Fréttir

Aðalfundur BÍL boðaður

Reykjavík, 29. desember 2008

 

Aðalfundarboð

Hér með er boðað til aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 31. janúar 2009. Fundarstaður verður ákveðinn síðar.

Kl. 11:00             Hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla forseta, reikningar, stjórnarkjör, skýrslur aðildarfélaga, ályktanir, önnur mál.

Minnt er á skriflegar skýrslur hvers félags, sem skulu fluttar og lagðar fram á fundinum.

Kl. 13:00                        Hádegisverður

Kl. 14:00                        Málþing um stöðu listamanna á krepputíma

 

Í lögum BÍL stendur:

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.

Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.

 

Ágúst Guðmundsson

Forseti BÍL

 

Nefnd til að ræða listamannalaunin

Stjórn BÍL hefur tilnefnt fimm úr stjórn til að ræða frekar listamannalaunin við menntamálaráðuneytið. Þau eru Áslaug Thorlacius, Jakob Frímann Magnússon, Karen María Jónsdóttir, Kjartan Ólafsson og Pétur Gunnarsson.

Fyrirkomulag þetta er vaxið upp úr fundi sem stjórn BÍL átti með menntamálaráðherra og starfsliði ráðuneytisins í síðasta mánuði. Vonast stjórn BÍL til þess að málið fái skjóta afgreiðslu og nái inn á þing fyrir sumarið.

 

Ályktun um Ríkisútvarpið

3. desember var eftirfarandi ályktun samþykkt á fundi stjórnar BÍL:

Stjórn BÍL undrast síðustu ráðstafanir yfirstjórnar Ríkisútvarpsins sem miða að því að skerða innlenda dagskrá og segja upp dýrmætum vinnukrafti. Á óvissu- og örlagatímum eins og þeim sem þjóðin nú lifir er þörfin á efnisríkri umfjöllun meiri en nokkru sinni.

Ríkisútvarpinu ber að rækja lögbundnar skyldur sínar um innlenda dagskrá og metnaðarfulla menningarstefnu, fjalla um íslenskan veruleika, framkalla hann og skilja. Lykilatriði er að samningur RÚV við menntamálaráðuneytið um nýsköpun í dagskrárgerð verði uppfylltur undanbragðalaust.

Tilgangur og tilverugrundvöllur Ríkisútvarpsins felst fyrst og fremst í innlendri dagskrá. Bandalag íslenskra listamanna hvetur þá sem málið varða – íslensku þjóðina – að fylkja sér um þá stefnu og fylgja henni eftir.

 

Fulltrúar BÍL í fagnefnd borgarinnar

Að venju lagði stjórn BÍL fram lista með 15 nöfnum, sem Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur gat valið úr 5 í svokallaða fagnefnd ráðsins. Sú nefnd fer yfir umsóknir um starfsstyrki sem ráðið veitir til menningar og lista.

Á fundi ráðsins, föstudaginn 10. október, voru eftirtaldir valdir í fagnefndina:

Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur

Ívar Valgarðsson, myndlistarmaður

Hulda Björk Garðarsdóttir, söngkona

Ólafur J. Engilbertsson, hönnuður og gagnrýnandi

Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri

Fagnefndin leggur niðurstöður sínar fyrir Menningar- og ferðamálaráð, sem væntanlega mun tilkynna um úthlutanir fyrir næstkomandi áramót.

 

Saga BÍL fyrstu árin

Ágúst Guðmundsson:

 

Vorið 1928 voru samþykkt á alþingi lög um Menningarsjóð. Etv hefur þetta að einhverju leyti komið listamönnum af stað til að stofna með sér samtök, en reyndar er vitað um þreifingar þar að lútandi nokkrum árum fyrr.

Öllum ber saman um að helsti hvatamaður að stofnun Bandalagsins hafi verið Jón Leifs. Hann setti m.a. saman fyrsta uppkastið að lögum þess og hann gerði sér sérstaka ferð frá Þýskalandi til Norður Sjálands til að fá Gunnar Gunnarsson að taka að sér formannsembættið. Þessi fyrsta stjórn er reyndar svolítið einkennilega dreifð, ekki síst á þessum tímum: Gunnar, formaðurinn, bjó í Danmörku, Jón Leifs, ritarinn, bjó í Þýskalandi – sá eini sem var á Íslandi var gjaldkerinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, sem mátti þola athugasemdir og umvandanir hinna, ekki síst Jóns, fyrir framtaksleysi fyrstu árin. Einu svarbréfi Guðmundar til Jóns lýkur svo: “ Þið megið ekki taka til þess þótt ég sé ekki alltaf til staðar að svara bréfum og vinna fyrir bandalagið því ég met skíðarferðir um fjöllin meir en okkar áhugalausu collega.” Þetta var eftir framhaldsaðalfund, þar sem einungis 4 mættu og var ólöglegur fyrir vikið.

Jón Leifs vildi takmarka inngöngu í Bandalagið mjög verulega. Hann sagði: “Ég álít að við getum ekki aukið álit bandalagsins með því að kjósa hvern þann sem getur ort góð kvæði eða hefur góða söngrödd, strax sem aðalfélaga bandalagsins. Slík kosning er að mínum dómi merkilegri viðurkenning en svo…”

Stofnfélagar voru þó 48, og voru þar í hópi svo til allir þeir sem vetlingi gátu valdið í íslenskum listheimi.

Af hverju skyldi Jón hafa lagt á það svo ríka áherslu að fá Gunnar Gunnarsson sem formann? Þar kemur tvennt til. Bæði var að þeir höfðu skipst á skoðunum um málið og unnið saman að undirbúningi þess. Hin ástæðan, sem væntanlega hefur ekki skipt minna máli, var frægð og vinsældir Gunnars. Hann var Björk og Ólafur Elíasson síns tíma. Upphefðin kom að utan, þá ekki síður en nú.

Baráttumálin voru ekki ósvipuð og þau hafa verið alla tíð síðan. Barátta fyrir réttindum höfunda fór strax af stað, einkum í því að fá íslensk stjórnvöld til að undirrita Bernarsáttmálann um höfundarrétt, en það reyndist ekki beinlínis auðsótt. Það tók nokkur ár að fá valdhafana til að viðurkenna Bandalagið sem málsvara listamanna, en virðist þó vera komið á um miðjan fjórða áratuginn, enda eru þá hafin nokkuð regluleg samskipti á milli þessara aðila.

Páll Ísólfsson tók við af Gunnari sem formaður, en með honum í stjórn voru Halldór Laxness ritari og Guðmundur frá Miðdal, gjaldkeri. Áhersla var greinilega lögð á að fá fulltrúa helstu höfuðgreinanna í stjórn. Á aðalfundi 1932 var stofnað til þriggja deilda innan Bandalagsins, fyrir rithöfunda, myndlistarmenn og tónlistarfólk. Einn úr hverri deild skyldi vera í aðalstjórninni, en hafa með sér tvo í deildinni.

Þessi skipting í deildir þróaðist áfram, þegar fram liðu stundir, eftir þörfum hverrar starfsstéttar fyrir sig, þannig að nú er Bandalagið regnhlífarsamtök fyrir 14 fagfélög listamanna.

Í kreppunni harðnaði á dalnum hjá listamönnum, ekki síður en öðrum. Bandalagið hafði þungar áhyggjur af minnkandi tekjum Menningarsjóðs, og ekki að ástæðulausu, þær fóru úr tæpum 72 þúsundum árið 1928 niður í tæp 23 þúsund árið 1934. Tekjurnar fyrstu árin voru svokallaðar brennivínssektir, hugmynd Jónasar frá Hriflu var að ómenning skyldi greiða fyrir menningu, en ómenningin lendir líka í kreppu eins og annað og brennivínssektirnar gáfu ekki eins mikið af sér og vonir stóðu til.

Bandalaginu tókst vel upp við erlend samskipti, varð snemma aðili að alþjóðlegu samstarfi rithöfunda í pen-klúbbnum, í norræna rithöfundaráðinu, sem Gunnar Gunnarsson sat marga fundi hjá, og hjá öðrum norrænum listrænum samtökum. Hugmyndin um íslenskt listráð kom snemma, virðist fyrst orðuð af Jóni Leifs, sem varð þriðji formaður BÍL árið 1936. Það hefur enn ekki orðið að veruleika, en stjórn Bandalagsins er það sem kemst næst því nú að vera listráð Íslands, enda hefur hún skyldum að gegna bæði gagnvart ríki og borg, en náttúrulega fyrst og síðast gagnvart listamönnunum sjálfum.

Fyrstu árin voru margar tilraunir gerðar við að koma saman myndlistarsýningu með völdum verkum félagsmanna, en aldrei varð samstaða um stefnuna. Til dæmis sagði Jóhann Briem tvisvar af sér embætti sýningarstjóra, og ekki tókst mönnum að koma sér saman um hvað skyldi sýna fyrr en árið 1936, þá var sýning í Miðbæjarskólanum. Það var reyndar sýning sem hafði verið í Noregi og hlotið góða dóma þar. Myndlistarsýning á vegum Bandalagsins var aftur haldin næstu árin við töluverðar vinsældir. Í höfuðborginni var enginn sýningarsalur, svo að notast varð við Miðbæjarskólann – og þá njóta lags í júlí-mánuði, en það var eini tíminn sem húsið var laust.

Mikið var deilt um styrki til listamanna, þá sem nú. Pólitíkin blandaðist oft inn í þær deilur, enda sáu stjórnmálamenn um að útdeila styrkjunum. Einna hatrammastar urðu deilurnar árin 1940 og 1941. Þá vildi Jónas frá Hriflu að Menntamálaráð sæi eitt um að veita styrkjum til listamanna, en að “taka af þinginu þann ruslakistubrag þegar menn óðu hingað inn eins og þeim gott þótti og fylltu deildirnar til skiptis og settu þannig blæ á þingið að það líktist helst sjóbúð”. Bandalaginu leist ekki vel á þessa tilhögun, treysti ekki Menntamálaráði til að halda utan um þetta og taldi betra að “valdið til fjárveitinga til einstakra listamanna yrði áfram í höndum alþingis.

Menntamálaráð hafði betur og hóf nú að hagræða styrkjum til listamanna eftir sínum smekk. Vinstri sinnaðir rithöfundar fóru fremur illa út úr því. Má þar t.d. nefna að Halldór Laxness var settur í annan flokk höfunda, með þeim afleiðingum að hann stofnaði “sjóð til styrktar andlegu frelsi rithöfunda og lagði fram styrk sinn sem stofnfé”. Við næstu styrkveitingu hafði hann annan hátt á mótmælum sínum. Þann 7. janúar 1941 birtist í Morgunblaðinu: Yfirlýsing frá Halldóri Kiljan Laxness:

“Af gefnu tilefni lýsi jeg yfir því, að jeg undirritaður hvorki á nje vil eiga nein fjárhagsleg samskifti eða önnur við svokallað Mentamálaráð, og leyfi mjer því að biðjast mjög eindregið undan öllum afskiftum þessarar stofnunar, þar á meðal auglýsingum um óumbeðnar og fyrirfram afþakkaðar peninga-“úthlutanir” hennar mjer til handa.”

Á þessum tíma var Halldór nýbúinn með Sjálfstætt fólk og var að vinna að Íslandsklukkunni. Svona eftir á að hyggja er þetta dálítið undarlegur tími til að lækka skáldastyrkinn til hans. Aðrir sem lentu í niðurskurðinum voru m.a. Þórbergur Þórðarson og Jóhannes úr Kötlum.

Ekki er síður þekkt andóf Jónasar frá Hriflu við klessumálurunum svokölluðu, en Menntamálaráð efndi til málverkasýningar sem ætluð var viðkomandi listamönnum til háðungar – í glugga Gefjunar við Aðalstræti. Þar gat að líta verk eftir Gunnlaug Scheving, Jóhann Briem, Jón Engilberts og Þorvald Skúlason, en alverst þótti svo mynd Jóns Stefánssonar, Ungmeyjan og Þorgeirsboli.

Þessi framkvæmd Menntamálaráðs snerist reyndar mjög í höndunum á ráðinu. Hitler hafði leikið svipaðan leik nokkrum árum áður, að halda háðssýningu á nútímalist, og var til þess vísað, auk þess sem skrif í blöðum bentu flest til þess að fólk kynni almennt vel að meta viðkomandi verk, að minnsta kosti betur en Jónas frá Hriflu.

Og þó að deilan við Menntamálaráð hefði á sér pólitískan blæ varð hún þó til að þjappa listamönnum saman, a.m.k. um stundarsakir hvar í flokki sem þeir voru. Listamenn sem ekki voru þekktir fyrir vinstrimennsku skrifuðu gegn pólitísku mati á félögum sínum. Í Helgafelli, sem ritstýrt var af Tómasi Guðmundssyni og Magnúsi Ásgeirssyni, stendur: “… það er löngu komið fram, að þykist formaðurinn þurfa að ná sér niðri á einhverjum óþjálum einstaklingi, innan listamannastéttar eða utan, gerir hann sér hægt um vik, í samræmi við reglu Hitlers: “Wer Jude ist, bestimme ich” – “Það er ég sem ákveð hverjir eru Gyðingar”, og skrásetur hann sem kommúnista – “til hægðarauka”, að því er blað hans segir. Með þessum íslensku Gyðingaofsóknum er því stefnt að fullu öryggisleysi allra listamanna og jafnframt þeim tilgangi að sveigja þá til undirgefni við lífsskoðun formannsins og þær listskoðanir hans er áður hafa verið ættfærðar hér í tímaritinu.”

Nú á dögum tölum við um armslengdarreglu og jafningjamat. Listamaðurinn á rétt á því að verk hans séu metin af fagmennsku á opinberum vetvangi og án beinna pólitískra afskipta. Þessi krafa var rétt að komast upp á borðið á þessum árum og þótti djörf. Hún er enn ekki alveg meðtekin á Íslandi. Til dæmis er alþingi enn að úthluta beint heiðurslaunum sínum til listamanna.

Besta dæmið um samstillingu listamanna árið 1942 var Listamannaþingið sem haldið var í nóvember. Þá var Jóhann Briem formaður, Tómas Guðmundsson var ritari, og Árni Kristjánsson, píanóleikari, var gjaldkeri. Þetta var í rauninni fyrsta listahátíðin í Reykjavík, formaður framkvæmdanefndarinnar, Páll Ísólfsson, lagði meira að segja til að framvegis yrði slík hátíð haldin annað hvert ár.

Dagskráin var glæsileg – og algjörlega íslensk. Myndlistarsýning var í Oddfellow-húsinu, þættir úr íslenskum leikritum voru í Iðnó, en síðan voru tónleikar í Gamla bíói og rithöfundakvöld og tónleikar í hátíðarsal Háskólans, auk þess sem sérstakri dagskrá var útvarpað hvert kvöld frá þinginu. Veislan stóð í viku og þótti takast með eindæmum vel.

Í þessari lauslegu samantekt á fyrstu árum Bandalags íslenskra listamanna hef ég einkum stuðst við ritgerð Ingunnar Þóru Magnúsdóttur sagnfræðings um efnið, en hún hefur skráð sögu Bandalagsins og er sú saga einstaklega skemmtileg aflestrar. Vonir standa til að smiðshöggið verði rekið á verkið áður en langt um líður svo að afraksturinn komi fyrir sjónir almennings.

Við upphaf Listamannaþings árið 1942 var flutt lag Emils Thoroddsen við kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Söngur listamanna. Ég lýk máli mínu á þessu ágæta ljóði, sem enn á erindi til okkar.

 

 

Kom, listagyðja, í ljóma og tign

og leið oss um hið dimma svið.

Og gef oss fegurð, gef oss ljós

og gef oss frið –

gef friðinn til að færa þér

þá fórn sem dýrsta eigum vér

og þolir blóð og bið.

 

Og helga ljóð vort, sögu og söng

með sigurvon hins þjáða manns,

og lát oss skynja tregans tón

í tári hans.

Og lát oss mála og meitla í stein

þá mynd er speglast björt og hrein

í gleði lýðs og lands.

 

Og lát oss standa, sterka í þraut,

á stoltum verði ár og síð.

Og gef oss hugsjón, gef oss eld

og gef oss stríð

– gef stríð vors anda: uppreisn hans

gegn yfirtroðslum kúgarans

og vopnavaldsins lýð.

 

Og lát vort hjarta loga um nótt

hjá lífi því er draumnum ann

um nýjan himin, nýja jörð

og nýjan mann.

Lát rísa yfir rauðan val

það ríki vort, sem koma skal,

og hyllir þig og hann.

BÍL 80 ÁRA

Pétur Gunnarsson:

 

Það er gaman að vera listamaður á góðum degi, að ekki sé talað um á hátíðisdegi eins og þessum þegar við fögnum áttræðisafmæli BÍL. Því það er viss passi þegar litið er til baka þá blasa listirnar við í öllu sínu veldi, heilu tímabilin virðast borin uppi af listamönnum og listaverkum, dægurþras og rígur hafa vikið fyrir þeirri vissu að þegar tíminn er liðinn standa listirnar eftir sem vitnisburður um það hver við vorum.

Og þótt það sé vissulega heiður að vera meðlimur í Bandalagi íslenskra listamanna, BÍL, þá er það ekkert á móts við komandi aðild að Bandalagi íslenskra látinna listamanna, skammstafað BÍLL, – þótt inntökuskilyrðin séu kannski full strembin.

En við skulum líka minnast þess að á meðan þessir látnu félagar okkar voru á dögum var líf þeirra ekki alltaf dans á rósum (hefur annars nokkur nokkurntímann dansað á rósum?) og til marks um það má hafa litla sögu sem skáldið Steinn Steinarr sagði frá því í byrjun fimmta áratugarins – en í næsta mánuði fögnum við einmitt aldarminningu hans.

Einhverju sinni var hann á gangi niður í bæ og mætti þá heimssöngvaranum Eggerti Stefánssyni. Söngvaranum var mikið niðrifyrir, nýbúinn að missa húsnæðið og sagðist ætla að láta taka af sér mynd úti á götu með öllum sínum mubblum – íslenskum stjórnvöldum til háðungar.

Já, sagði Steinn, og ég skal vera með þér á myndinni.

Nei, þú ert ekki mubbla, svaraði söngvarinn þá.

Og það má vissulega til sanns vegar færa, listamenn eru ekki mubblur og um Stein væri nær að hafa orðin sem sögð voru um annan mann, mannssoninn nánar tiltekið: “Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini”. Eða eins og hann komst sjálfur að orði í ljóði: “Og samt er mitt líf aðeins táknmynd af þessari þjóð/ og þjóðin sem heild er tengd við mitt ókunna ljóð.”

Það er sígilt baráttumál listamanna að vekja samtíð sína til vitundar um að listir eru ekki bara til í baksýnisspeglinum, þvert á móti eru þær leiðsögn um veginn fram undan. Stutt er síðan heimsmyndin var vissa, í dag er hún leit, það er segja sköpun. Stutt er síðan líf fólks var í svo föstum skorðum að það var hægt að segja fyrir um með talsverðri vissu hver yrðu viðfangsefni uppvaxandi kynslóða: bóndi, sjómaður, skrifstofumaður, húsmóðir… Í dag er framtíð mannanna barna opin spurning, enginn getur sagt fyrir um hvers konar viðfangsefni bíða hins nýfædda, þau störf sem tíðkast í dag verða vísast gjörbreytt og jafnvel horfin þegar börnin sem fæðast í morgun mæta til leiks.

Allt er deigla. Og í deiglu er sköpunin eðlilegasta viðbragðið. Listir drýgsta veganestið. “Tíminn er eins og vatnið” orti Steinn og nú er því spáð að vatnið verði mesta auðlind nýbyrjaðrar aldar. Sama gildir um tímann, hann er meira að segja það eina sem við eigum, þegar að er gáð. Og það er hlutverk listarinnar, nú sem aldrei fyrr, að breyta honum í merkingu.

 

Bandalagið áttrætt

Laugardaginn 6. september varð BÍL áttrætt. Af því tilefni var haldin afmælisveisla í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Veislan fór fram að viðstöddu fjölmenni, talið er að á milli 3-400 manns hafi safnast samani til að fagna þessum tímamótum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, flutti ávarp þar sem hún hét því að farið yrði í endurskoðun á lögum um starfslaun listamanna í samráði við stjórn BÍL. Aðrir sem fluttu ávörp voru Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, Pétur Gunnarsson, ritari BÍL, og Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL. Ávörp Péturs og Ágústar má lesa undir greinar.

 

Er list útflutningsvara?

Morgunverðarfundur fimmtudaginn 29. maí kl. 08.30-10.00 á Grand Hótel.

Eru list og viðskipti andstæður?

Hvað er menningarhagkerfi?

Er útflutningur lista háður opinberum styrkjum?

Útflutningsráð Íslands og Bandalag íslenskra listamanna bjóða til morgunverðarfundar. Umfjöllunarefni fundarins er útflutningur íslenskrar listar. Munu þrír fræðimenn velta fyrir sér spurningum sem varða stöðu listar innan hagkerfisins, hvernig list getur skapað þjóðfélaginu tekjur og hvort ríkið eigi að skipta sér af útflutningi listar með styrkjum.

 

Erindi flytja:

Margrét Sigrún Sigurðardóttir, aðjúnkt við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Gunnar Þór Jóhannesson, nýdoktor við Mannfræðistofnun Háskóla Íslands.

Njörður Sigurjónsson, lektor við Háskólann á Bifröst.

Fundarstjóri verður Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst.

Fundurinn er öllum opinn. Skráning fer fram í gegnum netfangið utflutningsrad@utflutningsrad.is eða í síma 511 4000.

 

Nánari upplýsingar veitir Bergur Ebbi Benediktsson verkefnisstjóri, bergur@utflutningsrad.is

 

Fundur með borgarstjóra

29. apríl síðastliðinn fór fram hinn árlegi samráðsfundur BÍL með borgarstjóranum í Reykjavík og Menningar- og ferðamálaráði. Fundurinn var, sem fyrr, haldinn í Höfða.

Megináhersla BÍL var annars vegar á danshúsi og hins vegar á kvikmyndaborginni Reykjavík.

Í upphafi tók forseti BÍL tvennt fram sem ekki var að finna á framlagðri málefnaskrá: 1) Framlög til listalífs í Reykjavík eru of lág, en vel er farið með það fé sem þó fæst. 2) Allir umræðupunktarnir sem lagðir voru fram eru atvinnuskapandi, enda eru meðlimir BÍL atvinnufólk, hvert í sinni grein.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður ráðsins, hafði góð orð um að athuga hvort þess væri kostur að borgin komi að stofnun danshúss í Reykjavík. Hugmyndin um danshús við höfnina þótti nýstárleg, en Friðriki Þór fannst hún þó varla listgreininni sæmandi og vildi metnaðarfyllri byggingu.

Um kvikmyndaborgina Reykjavík er það fyrst að segja að nú er verið að leita að stað undir það sem kvikmyndagerðarmenn vilja kalla kvikmyndaþorpið. Eftir fundinn var því stungið að atstoðarmanni borgarstjóra að Gufunes kæmi hugsanlega til greina.

Um list í almenningsrými virtust allir hafa sama áhugann.

Sama má segja um list í skólum – og raunar ekki síður. Lokið var lofsorði á framtak BÍL, Litróf listanna. Þorbjörg Helga lofaði að athuga skólasýningar í leikhúsum.

Fulltrúi arkitekta kom athugasemdum á framfæri varðandi Byggingarlistardeild Listasafnsins.

Borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, lýsti yfir undrun með hve tónlistarfólk vissi lítið um það sem til stendur í Tónlistarhúsinu. Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri, sagðist hafa sent langan fyrirspurnalista til Portus.

Gerður hefur verið samningur við Tónlistarþróunarmiðstöð, svo að það mál má segja að sé afgreitt með jákvæðum hætti.

Þorbjörg Helga lofaði að hafa samstarf við aðildarfélög BÍL um menningarstefnuna.

 

Fundur með menntamálaráðherra

Fimmtudaginn 27. mars kom stjórn BÍL til fundar við menntamálaráðherra. Þessi árlegi fundur með menntamálaráðuneytinu var að venju haldinn í Ráðherrabústaðnum.

BÍL hafði sent á undan sér 9 síðna málefnaskrá. Fyrst voru þar taldar upp ályktanir BÍL frá síðasta aðalfundi, en síðan komu þau mál sem formenn hinna ýmsu félaga vildu orða við ráðherrann.

Í svörum Þorgerðar Katrínar kom það meðal annars fram að hún hyggist taka listamannalaunin föstum tökum á árinu með lagabreytingu í huga, sem lögð verði fyrir Alþingi í haust. Hafði hún góð orð um að hafa forseta BÍL með í ráðum.

 

Page 22 of 27« First...10...2021222324...Last »