvern hátt breyst við umrót hins ytri veruleika.

Sömuleiðis er hægt að velja sér mismunandi sjónarhorn til að skoða listamanninn á þessum tímum.  Ég gæti persónulega valið að skoða hann úr nafla listamannsins sjálfs, frá sjónarhorni tónlistarmannsins – sellóleikarans. Ég gæti líka valið mér sjónarhorn fræðimannsins, doktorsins í listrekstrarfræði og menningarstjórnmálum og frá þeirri stöðu greint og gagnrýnt aðgerðir eða aðgerðaleysi, stefnu eða stefnuleysi. Síðan gæti ég reynt að setja listamanninn í kreppunni í samhengi við hinn víða heim opinberrar menningarstefnu og hvaða áhrif kreppan getur mögulega haft á þessa opinberu stefnu. Ég get líka valið mér sjónarhorn liststjórndans, þess sem rekur listastofnun og missir svefn vegna þeirra slæmu fjárhagslegu áhrifa sem kreppan hefur á rekstur stofnunarinnar.

 

Sjónarhorn liststjórnandans.

Ég er nýfluttur aftur til Íslands eftir fimmtán ára búsetu erlendis.  Í störfum mínum í Svíþjóð, m.a. sem framkvæmdastjóri tveggja atvinnuhljómsveita, var ég ekki allskostar ókunnugur kreppu og því andlega og fjárhagslega ástandi sem hún færir.

Það reið bankakreppa yfir Svíþjóð árið 1992 sem hafði víðtæk áhrif á sænskt þjóðfélag.  Allt í einu urðu kjörnir fulltrúar landsins að setja sig í kreppustellingar og gera grundvallarbreytingar á ýmsum þáttum þjóðlífsins, sérstaklega þeim þáttum þar sem hið opinbera hafði borgað brúsann.  Mikill niðurskurður átti sér stað í ríkisfjármálum og á nokkrum árum voru útgjöld hins opinbera skorin niður um tugi prósenta.  Þetta hafði líka áhrif á listir og menningarstarfsemi, en þó, þegar upp er staðið og litið er yfir síðustu fimmtán ár eða svo, kemur líka í ljós að á mörgum stöðum varð líka athyglisverð nýsköpun.

Ég gegndi undir lok þessa niðurskurðartíma starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle.  Gävle er u.þ.b. 90.000 manna borg rétt rúmlega 200 km fyrir norðan Stokkhólm.  Atvinnulíf borgarinnar hefur alltaf einkennst af fáum stórum verksmiðjum og öðrum stórfyrirtækjum þar sem stór hluti borgarbúa hefur haft atvinnu sína.  Fjöldi ófaglærðra starfsmanna hefur verið mikill og ekki hefur verið mikill áhugi á því að sækja æðri menntun, þar sem auðvelt var að feta í fótspor kynslóðarinnar á undan og byrja afla tekna í verksmiðjunni á unga aldri.

 

Bygging tónlistarhúss í miðjum niðurskurði

Gävle á þó sína eigin sinfóníuhljómsveit sem var stofnsett árin 1911.  Þar var þó ekkert tónlistarhús og hélt hljómsveitin tónleika sína í leikhúsi borgarinnar, gamalli fallegri byggingu með afleitum hljómburði fyrir tónlist.  Þegar kreppan fór að gera vart við sig á tíunda áratug síðust aldar ræddu sveitarstjórnrmenn og aðrir góðir borgarar í Gävle, svo og stjórnmálamenn á landsvísu, hvernig hægt væri að bregðast við þeim aðstæðum sem upp voru komnar.  Eitt var talið nauðsynlegt:  Þrátt fyrir að mikill niðurskurður yrði á mörgum sviðum þjóðlífsins var talið mikilvægt að ekki yrði niðurskurður til menntamála og að niðurskurður til menningarmála yrði ekki of mikill.

Í Gävle voru framlög til Háskólans í Gävle aukin mikið og fjölgaði nemendum úr tvö þúsund í sex þúsund á tíunda áratugnum.  Sérstaklega var lögð áhersla á að ná til þeirra sem hætta var á að yrðu atvinnulausir þegar bankakreppan gerði það að verkum að stórar verksmiður og vinnustaðir í borginni voru lagðir niður eða starfsemi þeirra flutt til útlanda.  Með þessu tókst að auka hlut æðri menntunar og gera hana sjálfsagðari kost fyrir ungt fók í Gävle.  Áhrif þessar stefnu eru enn að koma fram í fjölgun sprotafyrirtækja, í nýsköpun og meiri fjölbreytni í atvinnulífi borgarinnar.

Hitt sem gert var í Gävle var að þar var byggt tónlistarhús.  Miklar deilur stóðu um byggingu þess og héldu margir því fram í  fjölmiðlum að hér væri verið að leggja peninga í dekurverkefni og minnisvarðabyggingu stjórnmálamanna, algerlega ónauðsynleg útgjöld sem betra væri að nota til félagslegra útgjalda svo sem heilsugæslu.  Sveitarstjórnarmenn héldu þó ótrauðir áfram með bygginguna og töldu hana vera nauðsynlega fjárfestingu í framtíð borgarinnar.

 

Fjárfesting í menningarlegu burðarvirki borgar sig

Það kom líka í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér.  Skyndilega komst þessi iðnaðarborg, sem einu sinni var valin leiðinlegasta borg Svíþjóðar af einu dagblaðanna, á kortið fyrir alvöru.  Stjórnmálaflokkar landsins sóttust eftir því að halda landsfundi sína í tónlistarhúsinu og Gävle fékk mikla auglýsingu og eftirtekt um allt land.  Sinfóníuhljómsveit Gävle flutti inn í húsið og var upp frá því önnur hljómsveit.  Nú sköpuðust skilyrði fyrir listrænum vexti hljómsveitarinnar sem ekki höfðu verið fyrir hendi áður. Enda varð mikill vöxtur.  Áheyrendum á tónleika hljómsveitarinnar fjölgaði um helming og hljómsveitinni var boðið í tónleikaferð til Hollands þar sem hún vann mikinn listsigur með glæsilegum tónleikum í tónleikahöllinni Concertgebow í Amsterdam.  Engum hefði dottið í hug nokkrum árum fyrr að bjóða þessari héraðshljómsveit frá Svíþjóð í slíka ferð.  En nú voru afleiðingar hins nýja tónlistarhúss, hinnar nýju aðstöðu listamannanna, að koma í ljós og það var ekki sama hljómsveit sem kom heim og sú sem fór.  Hið listræna sjálfstraust var miklu meira og ekki dró úr að ég lét hljóðrita tónleikana og gefa út á geisladiski.  Sá geisladiskur varð til þess að ég náði samningum við hljómplötufyrirtækið Naxos i Hong Kong um að hljómsveitin léki inn á nokkra geisladiska.  Það varð enn frekar til þess að hvetja tónlistarmennina til dáða.

Allt þetta gerðist undir áhrifum þeirrar kreppu sem leiddi til mikils niðurskurðar í fjármálum ríkis og sveitarfélaga.  Vissulega var framkvæmdastjóranum ekki svefnsamt þegar stórar fjárhæðir vantaði til að endar næðu saman og neyðarlausnin var að hann stóð á sviðinu fyrir framan áheyrendur á tónleikum og stóð fyrir samskotum meðal tónleikagesta í plastruslafötur skrifstofu hljómsveitarinnar til að eiga fyrir Hollandsferðinni!

En þetta var allt þess virði, vegna þess að þrátt fyrir kreppu varð hljómsveitin betri, tónlistarmennirnir ánægðri og áheyrendur himinlifandi.

Svona getur bygging tónlistarhúss á krepputímum haft góð áhrif. Það er vonandi að íslensk stjórnvöld hafi þá framtíðarsýn að byggingu tónlistarhússins okkar verði að ljúka sem fyrst, til gagns fyrir alla landsmenn.

 

Fræðimaðurinn

Nú hoppa ég úr hlutverki liststjórnandans og yfir í hlutverk fræðimannsins sem horfir á kreppuna utanfrá og reynir að setja menningarstefnu, listastofnanir og listamanninn sjálfan í samhengi akademískrar greiningar.

Menning og listir eru í stöðugu samspili við umhverfi sitt.  Í þessu samspili eru þeir sem njóta listsköpunar sem áheyrendur, áhorfendur eða lesendur nauðsynlegur mótaðili listamannsins hvort sem að starf hans er stundað í kreppu eða góðæri.  Annar mótaðili listamannsins er hið opinbera og hvernig það kemur að stefnumótun í listum og listfræðslu og hvernig fjárveitingum til lista er háttað frá einum tíma til annars.  Þriðji mótaðili listamannsins er velgjörðamaðurinn eða kostarinn, sem helst lætur kræla á sér í góðæri þegar peningar eru afgangs í rekstri fyrirtækja. Hér er því um að ræða samspil listamanns og hins almenna markaðar, samspil listamanns og stjórnvalda en einnig samspil listamanns og athafnamannsins í hlutverki kostarans.

Í heiminum eru til mismunandi menningarstefnulíkön sem hvert um sig hafa mótast útfrá pólitískri og menningarlegri hefð mismunandi landa og heimshluta.  Gerð og eðli menningarstefnu innan þessa mismunandi menningarstefnulíkana getur verið mjög mismunandi.  Það er því mikilvægt fyrir fræðimanninn á þessu sviði að spyrja ekki bara hvort menningarstefna stjórnvalda sé til heldur hvers eðlis hún sé.  Hér getur fræðimaðurinn sótt skemmtilegar aðferðir í smiðju stefnumótunarfræða opinberrar stjórnsýslu, í hagrannsóknir og viðskiptafræði til að bregða ljósi á það umhverfi sem listum og menningu, og þar með talið listamanninum sjálfum er búið.  Hægt er að reikna út þær tekjur sem þjóðfélagið hefur af list og menningu,  hægt að sjá hvers konar fyrirkomulag á rekstri listastofnanna gefur bestan listrænan árangur svo og hvernig þjóðfélagið getur skapað góðar forsendur fyrir list og listamenn og þar með stutt við sína eigin framtíð og lífsgæði þegnanna.

 

Listamaðurinn í góðæri

Það sem er skemmtilegast í þessum vangaveltum að menn verða aldrei á eitt sáttir um hvernig á að gera hlutina. Gagnvart listunum finnst sumum að í gangi sé algert stefnuleysi og kaos á meðan öðrum finnst allt of niðurnjörvað og heftandi í hinni opinberu stefnu.  Hér er hægt að gera athyglisverða úttekt og greiningu á stöðu listamannsins í kreppu og kannski ekki síður á stöðu og hlutverki listamannsins í góðæri.  Það er kannski alveg eins rík ástæða fyrir Bandalag íslenskra listamanna að efna til málþings um listamanninn í góðæri.  Hvaða áhrif hafði góðærið á listamanninn og listina?  Var góðærið til góðs fyrir listina og þá sem hana stunda?  Eða urðu menn of bjartsýnir og roggnir með sig og verða eins og stjórmálamenn og bankafólk að leggjast í naflaskoðun til að greina hvar eða hvort listamaðurinn lenti á villigötum á meðan á veislunni stóð?

Menningarstefna á krepputímum er sérstaklega athyglisvert umfjöllunarefni.  Ég kom áður að því hvernig sveitarstjórnarmenn í borginni Gävle í Svíþjóð leystu sín mál í sinni kreppu og víst er að forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig þessi mál þróast hér á landi á næstu mánuðum og árum.

 

Hver er listamaðurinn í kreppunni?

Að lokum sjónarhorn listamannsins sjálfs.

Listamaðurinn í kreppunni er í raun hinn sami og listamaðurinn í góðærinu. Hann lítur lögmálum sama listræna handverks, innsæi og innblásturs hvort sem um er að ræða góða eða slæma tíma. Það tekur mig jafn langan tíma að æfa verk á sellóið til að spila á tónleikum núna í kreppunni eins og það gerði það í góðærinu.

Kreppan getur þó haft þau áhrif að möguleikar listamannsins til að stunda og ná árangri í list sinni minnka, sérstaklega þar sem ástundun listarinnar er samofin efnahagsþáttum hins fallvalta þjóðarbús.  Kreppan heftir þar með möguleika listamannsins á samskiptum við umhverfi sitt, alla vega þegar till skamms tíma er litið.

Það er hins vegar listamanninum og yfirvöldum nauðsynlegt á slíkum tímum að haft stærri sýn en bara þá sem sér kvöl stundarinnar.  Listirnar og listamennirnir verða líka að vera til á morgun, næsta ár og næstu áratugi.  Þess vegna verða listamennirnir og samtök þeirra að benda á leiðir til að listin geti lifað áfram í breyttu þjóðfélagi.  Hinn menningarlegi infrastrúktúr eða burðarvirki menningarinnar, ef svo má að orði komast, gegnir hér mikilvægu hlutverki og það má ekki brjóta niður. Það verður að ljúka við byggingu tónlistarhússins til að tónlistin fái að vaxa, listaskólarnir verða að halda áfram að mennta listamenn framtíðarinnar og Lánasjóður íslenskra námsmanna verður að halda áfram að lána námsmönnum í listnámi þó að það sé kreppa í landinu.

Listamaðurinn verður að vera til staðar bæði í kreppu og góðæri.   Það er þörf fyrir listamanninn til að skapa þjóðfélagi þá sjálfsmynd og speglun sem nauðsynleg er til að geta talist þjóð og til þess að eiga framtíð.  Það er þörf fyrir listamanninn til að ögra og kalla fram breytingar. En það er líka þörf fyrir hið síkvika samspil listarinnar og þess umhverfis sem hún endurspeglar og hrærist í. Samtalið milli listar og þjóðfélags er forsenda þess að bæði list og þjóðfélag geti verið til.

 

========

Haukur F. Hannesson er sellóleikari, tónlistarkennari og listrekstrarfræðingur.  Hann lauk einleikara- og kennaraprófi frá Guildhall School of Music and Drama í London og síðar meistara- og doktorsprófum í listrekstrarfræði og menningarstjórnmálum frá City University í London.  Haukur starfaði sem sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, skólastjóri Suzukitónlistarskólans í Reykjavík, framkvæmdastjóri Kammerhljómsveitarinnar í Sundsvall í Svíþjóð og síðar framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle.  Síðustu árin hefur hann starfað sem aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskólann í Nacka í Svíþjóð og stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hann kennir menningarstjórnun í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu.  Haukur er formaður Evrópska Suzukisambandsins og Alþjóða Suzukisambandsins.

 

Ályktanir aðalfundar BÍL 31.janúar 2009

1. Ályktun um starfslaun listamanna

Eftir áralanga baráttu fyrir leiðréttingu á starfslaunum íslenskra listamanna var, undir lok sl. árs, að frumkvæði menntamálaráðuneytisins, efnt til samráðsfunda í sérskipuðum starfshópi, sem í sátu fulltrúar stjórnar listamannalauna, fulltrúar menntamálaráðuneytis og fulltrúar Bandalags íslenskra listamanna. Vinna þessa fólks skilaði mikilvægum sameiginlegum niðurstöðum.

Fallist var á fjölgun listamannalauna úr 1200 mánaðarlaunum í 1600, auk leiðréttinga á viðmiðunarmörkum. Rétt er að geta þess að lögum samkvæmt ber að endurskoða listamannalaun á 5 ára fresti, en fjöldi mánaðarlauna hefur staðið í stað síðan árið 1991 og breyting því löngu tímabær.

Bandalag íslenskra listamanna býður nýjan menntamálaráðherra velkominn til starfa, óskar honum velfarnaðar í starfi og skorar jafnframt á hann að beita sér tafarlaust fyrir  fullnaðarfrágangi, framlagningu og gildistöku þessa mikilvæga lagafrumvarps .

 

2. Ályktun um atvinnuöryggi listamanna

Bandalag íslenskra listamanna minnir á að árið 2009 er ár sköpunar og nýbreytni í Evrópu. Hugvit og sköpunargáfa verður æ hærra metin, jafnt í listum sem sprotafyrirtækjum.

Hins vegar fer atvinnuleysi vaxandi um þessar mundir. Verkefnastaða listamanna er orðin verulega slæm líkt og margra annarra, verkefni daga uppi þar sem vandasamt reynist að fjármagna þau. Fjölmargir listamenn eiga því erfitt með að skapa sér og öðrum atvinnu lengur. Við munum ekki heyra tölur af hópuppsögnum þar sem listamenn reka sig flestir sjálfir, en atvinnuleysið í þessum geira er að stóraukast, og er það mikið áhyggjuefni.

Því er rétt að benda á að litla fjárfestingu þarf til að viðhalda störfum í menningu og listum miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Menning og listir leggja til 4% af landsframleiðslu og standa fyrir kraftmiklu og fjölbreytilegu menningarlífi sem ber á viðsjárverðum tímum út hróður lands og lýðs um heim allan, auk þess sem menning og listir eru í auknu mæli notuð til þess að endurreisa og endurnæra samfélög með góðum árangri.

BÍL hvetur öll stjórnvöld til að hafa þetta í huga. Sérstaklega er því beint til sveitarstjórna að standa vörð um fjárveitingar til menningarráða.

 

3. Ályktun um Tónlistarhús

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld, ríki og borg, að halda áfram byggingu Tónlistarhúss og ljúka því verki svo fljótt sem auðið verður. Tónlistarhúsið verður hornsteinn tónlistar og menningar á Íslandi og mun skapa atvinnu og styrkja ímynd þjóðarinnar. Með byggingu hússins tryggjum við best listræna sigra og framsókn um ókomna tíð.

 

 

Samráðsnefnd Menntamálaráðuneytis

Menntamálaráðuneytið hefur haft frumkvæði að samráðshópi sem fjalla skal um ástand lista og menningar á tímum kreppu. Af hálfu BÍL voru Ágúst Guðmundsson og Björn Th. Árnason kjörnir til að taka þátt í þessu starfi. Fyrsti fundurinn var haldinn 22. desember.

Listakreppa? Ónei!

Ágúst Guðnundsson:

 

Helgin hófst á leiksýningu: Utan gátta eftir Sigurð Pálsson. Fjórir toppleikarar fóru á kostum í meitluðu leikriti í frumlegri umgjörð undir stefnufastri leikstjórn. Ég hugsaði með mér: ef þetta er ekki útrásarverkefni, þá veit ég ekki hvað er.

Daginn eftir voru hádegistónleikar hjá Hljómeyki. Verk fjögurra íslenskra tónskálda sungin yfir svolítið undrandi, en jafnframt fagnandi hausamótum í Hafnarfirði. Allt unnið af fagmennsku, ég leyfi mér að nota orðið atvinnumennsku, þó að ég gefi mér það að vinnulaun hafi verið takmörkuð og í langflestum tilfellum engin.

Á þriðjudagskvöldið slæddist ég svo inn á bar á Klapparstígnum þar sem leikin var tónlist frá síðustu öld. Allir textar sungnir á íslensku, nema einn. Hæst bar klassík Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Undir stórasteini.

Í blöðunum birtust ádrepur rithöfunda, fyrst frá Einari Má, svo frá Kristínu Marju, og fólkið las og sagði: Eins og talað út úr mínu hjarta! Mikið er gott að einhver skuli geta orðað svo nákvæmlega það sem mér finnst!

Svipaða tilfinningu fær fólk fyrir framan verk  Gylfa Gíslasonar, sem nú eru sýnd í Ásmundarsal: gamansöm verk með þjóðfélagslegri skírskotun. Ekki ólíkum tilgangi þjónaði allt öðru vísi sýning Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar í Hafnarhúsi um daginn. Áhrifin: hugvekja, í þess orðs eiginlegu merkingu.

Þannig halda listamenn áfram að tala til þjóðarinnar og vekja hana til umhugsunar um sjálfa sig, um mannlegt eðli og innstu rök tilverunnar,  raunar um ystu rök hennar líka . Almennt verður niðurstaðan sú að fagna þeirri áráttu listamanna að skrá og kortleggja tilfinningalíf okkar allra, sem þeir gera hver með sínum hætti, í riti, tónum, myndum, dansi, kvikmyndum…

Þessi árátta mun halda listafólki áfram að verki þó að nú harðni í ári. Jafnframt verður ekki hjá því komist að benda á þann skell sem listalífið verður fyrir þessa dagana, kannski fyrr og harðar en flestar aðrar starfsgreinar. Þetta kom m.a. fram á aðalfundi Listahátíðar nú um daginn. Gert er ráð fyrir að framlög úr einkageiranum dragist stórlega saman.

Það hefur vitaskuld verið listaheiminum fagnaðarefni undanfarin ár að geta notið stuðnings frá stórfyrirtækjum í mun ríkara mæli en tíðkaðist áður fyrr. Nú eru þau stórfyrirtæki flest á hausnum, og þá standa eftir dýrmæt framlög frá ríki og bæjarfélögum. Þar er ekki alltaf um háar upphæðir að ræða, en þær skipta sköpum. Þær varða beinlínis tilveru okkar sem þjóðar.

Nú megna stjórnmálaleiðtogarnir ekki lengur að blása í okkur þjóðarstolti, og því síður sem þeir eru hærra settir. Þá kemur berlega í ljós hve mikilvæg sjálfstæð listræn tjáning er þjóðlífinu. Á öðrum umbrotatímum , nánar tiltekið á 4. áratug síðustu aldar, orðaði Jón Leifs þetta svo: “Menntamennirnir og listamennirnir eru landvarnarher vor Íslendinga.”

Útrás, uppáhaldsorð fjármálajöfranna, er orðið skammaryrði – alls staðar nema í listaheiminum. Þegar kemur að kynningu á landi og þjóð á erlendum vetvangi , eru fáir betur til þess fallnir en einmitt listamenn að berja í brestina sem aðrir hafa valdið.

 

Birt í Morgunblaðinu í nóvemberbyrjun 2008

 

Aðalfundur BÍL boðaður

Reykjavík, 29. desember 2008

 

Aðalfundarboð

Hér með er boðað til aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 31. janúar 2009. Fundarstaður verður ákveðinn síðar.

Kl. 11:00             Hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla forseta, reikningar, stjórnarkjör, skýrslur aðildarfélaga, ályktanir, önnur mál.

Minnt er á skriflegar skýrslur hvers félags, sem skulu fluttar og lagðar fram á fundinum.

Kl. 13:00                        Hádegisverður

Kl. 14:00                        Málþing um stöðu listamanna á krepputíma

 

Í lögum BÍL stendur:

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.

Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.

 

Ágúst Guðmundsson

Forseti BÍL

 

Nefnd til að ræða listamannalaunin

Stjórn BÍL hefur tilnefnt fimm úr stjórn til að ræða frekar listamannalaunin við menntamálaráðuneytið. Þau eru Áslaug Thorlacius, Jakob Frímann Magnússon, Karen María Jónsdóttir, Kjartan Ólafsson og Pétur Gunnarsson.

Fyrirkomulag þetta er vaxið upp úr fundi sem stjórn BÍL átti með menntamálaráðherra og starfsliði ráðuneytisins í síðasta mánuði. Vonast stjórn BÍL til þess að málið fái skjóta afgreiðslu og nái inn á þing fyrir sumarið.

 

Ályktun um Ríkisútvarpið

3. desember var eftirfarandi ályktun samþykkt á fundi stjórnar BÍL:

Stjórn BÍL undrast síðustu ráðstafanir yfirstjórnar Ríkisútvarpsins sem miða að því að skerða innlenda dagskrá og segja upp dýrmætum vinnukrafti. Á óvissu- og örlagatímum eins og þeim sem þjóðin nú lifir er þörfin á efnisríkri umfjöllun meiri en nokkru sinni.

Ríkisútvarpinu ber að rækja lögbundnar skyldur sínar um innlenda dagskrá og metnaðarfulla menningarstefnu, fjalla um íslenskan veruleika, framkalla hann og skilja. Lykilatriði er að samningur RÚV við menntamálaráðuneytið um nýsköpun í dagskrárgerð verði uppfylltur undanbragðalaust.

Tilgangur og tilverugrundvöllur Ríkisútvarpsins felst fyrst og fremst í innlendri dagskrá. Bandalag íslenskra listamanna hvetur þá sem málið varða – íslensku þjóðina – að fylkja sér um þá stefnu og fylgja henni eftir.

 

Fulltrúar BÍL í fagnefnd borgarinnar

Að venju lagði stjórn BÍL fram lista með 15 nöfnum, sem Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur gat valið úr 5 í svokallaða fagnefnd ráðsins. Sú nefnd fer yfir umsóknir um starfsstyrki sem ráðið veitir til menningar og lista.

Á fundi ráðsins, föstudaginn 10. október, voru eftirtaldir valdir í fagnefndina:

Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur

Ívar Valgarðsson, myndlistarmaður

Hulda Björk Garðarsdóttir, söngkona

Ólafur J. Engilbertsson, hönnuður og gagnrýnandi

Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri

Fagnefndin leggur niðurstöður sínar fyrir Menningar- og ferðamálaráð, sem væntanlega mun tilkynna um úthlutanir fyrir næstkomandi áramót.

 

Saga BÍL fyrstu árin

Ágúst Guðmundsson:

 

Vorið 1928 voru samþykkt á alþingi lög um Menningarsjóð. Etv hefur þetta að einhverju leyti komið listamönnum af stað til að stofna með sér samtök, en reyndar er vitað um þreifingar þar að lútandi nokkrum árum fyrr.

Öllum ber saman um að helsti hvatamaður að stofnun Bandalagsins hafi verið Jón Leifs. Hann setti m.a. saman fyrsta uppkastið að lögum þess og hann gerði sér sérstaka ferð frá Þýskalandi til Norður Sjálands til að fá Gunnar Gunnarsson að taka að sér formannsembættið. Þessi fyrsta stjórn er reyndar svolítið einkennilega dreifð, ekki síst á þessum tímum: Gunnar, formaðurinn, bjó í Danmörku, Jón Leifs, ritarinn, bjó í Þýskalandi – sá eini sem var á Íslandi var gjaldkerinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, sem mátti þola athugasemdir og umvandanir hinna, ekki síst Jóns, fyrir framtaksleysi fyrstu árin. Einu svarbréfi Guðmundar til Jóns lýkur svo: “ Þið megið ekki taka til þess þótt ég sé ekki alltaf til staðar að svara bréfum og vinna fyrir bandalagið því ég met skíðarferðir um fjöllin meir en okkar áhugalausu collega.” Þetta var eftir framhaldsaðalfund, þar sem einungis 4 mættu og var ólöglegur fyrir vikið.

Jón Leifs vildi takmarka inngöngu í Bandalagið mjög verulega. Hann sagði: “Ég álít að við getum ekki aukið álit bandalagsins með því að kjósa hvern þann sem getur ort góð kvæði eða hefur góða söngrödd, strax sem aðalfélaga bandalagsins. Slík kosning er að mínum dómi merkilegri viðurkenning en svo…”

Stofnfélagar voru þó 48, og voru þar í hópi svo til allir þeir sem vetlingi gátu valdið í íslenskum listheimi.

Af hverju skyldi Jón hafa lagt á það svo ríka áherslu að fá Gunnar Gunnarsson sem formann? Þar kemur tvennt til. Bæði var að þeir höfðu skipst á skoðunum um málið og unnið saman að undirbúningi þess. Hin ástæðan, sem væntanlega hefur ekki skipt minna máli, var frægð og vinsældir Gunnars. Hann var Björk og Ólafur Elíasson síns tíma. Upphefðin kom að utan, þá ekki síður en nú.

Baráttumálin voru ekki ósvipuð og þau hafa verið alla tíð síðan. Barátta fyrir réttindum höfunda fór strax af stað, einkum í því að fá íslensk stjórnvöld til að undirrita Bernarsáttmálann um höfundarrétt, en það reyndist ekki beinlínis auðsótt. Það tók nokkur ár að fá valdhafana til að viðurkenna Bandalagið sem málsvara listamanna, en virðist þó vera komið á um miðjan fjórða áratuginn, enda eru þá hafin nokkuð regluleg samskipti á milli þessara aðila.

Páll Ísólfsson tók við af Gunnari sem formaður, en með honum í stjórn voru Halldór Laxness ritari og Guðmundur frá Miðdal, gjaldkeri. Áhersla var greinilega lögð á að fá fulltrúa helstu höfuðgreinanna í stjórn. Á aðalfundi 1932 var stofnað til þriggja deilda innan Bandalagsins, fyrir rithöfunda, myndlistarmenn og tónlistarfólk. Einn úr hverri deild skyldi vera í aðalstjórninni, en hafa með sér tvo í deildinni.

Þessi skipting í deildir þróaðist áfram, þegar fram liðu stundir, eftir þörfum hverrar starfsstéttar fyrir sig, þannig að nú er Bandalagið regnhlífarsamtök fyrir 14 fagfélög listamanna.

Í kreppunni harðnaði á dalnum hjá listamönnum, ekki síður en öðrum. Bandalagið hafði þungar áhyggjur af minnkandi tekjum Menningarsjóðs, og ekki að ástæðulausu, þær fóru úr tæpum 72 þúsundum árið 1928 niður í tæp 23 þúsund árið 1934. Tekjurnar fyrstu árin voru svokallaðar brennivínssektir, hugmynd Jónasar frá Hriflu var að ómenning skyldi greiða fyrir menningu, en ómenningin lendir líka í kreppu eins og annað og brennivínssektirnar gáfu ekki eins mikið af sér og vonir stóðu til.

Bandalaginu tókst vel upp við erlend samskipti, varð snemma aðili að alþjóðlegu samstarfi rithöfunda í pen-klúbbnum, í norræna rithöfundaráðinu, sem Gunnar Gunnarsson sat marga fundi hjá, og hjá öðrum norrænum listrænum samtökum. Hugmyndin um íslenskt listráð kom snemma, virðist fyrst orðuð af Jóni Leifs, sem varð þriðji formaður BÍL árið 1936. Það hefur enn ekki orðið að veruleika, en stjórn Bandalagsins er það sem kemst næst því nú að vera listráð Íslands, enda hefur hún skyldum að gegna bæði gagnvart ríki og borg, en náttúrulega fyrst og síðast gagnvart listamönnunum sjálfum.

Fyrstu árin voru margar tilraunir gerðar við að koma saman myndlistarsýningu með völdum verkum félagsmanna, en aldrei varð samstaða um stefnuna. Til dæmis sagði Jóhann Briem tvisvar af sér embætti sýningarstjóra, og ekki tókst mönnum að koma sér saman um hvað skyldi sýna fyrr en árið 1936, þá var sýning í Miðbæjarskólanum. Það var reyndar sýning sem hafði verið í Noregi og hlotið góða dóma þar. Myndlistarsýning á vegum Bandalagsins var aftur haldin næstu árin við töluverðar vinsældir. Í höfuðborginni var enginn sýningarsalur, svo að notast varð við Miðbæjarskólann – og þá njóta lags í júlí-mánuði, en það var eini tíminn sem húsið var laust.

Mikið var deilt um styrki til listamanna, þá sem nú. Pólitíkin blandaðist oft inn í þær deilur, enda sáu stjórnmálamenn um að útdeila styrkjunum. Einna hatrammastar urðu deilurnar árin 1940 og 1941. Þá vildi Jónas frá Hriflu að Menntamálaráð sæi eitt um að veita styrkjum til listamanna, en að “taka af þinginu þann ruslakistubrag þegar menn óðu hingað inn eins og þeim gott þótti og fylltu deildirnar til skiptis og settu þannig blæ á þingið að það líktist helst sjóbúð”. Bandalaginu leist ekki vel á þessa tilhögun, treysti ekki Menntamálaráði til að halda utan um þetta og taldi betra að “valdið til fjárveitinga til einstakra listamanna yrði áfram í höndum alþingis.

Menntamálaráð hafði betur og hóf nú að hagræða styrkjum til listamanna eftir sínum smekk. Vinstri sinnaðir rithöfundar fóru fremur illa út úr því. Má þar t.d. nefna að Halldór Laxness var settur í annan flokk höfunda, með þeim afleiðingum að hann stofnaði “sjóð til styrktar andlegu frelsi rithöfunda og lagði fram styrk sinn sem stofnfé”. Við næstu styrkveitingu hafði hann annan hátt á mótmælum sínum. Þann 7. janúar 1941 birtist í Morgunblaðinu: Yfirlýsing frá Halldóri Kiljan Laxness:

“Af gefnu tilefni lýsi jeg yfir því, að jeg undirritaður hvorki á nje vil eiga nein fjárhagsleg samskifti eða önnur við svokallað Mentamálaráð, og leyfi mjer því að biðjast mjög eindregið undan öllum afskiftum þessarar stofnunar, þar á meðal auglýsingum um óumbeðnar og fyrirfram afþakkaðar peninga-“úthlutanir” hennar mjer til handa.”

Á þessum tíma var Halldór nýbúinn með Sjálfstætt fólk og var að vinna að Íslandsklukkunni. Svona eftir á að hyggja er þetta dálítið undarlegur tími til að lækka skáldastyrkinn til hans. Aðrir sem lentu í niðurskurðinum voru m.a. Þórbergur Þórðarson og Jóhannes úr Kötlum.

Ekki er síður þekkt andóf Jónasar frá Hriflu við klessumálurunum svokölluðu, en Menntamálaráð efndi til málverkasýningar sem ætluð var viðkomandi listamönnum til háðungar – í glugga Gefjunar við Aðalstræti. Þar gat að líta verk eftir Gunnlaug Scheving, Jóhann Briem, Jón Engilberts og Þorvald Skúlason, en alverst þótti svo mynd Jóns Stefánssonar, Ungmeyjan og Þorgeirsboli.

Þessi framkvæmd Menntamálaráðs snerist reyndar mjög í höndunum á ráðinu. Hitler hafði leikið svipaðan leik nokkrum árum áður, að halda háðssýningu á nútímalist, og var til þess vísað, auk þess sem skrif í blöðum bentu flest til þess að fólk kynni almennt vel að meta viðkomandi verk, að minnsta kosti betur en Jónas frá Hriflu.

Og þó að deilan við Menntamálaráð hefði á sér pólitískan blæ varð hún þó til að þjappa listamönnum saman, a.m.k. um stundarsakir hvar í flokki sem þeir voru. Listamenn sem ekki voru þekktir fyrir vinstrimennsku skrifuðu gegn pólitísku mati á félögum sínum. Í Helgafelli, sem ritstýrt var af Tómasi Guðmundssyni og Magnúsi Ásgeirssyni, stendur: “… það er löngu komið fram, að þykist formaðurinn þurfa að ná sér niðri á einhverjum óþjálum einstaklingi, innan listamannastéttar eða utan, gerir hann sér hægt um vik, í samræmi við reglu Hitlers: “Wer Jude ist, bestimme ich” – “Það er ég sem ákveð hverjir eru Gyðingar”, og skrásetur hann sem kommúnista – “til hægðarauka”, að því er blað hans segir. Með þessum íslensku Gyðingaofsóknum er því stefnt að fullu öryggisleysi allra listamanna og jafnframt þeim tilgangi að sveigja þá til undirgefni við lífsskoðun formannsins og þær listskoðanir hans er áður hafa verið ættfærðar hér í tímaritinu.”

Nú á dögum tölum við um armslengdarreglu og jafningjamat. Listamaðurinn á rétt á því að verk hans séu metin af fagmennsku á opinberum vetvangi og án beinna pólitískra afskipta. Þessi krafa var rétt að komast upp á borðið á þessum árum og þótti djörf. Hún er enn ekki alveg meðtekin á Íslandi. Til dæmis er alþingi enn að úthluta beint heiðurslaunum sínum til listamanna.

Besta dæmið um samstillingu listamanna árið 1942 var Listamannaþingið sem haldið var í nóvember. Þá var Jóhann Briem formaður, Tómas Guðmundsson var ritari, og Árni Kristjánsson, píanóleikari, var gjaldkeri. Þetta var í rauninni fyrsta listahátíðin í Reykjavík, formaður framkvæmdanefndarinnar, Páll Ísólfsson, lagði meira að segja til að framvegis yrði slík hátíð haldin annað hvert ár.

Dagskráin var glæsileg – og algjörlega íslensk. Myndlistarsýning var í Oddfellow-húsinu, þættir úr íslenskum leikritum voru í Iðnó, en síðan voru tónleikar í Gamla bíói og rithöfundakvöld og tónleikar í hátíðarsal Háskólans, auk þess sem sérstakri dagskrá var útvarpað hvert kvöld frá þinginu. Veislan stóð í viku og þótti takast með eindæmum vel.

Í þessari lauslegu samantekt á fyrstu árum Bandalags íslenskra listamanna hef ég einkum stuðst við ritgerð Ingunnar Þóru Magnúsdóttur sagnfræðings um efnið, en hún hefur skráð sögu Bandalagsins og er sú saga einstaklega skemmtileg aflestrar. Vonir standa til að smiðshöggið verði rekið á verkið áður en langt um líður svo að afraksturinn komi fyrir sjónir almennings.

Við upphaf Listamannaþings árið 1942 var flutt lag Emils Thoroddsen við kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Söngur listamanna. Ég lýk máli mínu á þessu ágæta ljóði, sem enn á erindi til okkar.

 

 

Kom, listagyðja, í ljóma og tign

og leið oss um hið dimma svið.

Og gef oss fegurð, gef oss ljós

og gef oss frið –

gef friðinn til að færa þér

þá fórn sem dýrsta eigum vér

og þolir blóð og bið.

 

Og helga ljóð vort, sögu og söng

með sigurvon hins þjáða manns,

og lát oss skynja tregans tón

í tári hans.

Og lát oss mála og meitla í stein

þá mynd er speglast björt og hrein

í gleði lýðs og lands.

 

Og lát oss standa, sterka í þraut,

á stoltum verði ár og síð.

Og gef oss hugsjón, gef oss eld

og gef oss stríð

– gef stríð vors anda: uppreisn hans

gegn yfirtroðslum kúgarans

og vopnavaldsins lýð.

 

Og lát vort hjarta loga um nótt

hjá lífi því er draumnum ann

um nýjan himin, nýja jörð

og nýjan mann.

Lát rísa yfir rauðan val

það ríki vort, sem koma skal,

og hyllir þig og hann.

Page 22 of 27« First...10...2021222324...Last »